3.9.2014 | 09:43
Molar um málfar og miðla 1559
Rafn benti á eftirfarandi á Moggavef (02.09.2014) og segir:,,Það er víðar England en í Kaupmannahöfn!
Í mínu ungdæmi var Rendsburg bær í S-H, en ekki öfugt. Sjá : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/01/starfsmadur_skattstofu_skotinn/ ,,Starfsmaður á skattstofu í bænum Schleswig-Holstein í Rendsburg í Þýskalandi lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn á skattstofunni í morgun. Þetta kemur fram á fréttaveitunni The Local.
í heimildinni sem vísað er til segir: ,,A tax office worker in the Schleswig-Holstein town of Rendsburg died in hospital after being shot on Monday morning. Sá sem þýddi er annaðhvort hroðvirkur eða ekki vel að sér í ensku. Nema hvort tveggja sé. Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna.
Af slysni hlustaði Molaskrifari smástund á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (01.09.2014). Hlustar yfirleitt aldrei á þennan þátt, því þar er oftar en ekki framreidd ambögusúpa fyrir hlustendur. Umsjónarmenn sögðu hlustendum að tekist hefði að bjarga verðmætum jarðskjálftamæli undan hraunelfu. Hvorugt þeirra hafði fyrr heyrt orðið elfa og vissu greinilega ekkert í sinn haus. Hvaða kröfur gerir Ríkisútvarpið til þeirra sem falið er að stjórna þriggja klukkustund dagskrá í Ríkisútvarpinu fimm daga í viku ? Greinilega ekki miklar.
Ótrúlegt vatnsfall í Kaupmannahöfn er fréttabarnsfyrirsögn á visir.is (31.08.2014) http://www.visir.is/otrulegt-vatnsfall-i-kaupmannahofn/article/2014140839892
Fréttin er um óvenjulega mikla úrkomu í Kaupmannahöfn.
Í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2014) var sagt gífurleg úrkoma féll í nótt. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja , til dæmis, gífurleg úrkoma var í nótt. Í sama fréttatíma var sagt, - að verðbólga hefði verið með allra besta móti!
Úr Morgunblaðinu (01.09.2014) ,, ... framkvæmdastjóri Vísis segir að gæði fisksins hafi verið mjög góð ... Gæðin voru góð! Ekki var það nú verra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Góðan dag. Þessi frétt byrtist á mbl.is í dag.
"Ung kona, Meriam Rhaeim, hefur snúið aftur til Frakklands frá Tyrklandi með barnunga dóttur sína sem var numin á brott af eiginmanni Rhaeim og flutt til Sýrlands".
Rétt væri: ......dóttur sína, sem eiginmaður Rhaeim nam á brott og.....
Þetta minnir mig á frétt, sem birtist í sama miðli í vor. Þar stóð (reyndar ekki alveg orðrétt): "Þrír ungir innbrotsþjófar teknir af lögreglunni á Akureyri. Þeir meiga eiga von á háum sektum". Þrjár spurningar: Hver tók þjófana af lögreglunni? Er til fólk, sem vonast eftir háum sektum? Hvað kom fyrir "að búast við" eða "að gera ráð fyrir"?
Má birta undir nafni.
Auka: Hvernig ritar maður íslenskar gæsalappir á Mac?
Brynjar Þórðarson (IP-tala skráð) 4.9.2014 kl. 07:31
Kærar þakkir, Brynjar. Oft hefur í Molum verið minnst á vonda og óþarfa þolmyndarnotkun.
Eiður Svanberg Guðnason, 4.9.2014 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.