Molar um málfar og miðla 1550

  Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudag (21.08.2014) var talað um blóðlausa byltingu í Thailandi. Átt var við byltingu án blóðsúthellinga. Í hádegisfréttum sama miðils sama dag var talað fjallaskilastjóra. Átti að vera fjallskilastjóri, fjallkóngur, sá sem stjórnar leitum, gangnaforingi. Þetta var rétt í fréttum daginn eftir.

 

Mikið hefði verið gaman, ef Ríkissjónvarpið hefði nú ,,spanderað” á okkur beinni útsendingu á BBC Proms tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Ísland í gærkveldi (21.08.2014). En þetta var auðvitað ekki fótboltaleikur.

Þess í stað var tónleikunum útvarpað upp á gamla mátann á Rás eitt. Hlustendafjöldi? Hvaða segja kannanir?

Þeir, sem hafa aðgang að BBC4, gátu hinsvegar notið frábærra BBC Proms tónleika frá 17.þessa mánaðar  til minningar um fyrri heimsstyrjöldina. Yfirskriftin var Prom 42:Lest We Forget, - Svo við ekki gleymum. Þar flutti skoska BBC sinfónían verk eftir þrjú ung tónskáld,sem öll létu lífið í styrjöldinni svo og Pastoral sinfóníu Vaughan Williams. Konfekt.

 

Barn bitið af kameldýri, sagði í fyrirsögn á mbl.is (21.08.2014). Allsendis óþörf þolmynd. Kameldýr beit barn. Forðast skal óþarfa þolmyndarnotkun í fréttaskrifum, - og raunar öllum skrifum.

 

Molaskrifari leyfir sér að spyrja: Hver árinn er þetta Rúvak, sem alltaf var verið að tönnlast á í auglýsingatíma Ríkisútvarps eftir hádegið á fimmtudag  (21.08.20145)? Var verið að tala um útibú, eða starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri?

 

Í auglýsingablaði frá Hamborgarafabrikkunni sem fylgdi Morgunblaðinu á fimmtudag (21.08.2014) var talað um Happy hour, - hversvegna þarf að nota ensku? Má ekki kalla þetta gleðistund? Annars var verið að auglýsa áfengi, sem til boða stæði á tilteknum tímum.

 

Molaskrifari heyrði síðdegis á fimmtudag og á fimmtudagskvöld að Ríkisútvarpið ætlar að halda því til streitu að láta okkur hlusta á þul, sem les með hvimleiðum sönglanda og óeðlilegri hrynjandi, - ef við viljum hlusta á Rás eitt. Það ætti að fá þessum starfsmanni annað starf. Stingur mjög í stúf við góða þuli Ríkisútvarpsins. Er það svo að stjórnendur heyri þetta ekki ? Kannski hlusta þeir ekki.

 

Alvarleg tíðindi voru flutt í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (20.08.2014). Vaxplötusafn , segulbandasafn og myndbandasafn Ríkisútvarpsins liggja undir skemmdum. Efni er að hverfa; bókstaflega gufa upp og verða að engu og vaxplötur molna og eyðileggjast. Þetta er alvarlegt mál. Nú þarf yfirmaður Ríkisútvarpsins, menntamálaráðherra, að grípa í taumana. Við látum okkur annt um handritinn, menningararfinn. Upptökurnar í safni Ríkisútvarpsins eru handrit vorra tíma.  Þetta er þjóðarsagan.  Menningarsaga. Ætlum við að láta hana fara forgörðum? Ætlum við að sitja með hendur í skauti meðan sagan hverfur í glatkistuna ? Auðvitað ekki. Hér þarf að taka til höndum. Skora á menntamálaráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum og gera ráðstafanir til að bjarga ómetanlegum verðmætum, sem ekki mega fara forgörðum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband