Molar um málfar og miðla 1505

  Í blaðinu Hafnarfjörður – Garðabær, sem dreift er með Morgunblaðinu (27.06.2014), segir í leiðara: ,,Lífeyrissjóðir eru sagðir vanta um 500 milljarða króna ....”. Ekki málfræðilega rétt. Betra væri: Sagt er að lífeyrissjóði vanti um 500 milljarða króna ...

Í sama blaðið er fyrirsögn (bls.2) Meirihlutinn reyni að stöðva byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýrt og villandi. Þetta er ekki hvatning til meirihlutans um að stöðva framkvæmdir við hjúkrunarheimili. Verið er að basla við að segja að meirihlutinn sé að reyna að stöðva framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýr hugsun. Óskýr skrif.

 

Hvenær var þessi þarsíðasta vika, sem talað var um í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (27.06.2014)? Hvaða bull er þetta? Þar síðasta vika? Til hvers er málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið?

Í sama fréttatíma var sagt um gosdrykki í pappamálum:,,Skammturinn telur 44 únsur..” Í fyrsta lagi telja skammtar hvorki eitt né neitt og í öðru lagi segir mælieiningin únsa íslenskum hlustendum ákaflega lítið. Þá var sagt í enn sama fréttatíma um upplýsingaskjá, að hann markaði byltingu. Kannski hefði mátt segja að hann væri bylting í upplýsingamiðlun eða markaði tímamót. Varla markaði byltingu. Svo var talað um að standa sig vel á Pisakönnun. Var enginn ábyrgur yfirmaður með sæmilega tilfinningu fyrir móðurmálinu á vaktinni? Greinilega ekki.

 

Furðuleg fyrirsögn í DV (27.-30.06.2014): Best heppnaða hryðjuverk sögunnar. Átt er við morðið á Franz Ferdinand erkihertoga. Það hleypti fyrri heimsstyrjöldinni af stað. Sannarlega vel heppnað, - eða hvað?

Meira úr þessu sama eintaki DV úr viðtali við Jónínu Bendiktsdóttur: ,,Ég hef tileinkað lífi mínu detoxi og hyggst gera það áfram.”. Tileinkað lífi mínu detoxi! Það var og. Margir andstæðingar Framsóknarflokksins munu eiga sjálfsagt þá ósk heitasta að Jónína Benediktsdóttir gangi opinberlega og af krafti til liðs við Framsóknarflokkinn.

 

Fólki hefur verið boðið að tékka sig inn yfir netið, var sagt í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (27.06.2014). Verið var að tala um ferðalanga á Kastrup flugvelli, en þeim stóð til boða að innrita sig í flug á netinu. Ekki mjög vandað orðalag.

 

K.Þ. benti á þessa frétt (26.06.2014) á visir.is. ,,Eru lífshótanir í lagi?”
http://www.visir.is/eru-lifshotanir-i-lagi-/article/2014706279999

Lífshótanir? Hljómar hreint ekki svo illa! Hljómar þó verr á ensku.

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í neðanmálstexta í Ríkissjónvarpi (28.06.2014) var skrifað: Fólk fór í bæinn á trukkum. Á skjánum voru venjulegir vörubílar, sem á ensku heita truck. Á íslensku hefur orðið trukkur einkum verið notað um öfluga vörubíla, oft með drifi á öllum hjólum. Þetta orð kom sennilega með Bandaríkjamönnum til landsins í stríðinu, sem komu með öfluga trukka, vörubíla, oft tíu hjóla með drifi á öllum hjólum. Yfirleitt af gerðinni GMC. Trukkarnir sem voru með einum afturöxli voru yfirleitt af gerðinni Chevrolet. Kanadamenn, og Bandaríkjamenn sjálfsagt líka, nota einnig orðið truck um pallbíla,(sem einu sinni voru kallaðir pikkuppar) oftast af stærri gerðinni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband