Molar um málfar og miðla 1503

   Í þessari frétt mbl.is (23.06.2014) er sagt frá ís sem verið er að selja í Danmörku. Umbúðirnar eru keimlíkar umbúðum íss frá Kjörís í Hveragerði. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/06/23/sun_lolly_hermir_eftir_nyjum_is_kjoriss/

 Í fréttinni er talað um ís sem var að detta í sölu í Danmörku ... Æ algengara að sjá þetta orðalag að eitthvað sé að detta inn. Ný frétt var að detta inn. , - ný frétt var að berast. Ísinn var að detta í sölu. Sala var að hefjast á ísnum.

 

Hversvegna eru ekki allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir á netinu? Fylgir því einhver aukakostnaður ?

 

Úr auglýsingu í Bakarameistaranum: ,, Irish coffie (svo!) frómas með brownies botn ...”

 

 Molaskrifari hnaut um orðalag í frétt Morgunblaðinu á fimmtudag (26.06.2014). Á forsíðu segir um útflutning Sælgætisgerðarinnar Freyju, að sælgætið sé selt undir öðru nafni í Noregi því til sé norsk Freia.,,Hún var stofnuð rétt fyrir rétt fyrir aldamótin 1900, en hin íslenska Freyja nokkrum árum síðar, eða 1918”. Þetta er nú ekki mjög nákvæmt. Hin norska Freia var stofnuð 1889. Þremur árum síðar, 1892 eignaðist Johan Trone Holst fyrirækið. Það er því út í hött að segja að hin íslenska Freyja hafi verið stofnuð nokkrum árum síðar. Það voru næstum þrír áratugir. Hann gerði það að stórveldi í súkkulaðiframleiðlsu og eins konar þjóðartákni. Mjólkursúkkulaðið frá Freiu og seinna ,,Kvikk lunsj” súkkulaðikexið varð gríðarlega vinsælt, eiginlega þjóðarréttur eins og prins póló á Íslandi. Trone Holst stofnaði súkkulaði- og sælgætisgerðina Marabou í Svíþjóð. Þegar bandarískt stórfyrirtæki keypti Freia 1993 þótt mörgum Norðmanninum sem verið væri að selja þjóðarfjársjóð, fjölskyldusilfrið, eins og þeir sögðu. Það var mörgum mikið áfall. Freia var norskari en flest sem norskt var. Johan Trone Holst byggði vandað íbúðarhús upp úr 1910 að Langviksveien 6 á Bygdöy í Osló. Húsið kallaði hann Ekhaugen.  Það er nú í eigu íslenska ríkisins. Ekkja hans seldi íslenska ríkinu húsuð með hagkvæmum kjörum. Vildi gjarnan að það yrði sendiherrabústaður. Það er nú embættisbústaður  sendiherra Íslands í Noregi. Throne Holst var merkilegur maður á margan hátt. Verkalýðsfélögunum í Noregi var ekkert sérlega vel við hann, því hann gerði svo vel við starfsfólk sitt! Heilsugæsla var til fyrirmyndar og hann byggði sérstaka starfsmannabústaði. Í matsal fyrirtækisins (byggður 1934)  voru 12 stór málverk eftir Edvard Munch. Salurinn var einnig notaður til tónleikahalds. Fyrir  tilkomu hans voru þrír matsalir, einn fyrir konur, einn fyrir  karla og sá þriðji fyrir yfirmenn. Throne Holst  vildi stefna að sex  stunda vinnudegi fyrir starfsfólk sitt. Hann var íhaldsmaður, en framsýnn umbótamaður. Throne Holst lést 1946.  Hann  skrifaði æviminningar, Erindringer og refleksjoner, sem komu út árið 1941.Seinna 1989 kom út ævisaga hans, Sjokoladekongen. Hana skrifaði Erik Rudeng sagnfræðingur, seinna forstöðumaður byggðasafnsins á  Bygdöy.

 

Fyrst ausa fótaboltasérfræðingar Ríkissjónvarpsins yfir okkur úr viskubrunnum sínum áður en leikirnir hefjast. Eftir leikina segja þeir hvað okkur eigi að finnast um leikina. Hve margar milljónir skyldi Ríkissjónvarpið borga fyrir þetta tuð? Fróðlegt væri að vita það, en sennilega er það ríkisleyndarmál. Við bara borgum. Spyrjum ekki.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband