Molar um málfar og miðla 1502

  Molavin skrifaði: ,, "Árás­araðila var leitað án ár­ang­urs en árás­arþola sem var með skurð á auga­brún var ekið á bráðamót­töku til aðhlynn­ing­ar." Svona var skrifað í mbl.is-frétt 24.06.2014. Ef til vill eru þessi orð höfð orðrétt eftir tilkynningu lögreglu, en engu að síður mættu blaðamenn hafa almennt mannamál í huga þegar sagðar eru fréttir. "Sakbornings var leitað en hinn slasaði fluttur á bráðamóttöku." "Til aðhlynningar" er óþarfa málalenging. Þórbergi heitnum var annt um að menn rituðu skýrt mál og kæmu þannig skýrri hugsun til skila. Bækur hans mættu vera skyldulesning nýjum blaðamönnum.”

Molaskrifari þakkar bréfið, - rétt er það, hægt er að læra mikið af því að lesa góða texta.

 

Gamall starfsfélagi Molaskrifara vitnar í mbl.is (24.06.2014): Þjóðin sem sigr­ar Heims­meist­ara­mótið í knatt­spyrnu ...“ Það ískyggilega við þetta, Eiður, er að fréttabarnið sem skrifar þetta gæti hæglega verið með fjórar háskólagráður. Það er meira að segja sennilegt. – Rétt er það. Fréttabörnin valsa víða um lyklaborðin og ruglið sem frá þeim rennur er birt athugasemdalaust. Sjá: <<<http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/06/24/skammvinn_sigurgledi_a_hm/

 

Í gærkveldi (25.06.2014) var tilkynnt í lok frétta í Ríkisútvarpi kl. 22 00 að sjónvarpsfréttir hæfust klukkan 22 15. Þær hófust klukkan 22 20 eða rúmlega það. Íþróttafréttamenn virða engin tímamörk eða kunna ekki á klukku. Nema hvort tveggja sé. Fréttaþulur Ríkissjónvarps sagði enn einu sinni að fréttir væru seint á ferð vegna leiks á HM. Það var ekki rétt. Leiknum lauk fyrir klukkan 22 00. Fréttirnar voru seint á ferð vegna þess að fjasa þurfti um fótboltaleikinn sem lokið var. Það var þáttur sem hét HM stofa eða eitthvað í þá veru og er á dagskrá oft á dag. - Nú nennir Molaskrifari ekki, - að sinni, - að ræða meira um ofbeldi íþróttadeildar í dagskránni og fremur subbuleg vinnubrögð. en þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að honum verði enn einu sinni misboðið.

 

Af visir.is (23.06.2014) http://www.visir.is/samviskufongum-faekkar-i-nordur-koreu/article/2014140629635 :

,,Amnesty sagði þvert á móti í desember síðastliðnum að fjöldi þeirra væri að aukast eftir að greining á gervihnattamyndum sýndi fram á fjölda nýrra íbúðarbragga í grennd við eina af stærri fangabúðum landsins.” Frámunalega illa skrifuð frétt. Bara ein málsgrein: Fjöldi að aukast , eina af stærri fangabúðum. Þetta er úr kynningu á fréttinni: ,, Ný rannsókn hefur leitt í ljós að fjöldi þeirra sem situr nú í fangabúðum í landinu hafi fækkað umtalsvert á síðustu árum”. Ekki batnar það. Fjöldi hafi fækkað! Hvar er gæðaeftirlitið? Fleira hefði mátt tína til.

 

Í fótboltafjasi í Ríkissjónvarpinu (23.06.2014) var talað um kamerúnska staffið starfslið kamerúnska liðsins og að fagna var að sýna hluttekningu! Tekið var sérstaklega fram að knattspyrnuliði væri hrósað fyrir að vera mannlegt! Nema hvað? Hlustaði Molaskrifari þó ekki lengi.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband