25.6.2014 | 09:06
Molar um málfar og miðla 1501
Ingólfur Arnarson benti Molaskrifara á fréttabarnsfrétt á mbl.is (21.06.2014). Hann segir: Svona til gamans, fréttabörn að störfum.
Hraðskreiður eltingaleikur við lögreglu?? Klesst á??
Fyrirsögn: 17 ára ökuþór handsamaður Úr fréttinni:
,,Audi - Hin stolna bifreið var af Audi gerð og olli gríðarlegum skarkala (undir mynd)
Eftir hraðskreiðan eltingaleik við lögreglu var 17 ára ökuþór, sem stal bíl í Genf og olli fjölmörgum umferðarslysum, handsamaður á miðvikudag.
Bílstjórinn sem um ræðir er búsettur í Frakklandi en er færeyskur að uppruna. Lögregluyfirvöld voru fyrst látin vita af glæpnum þegar Audi bíll sást aka á móti umferð nálægt borginni Saint-Prex í Sviss.
Eftirför lögreglu náði þegar mest lét 200 kílómetra hraða og Audi bíllinn umræddi klessti á fimm aðrar bifreiðar áður en loksins tókst að stöðva hann. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/21/17_ara_okuthor_handsamadur/
Um helgar leika fréttabörnin víða lausum hala.
Það er eitt og annað við þessa frétt af vef Ríkisútvarpsis (21.06.2014) að athuga: http://www.ruv.is/frett/astum-tonleikagesti-vikid-ut-af-messiasi
Í fyrsta lagi er það fyrirsögnin: Æstum tónleikagesti vikið út af Messíasi. Hann var rekinn út af tónleikum. Í fréttinni segir: Bandarískum efnafræðingi var vikið út af flutningi á óratoríunni Messíasi... Þar segir ennfremur: David Glowacki, sérfræðingur í sameindaefnafræði við Stanford-háskóla, virðist þó hafa tekið hvatninguna lengra en tónleikahaldarar áttu von á.
-Tekið hvatninguna lengra? Við hvað er átt?
Í fréttum Stöðvar tvö (23.06.2014) var sagt frá fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera sem hlutu fangelsisdóma fyrir að flytja falskar fréttir eins og það var orðað. Ekki finnst Molaskrifara það vel orðað. Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um þeir hefðu verið dæmdir fyrir rangfærslur og hlutdrægni. Skýrara og betra orðalag.
Undarlegt þótti Molaskrifara hinsvegar hve lítið bandaríska stöðin CNBC hefur gert með þennan dóm í þeim fréttum hennar sem hér er hægt að sjá.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.