Molar um málfar og miðla 1501

 Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins heldur áfram að beita ofbeldi í dagskránni. Í gærkveldi (24.06.2014)var fótboltaleik lokið klukkan 21 55. Tíufréttir hefðu átt og hefðu getað hafist klukkan 22 00. Nei. Þá tók við innihaldslaust tuðrutuð í 20 mínútur og vel Það það með löngum auglýsingum. Tilgangur tuðsins sá einn að segja fólki hvað því ætti að finnast um leikinn. Þetta gerðist líka kvöldið áður. Fréttunum ýtt til hliðar. Vond vinnubrögð. Allt er gert til að þóknast háværum elskendum boltans. Við hin skiptum ekki máli. Hvar er nú nýr fréttastjóri? Lætur hann bjóða sér að fréttatíminn sé eilíf hornkerling þegar fótboltinn er annarsvegar ? Hefur enginn metnað fyrir hönd fréttastofunnar? Er þetta gert með blessun útvarpsstjóra? Valtar íþróttadeildin yfir hann? Stundum finnst Molaskrifara að stjórnendur íþróttadeildar séu eins og frekir krakkar við ,,nammibar” eða slægætishillurekkana í stórmarkaði. Foreldrarnir gefast yfirleitt upp fyrir frekjunni og hávaðanum. Stjórnendur Ríkisútvarpsins virðast hafa gefist upp gagnvart frekju íþróttadeildar.

 

Ingólfur Arnarson benti Molaskrifara á fréttabarnsfrétt á mbl.is (21.06.2014). Hann segir: Svona til gamans, fréttabörn að störfum.
Hraðskreiður eltingaleikur við lögreglu?? Klesst á??
Fyrirsögn: 17 ára ökuþór hand­samaður Úr fréttinni:
,,Audi - Hin stolna bifreið var af Audi gerð og olli gríðarlegum skarkala (undir mynd)
Eft­ir hraðskreiðan elt­inga­leik við lög­reglu var 17 ára ökuþór, sem stal bíl í Genf og olli fjöl­mörg­um um­ferðarslys­um, hand­samaður á miðviku­dag.
Bíl­stjór­inn sem um ræðir er bú­sett­ur í Frakklandi en er fær­eysk­ur að upp­runa. Lög­reglu­yf­ir­völd voru fyrst lát­in vita af glæpn­um þegar Audi bíll sást aka á móti um­ferð ná­lægt borg­inni Saint-Prex í Sviss.
Eft­ir­för lög­reglu náði þegar mest lét 200 kíló­metra hraða og Audi bíll­inn um­ræddi klessti á fimm aðrar bif­reiðar áður en loks­ins tókst að stöðva hann”. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/21/17_ara_okuthor_handsamadur/

Um helgar leika fréttabörnin víða lausum hala.

 

Það er eitt og annað við þessa frétt af vef Ríkisútvarpsis (21.06.2014) að athuga: http://www.ruv.is/frett/astum-tonleikagesti-vikid-ut-af-messiasi

Í fyrsta lagi er það fyrirsögnin: Æstum tónleikagesti vikið út af Messíasi. Hann var rekinn út af tónleikum. Í fréttinni segir: Bandarískum efnafræðingi var vikið út af flutningi á óratoríunni Messíasi... Þar segir ennfremur: David Glowacki, sérfræðingur í sameindaefnafræði við Stanford-háskóla, virðist þó hafa tekið hvatninguna lengra en tónleikahaldarar áttu von á.

 -Tekið hvatninguna lengra? Við hvað er átt?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.06.2014) var sagt frá fréttamönnum sjónvarpsstöðvarinnar Al Jazeera sem hlutu fangelsisdóma fyrir að flytja falskar fréttir eins og það var orðað. Ekki finnst Molaskrifara það vel orðað. Í fréttum Ríkissjónvarps var talað um þeir hefðu verið dæmdir fyrir rangfærslur og hlutdrægni. Skýrara og betra orðalag.

Undarlegt þótti Molaskrifara hinsvegar hve lítið bandaríska stöðin CNBC hefur gert með þennan dóm í þeim fréttum hennar sem hér er hægt að sjá.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband