Molar um málfar og miðla 1493

  Útvarpshlustandi sendi eftirfarandi (13.06.2014): ,,Í hádegisútvarpinu í dag var verið að ræða við einhvern framámann útihátíðarinnar "Kótelettan" á Selfossi. Sá var að hvetja gesti til þess að mæta og talaði sérstaklega um tjaldstæði þeirra Selfyssinga. Þar erum við komin út í sveit, sagði maðurinn. Grænt grasið allt um kring og svo jarma beljurnar í hverju horni.

Forvitnilegra en ég hélt að heimækja þessa útihátíð til þess að hlusta á sunnlensku beljurnar jarma.

Setti því miður ekki á mig nafn mannsins. Var þó örugglega ekki hann Guðni.”

 - Nei , nei, Guðni hefði aldrei látið sér slíkt um munn fara. Þeir sem standa að þessari hátíð auglýsa líka ,, að þar muni íslenskir kjötframleiðendur skarta sínu fegursta”. Kannski er rétt að skreppa og heyra kýrnar jarma og sjá kjötframleiðendur skarta sínu fegursta! Þakka ábendinguna.

 

Bæði Telma Tómasson fréttaþulur og Birta Björnsdóttir fréttamaður töluðu báðar í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (13.06.2014) um lögbann á fyrirhugað verkfall flugvirkja. Þetta lögbanns tal í tengslum við boðuð verkföll er bull. Það er ekki hægt að setja lögbann á verkfall. Lögbann er allt annar gjörningur, en lög eða bráðabirgðalög gegn verkfalli, Undarlegt að fólk sem unnið hefur við fréttir árum saman virðist ekki hafa hugmynd um hvað lögbann er. Fjölmiðlun 101. – Þarna var líka talað um að fella niður öll fyrirhuguð flug. Betra hefði verið að tala um allt fyrirhugað flug eða allar fyrirhugaðar flugferðir. Þarna hefðu þau mátt vanda sig meira á Stöð tvö. – Ágætlega var þetta orðað á vef Ríkisútvarpsins: Sextíu og fimm flugferðir felldar niður á mánudaginn, var sagt þar. 

– Þetta með lögbannið hefur svo sem verið nefnt áður í Molum. Sjá t.d. Mola 276, 281, 642 og 1462. Stundum finnst mér eins og dropinn holi ekki steininn!  

 

Rafn benti á þessa fyrirsögn á mbl.is (13.06.2014):Hjólareiðaslysum í þéttbýli fjölgaði fjórfalt. Hann segir: ,,Hvort skyldi slysafjöldinn hafa fjórfaldast (t.d. 10 slys fyrra árið en 40 hið síðara) ellegar fjölgunin verið fjórföld (t.d fjölgað um eitt slys fyrra árið, en fjögur hið síðara)?? Fyrirsögnin svarar þessu ekki, en í fréttinni kemur fram, að það er slysafjöldinn, sem er fjórfaldur!!” Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. http://www.mbl.is/bill/frettir/2014/06/13/hjolreidaslysum_i_dreifbyli_fjolgadi_fjorfalt/

 

Rússneskir skriðdrekar berjast í Úkraínu, var sagt í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (12.06.2014). Ekki mjög góð fyrirsögn að mati Molaskrifara. http://www.ruv.is/frett/russneskir-skriddrekar-berjast-i-ukrainu

 

Léleg var fréttaþjónusta Ríkissjónvarps þjóðarinnar í gærkveldi (13.06.2014). Tuttugu mínútna fréttir samhliða útvarpsfréttum kl. 1800. Síðan ekki söguna meira. Tuðran hefur forgang fram yfir fréttaflutning. Íþróttadeildinni tekst alltaf að sparka fréttastofunni út af vellinum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband