10.6.2014 | 08:48
Molar um málfar og miðla 1489
K.Þ. vakti á athygli á frétt (07.06.2014) á svokölluðu Smartlandi mbl.is, sem virðist undanþegið öllum yfirlestri. Sjá : http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2014/06/07/10_atridi_sem_einhleypir_karlmenn_thurfa_ad_vera_me/
K.Þ. segir: Maður á víst að ...
... borða með lokaðan munninn ...
... nota pentudúk.
Svo er sagt "... líklegt að konunni fari að gruna ... " Molaskrifari þakkar ábendinguna. Mikill fjóluakur þetta Smartland. Endur fyrir löngu var ritstjóri Morgunblaðsins nefndur fjólupabbi, muni Molaskrifari rétt. Það á enn við.
Sigríður benti Molaskrifara á þessa frétt á visir.is (07.06.2014): http://www.visir.is/13-ara-okumadur-stodvadur-af-logreglu/article/2014140609236
,,Lögregla stöðvaði bifreið á Hafravatnsvegi fyrr í dag sem ekin var af þrettán ára dreng. Faðir drengins (svo!) og tveir bræður voru með í för. Bifreiðin var ekin af 13 ára dreng! Einstök snilld!
Fréttabarn á næturvakt á ruv.is 07.06.2014): ,,Eldur kom upp í vörubíl sem er staðsettur í við lóð Gámaþjónustunnar við Berghellu í Hafnarfirði nú rétt fyrir miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er eldurinn bundinn við vörubílinn og ekki hætta á að hann dreifi sér í nærliggjandi hús.
Slökkviliðið var komið á vettvang rétt eftir miðnætti. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og var slökkvistarfi lokið á um 20 mínútum. Ágætu útvarpsmenn. Þetta er ekki boðlegt. Sjá: http://www.ruv.is/frett/eldur-vid-berghellu-i-hafnarfirdi
Lesandi, Þórður Sævar Jónsson, benti á illa skrifaða frétt á visir.is (06.06..2014)
Sjá: http://www.visir.is/var-slokkt-viljandi-a-loftraestingunni-/article/2014140609345
Rétt er það, að hér er margt sem betur mætti fara.
Í textuðu samtali við forsætisráðherra Svíþjóðar í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld ((009.06.2014) sagði hann ,,etter midsommar . Það var þýtt, ,,eftir mitt sumar. Molaskrifari er á því að forsætisráðherrann hafi þarna verið að tala um Jónsmessuhátíðina í Svíþjóð um næstu helgi 20. og 21. júní.
Takk fyrir vandaða umfjöllun um atburðina á Tiananmen-torginu í Peking fyrir 25 árum í Víðsjá Ríkisútvarpsins á föstudag. Enginn veit með vissu hve marga friðsama mótmælendur kommúnistastjórnin lét myrða þessa daga. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og ríkisstjórn Íslands leggja nú sérstaka áherslu á að vingast við valdamenn í Kína. Enn er af opinberri hálfu í Kína farið með þessa atburði eins og mannsmorð. Þá má ekki nefna á nafn. Enda voru þetta morð. Fjöldamorð.
Einnig skulu hér nefndir prýðilegir útvarpsþættir að morgni hvítasunnudags. Það voru þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur um séra Friðrik A. Friðriksson og þáttur Brynju Þorgeirsdóttur, sá fyrri af tveimur, um bréf Þórbergs Þórðarsonar á esperanto. Úrvalsefni. Takk fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.