6.5.2014 | 09:06
Molar um málfar og miðla 1466
Molalesandi skrifaði (04.05.2014): ,,Merkilegt þegar fréttamenn nota fréttatímana til að koma skoðunum sinum á framfæri eins og í fréttum Bylgjunnar í hádeginu. Magnús Hlynur var með frétt af nýju framboði á Suðurland, sem kynnt var við Skógafoss í dag. Hann tók oddvitan tali, en framboðið er andsnúið byggingu hótels við fossinn og fréttamaður spurði með fullyrðingu: Eru þetta ekki ríkir útlendingar sem ætla að reisa þetta hótel? Þetta er ekki orðrétt tilvitnun, en efnislega var þetta svona. Molaskrifari tekur undir. Ekki fagmannlega til orða tekið.
Í fréttayfirliti Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (04.05.2014) sagði Sindri Sindrason okkur frá ánni Krúnu í Ölfusi sem borið hefði þrettán lömb á þremur árum. Hún var fimmlembd í vor. Hún bar fimm lömbum. Í fréttinni var þetta rétt.
Rafn skrifaði (04.05.2014): ,, Í molum 1464 er fjallað um frétt um þyrlu: af gerðinni TF-HDW Ecureuil og myndatökur hennar.
Ég geri ekki athugasemd við þá umfjöllun. Hins vegar vakti þyrlugerðin athygli mína. Þótt ég sé ekki þyrlufróður þykir mér líklegt, að þyrlan sé ekki af gerðinni : TF-HDW Ecureuil heldur sé hún af gerðinni Ecureuil, en beri íslenzka skráningareinkennið TF-HDW. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Vegna þess sem Molaskrifari gagnrýndi hér fyrir fáeinum dögum, að Ríkisútvarpið sendi ekki út neinar fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni segir Molalesandi í tölvubréfi (04.05.2014) ,,Mér sagði starfsmaður Útvarpsins að allar nætur væru þrír menn á vakt, fréttamaður, magnaravörður, man ekki starfsheitið á þeim þriðja. Furðulegt að sé ekki hægt að senda út fréttir, hvað sparast fyrst eru þarna þrjár manneskjur hvor sem er? Þetta er auðvitað mjög einkennilegt. Kannski er fréttamaðurinn alla nóttina að vinna fréttir fyrir þennan örstutta fréttatíma klukkan sjö að morgni!!!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.