Molar um málfar og miðla 1438

 Molavin skrifaði (19.03.2014): ,,Af Vísi í dag, miðvikudag: (Finnur Thorcaius skrifar)

Hundurinn seldist á uppboði sjaldgæfra hunda í Kína og annar Canine hundur seldist á helming þessarar upphæðar. 

Skyldi blaðamanninum vera ljós merking enska orðsins canine"? Sennilega ekki, segir Molaskrifari.

 

Molaskrifara þótti Magnús Geir Þórðarson, nýr útvarpsstjóri, ágætlega trúverðugur í viðtali í Kastljósi á þriðjudagskvöld (18.03.2014). Allt er það rétt, sem hann sagði um útvarpshúsið í Efstaleiti. Það var monthús síns tíma. Sá sem þetta skrifar gagnrýndi þessa húsbyggingu þegar framkvæmdir hófust. Taldi húsið of stórt og of dýrt. Þáverandi útvarpsstjóri tók þá gagnrýni óstinnt upp. Hann sagði að formaður fjárveitinganefndar (sem skrifari var í eitt ár) teldi Ríkisútvarpinu ágætlega fyrir komið í ,,bárujárnsskúr á blásnum mel”!  Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður gagnrýndi byggingu útvarpshússins og var óvæginn. Hann taldi hússkrokkinn henta vel sem kartöflugeymslu.

 Nú verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Efstaleiti næstu vikur og mánuði.

 

Fréttaþulur las í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins(18.03.2014): ,,Á annan tug bíla eru nú fastir á Möðrudalsöræfum. Verið er að koma bílunum niður af heiðinni með aðstoð björgunarsveitarinnar Jökli frá Jökuldal.” Enda hikstaði lesari aðeins, en leiðrétti ekki.  Með aðstoð björgunarsveitarinnar Jökuls. Eða: Með aðstoð manna úr björgunarsveitinni Jökli.

 

Hvað er að leigja svart í góðri von? Þetta orðalag notaði Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö (18.03.2014). Góðri von um hvað? Er það að leigja á svörtum markaði í góðri trú eða von um að allt muni enda vel? Ekki gott orðalag.

 

Enskuslettum í auglýsingum fjölgar. Nú er auglýst á netinu (19.03.2013) svokallað ,,belly fitness” námskeið.

 

Þetta er ekki að fara að gerast, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (19.03.2014). Það var og.

 

Sennilega er orrustan um notkun sagnarinnar að opna töpuð. Menntamálráðherra talar um að skólarnir opni (19.03.2014).

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband