Molar um málfar og miðla 1428

  Molavin skrifaði (04.03.2014):,,Vegagerðin mokar ekki fjöllin milli Akureyrar og Egilsstaða í dag eins og til stóð...." sagði í fjögur-fréttum RUV 4. mars. Enda er varla hægt að ætlast til slíks. Það hlýtur að nægja að moka fjallvegi.  -  Rétt. Molaskrifar þakkar ábendinguna.

 

Í frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu (04.03.2014) um flug færeyska flugfélagsins Atlantic Airways til Reykjavíkur segir: Flugfélagið mun hætta notkun gamallar Fokker-vélar, einu vélarinnar sem hefur leyfi til lendingar í Reykjavík (svo!), í ágúst næstkomandi. Vélin sem hér um ræðir er ekki gömul Fokker – vél. Vélin er fjögurra hreyfla þota af gerðinni BAe146. Í fréttinni er Ásgeir Gunnarsson nefndur sem framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Molaskrifari vissi ekki betur en framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands héti Árni Gunnarsson. Alltaf betra að hafa hlutina rétta.

 

Í DV (04.03.2014) er auglýsing um áskriftartilboð. Þar er boðið upp á fría áskrift út febrúar. Gallinn er bara sá að auglýsingin birtist 4. mars. Þeir fylgjast ekki vel með tímanum sem settu þessa auglýsingu í blaðið.

 

Margar athugasemdir mætti gera við texta og málfar Kjartans Hreins Njálssonar sem fjallaði um Úkraínu í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (03.03.2014).

Hann talaði um að róa öldurnar á Krímskaga. Betra hefði verið: Lægja öldurnar á Krímskaga.

Setja úrslitakost. Betra: Setja úrslitakosti.

Reisa brú. Betra: Byggja brú, gera brú.

Ákveðin merki á lofti um ... Betra ákveðin teikn á lofti um...

Það sem kemur út úr Öryggisráðinu verður vafalaust neitað af Rússum. Betra: Rússar munu vafalaust beita neitunarvaldi gegn ákvörðun Öryggisráðsins. Enn eitt dæmi um þolmynd þar sem germynd væri betri.

 

Mjög fróðlegt og gott viðtal við Jón Ólafsson, prófessor, við Háskólann á Bifröst á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (04.03.2014) þar sem hann fjallaði um ástandið í Úkraínu. Sennilega þekkir Jón betur til mála í þessum heimshluta en nokkur annar Íslendingur. Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn af mokstri, fyrirsögn á vefmogga í dag "Mokað yfir Fjöllin".  Hætt við að vegirnir hverfi líka.

Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 11:29

2 identicon

Er hér ekki átt við Hólsjöll, - veginn um Möðrudalsöræfi sem oft eru kölluð?

Eiður (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 20:08

3 identicon

Hólsfjöll

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 5.3.2014 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband