26.2.2014 | 21:34
Molar um málfar og miðla 1423
Morgunblaðið gætti þess vel að birta ekki yfirlitsmynd af Austurvelli frá mótmælafundinum á mánudag (24.02.2014) þar sem hefði sést allur manngrúinn, sem þar var saman kominn. Það hentaði ekki ritstjórnarstefnu blaðsins, sem stundum tekur völdum af fagmönnum í fréttamennsku, sem þar vissulega starfa. Þetta minnir á þá gömlu daga, þegar sá víðkunni ljósmyndari Morgunblaðsins, Ólafur K. Magnússon á að hafa spurt, þegar hann var gerður út af örkinni til að taka mynd af fundum: Á að vera margt á fundinum ? Ritstjórum Morgunblaðsins þótti sennilega ekki við hæfi að margt væri á fundinum á Austurvelli.
Í ljósvakamiðlum verður að gera þá kröfu að framburður sé skýr og rétt sé farið með grundvallaratriði móðurmálsins. Molaskrifari hefur sennilega hlustað á símaþættina í Útvarpi Sögu á morgnana í samtals 15 mínútur frá því snemma í haust. Alltaf sömu símavinir á sömu nótum. Þessi hlustun dugði þó til þess að hann heyrði útvarpsstjórann segja við símavin: Þú ert alveg meda. Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki í fyrstu. Svo rann það upp fyrir honum að útvarpsstjórinn var að reyna að segja: Þú ert alveg með þetta. Í morgun (25.02.2014) var svo Pétur stjórnarformaður við símann og talaði um stjórnarskránna. Æ algengara er orðið að heyra talað um frúnna, brúnna og tánna. Í stað þess að tala um frúna, brúna og tána.
Vinsamleg ábending til Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, sem sagði í seinni fréttum Ríkissjónvarps (25.02.2014), ... rétt áður en klukkan sló tuttugu tvö. Klukkan slær aldrei tuttugu og tvö. Það væru nú meiri lætin! Klukkan slær tíu.
Önnur vinsamleg ábending. Nú til Björns J. Malmquists fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu. Vítti, áminnti, ávítaði, ekki vítaði. Í fréttum á miðnætti á þriðjudagskvöld og aftur á miðvikudagsmorgni (26.02.2014).
.Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
"Það hentaði ekki ritstjórnarstefnu blaðsins, sem stundum tekur völdum af fagmönnum í fréttamennsku,"
"völdin", ekki satt?
Ásgrímur Hartmannsson, 27.2.2014 kl. 01:04
Þú skoðar moggann illa þykir mér. Það voru miklu ítarlegri myndir af þessum mótmælafundi á MBL en í hinum hlutdrægu fjölmiðlunum. Þeir nefndu meira að segja hæstu áætlaða tölu fundargesta fyrsta daginn. Ruv var svo lélegt að áætla aðeins um600 manns á meðan mogginn sagði ríflega 3.500.
Þetta á væntanlega að vera hlutlaust blogg um málfar, en þú hefur ekki getað haldið aftur af kratanum í þér frekar en Hlín Agnarssdóttir sem notaði tækifærið til að úthúða ráðherrum ríkistjórnarinnar í leiklistargagnrýni.
Finnst þér þetta ekki svolítið galið svona þegar þú hugleiðir það?
Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2014 kl. 01:25
Völdin, að sjálfsögðu, Ásgrímur. Og rétt er það Jón Steinar að Molaskrifari hefur ekki skoðað Mogga nægilega vel, og ekki alveg verið nógu gætinn þegar hann skrifaði þetta. Beðist er velvirðingar á því.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 27.2.2014 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.