Molar um málfar og miðla 1418

   Í kvöldfréttum Ríkisjónvarps (18.02.2014) var sagt um skýrsluna sem ríkisstjórnin pantaði um stöðu aðildarviðræðna við ESB að hún hefði lekið í fjölmiðla. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Hefði frekar sagt: Skýrslunni var lekið til fjölmiðla.

Í sömu frétt var sagt að viðræðum við ESB hefði verið slitið. Það er ekki rétt eins og þeir vita sem fylgjast sæmilega með. Viðræðum var hætt, þær liggja niðri. Þeim hefur ekki verið formlega slitið.

 

Furðulegt er oft fréttamatið hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Í seinni fréttum í gærkvöldi (19.02.2014) var nokkuð löng frétt og viðtal við Vigdísi Hauksdóttur, Framsóknarþingmann, sem var að messa á á 10-15 manna fundi (eftir myndunum að dæma) á Sauðárkróki. Er þá Jón Bjarnason meðtalinn. Þetta var mikil ekki-frétt, eins og stundum er sagt. Ekki-frétt  sjónvarpsins var svo öll endurtekin í miðnæturfréttum Ríkisútvarps. Þetta er að líkindum í fyrsta sinn sem fimmtán manna fundur verður svo mikið fréttaefni í Efstaleitinu. Hvað veldur?

 

Í auglýsingu frá fyrirtækjum á Ísafirði í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (19.02.2014) var þrástagast á - Hvað er að gerast á helginni? Er enginn á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins lengur sem hefur snefil af tilfinningu fyrir íslensku máli? Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins? Eðlilegt og venjulegt væri að spyrja: Hvað er að gerast um helgina?

 

Í ellefu fréttum Ríkisútvarps (18.02.2014) var fjallað var um ESB aðild og styrki til landbúnaðar. Þar var talað um kjúklingabændur og svínabændur. Nútíma framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og eggjum á ákaflega lítið skylt við landbúnað. Er í rauninni óravegu frá landbúnaði. Þetta er hálfgerð verksmiðjuframleiðsla, oft í eigu stórfyrirtækja. Í næstu frétt var svo fjallað um innflutningshömlur á landbúnaðarvörum á Íslandi. Það var mjög við hæfi!

 

Þegar Morgunblaðið segir í fimm dálka forsíðufyrirsögn (18.04.2014) Engar varanlegar undanþágur, (um samning við ESB) er það í besta falli að bera hálfsannleik á borð fyrir lesendur sína, ef ekki beinlínis að reyna villa um fyrir fólki. Það er engin tilviljun að Morgunblaðið fékk skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá ríkisstjórninni áður en þingmenn fengu skýrsluna í hendur. Það var til þess gert að blaðið gæti matreitt hana, túlkað, að vild áður en hún var gerð opinber. Það eru líka vond vinnubrögð hjá ríkisstjórn Íslands.

 Finnar sömdu um sérlausnir fyrir finnskan landbúnað. Þær sérlausnir fela í sér varanlegar undanþágur og eru staðfestar í aðildarsamningi. Þessvegna er þetta leikur að orðum, og heldur ljótur leikur því tilgangur hans er að villa um fyrir lesendum Morgunblaðsins.

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk silkihanska viðtal í morgunþætti Bylgjunnar í morgun (20.02.2014).Ekki mikið á því að græða.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Eiður.

Þú nefnir aftur þetta með "á helginni", sem þú skrifaðir um í pistli #361 (http://esgesg.blog.is/blog/esgesg/entry/1079379/#comments). Þar er þér bent á að þetta sé málvenja t.d. á Vestfjörðum og Vesturlandi. Það er alþekkt að málvenjur séu ekki þær sömu, bæði eftir landshlutum sem og öðru (t.d. aldri fólks o.s.frv.). Enda málið í sífelldri þróun og tekur það breytingum í áranna rás. Eigir þú góðar stundir, bæði á vetrin sem á sumrin.

Kv. Guðjón Torfi

Guðjón Torfi Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.2.2014 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband