Molar um málfar og miðla 1408

 Ólafur Sindri skrifaði (006.02.2014): ,,Á vef DV birtist í dag frétt undir fyrirsögninni „Sviðin hækka í Bónus“ (http://www.dv.is/neytendur/2014/2/6/svidin-haekka-i-bonus-4GEFU7/). Heyr á endemi. Hvað hækka sviðin? Kastar svo tólfunum í sjálfri fréttinni þar sem hækkunin er útskýrð með því að „sviðin frá þeim birgja sem Bónus kaupir af voru búin“ – þessi fréttabörn ættu e.t.v. ekki að vera að myndast við að brúka orð á borð við „birgi“ ef þau eru ófær um að beygja þau rétt! Á hvaða vegferð er veffjölmiðlun á Íslandi, spyr ég bara. Ekki veitti fleiri en RÚV af málfarsráðunaut.”

Molaskrifari þakkar Ólafi Sindra bréfið. Ekki er nema von að spurt sé.

 

Meira um sama: Í fréttum Stöðvar tvö (06.02.20145) var sagt  frá sýningu á munum úr eigu Vigdísar Finnbogadóttur. Okkur var sagt: Sýningin opnar á morgun. Þess var ekki getið hvað sýningin mundi opna. Ekki frekar en fyrri daginn í þessu óvandaða orðalagi sem, hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum.

 

Í nýrri rannsókn birtri af norrænu ráðherranefndinni ..., var sagt í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (06.02.2014). Dæmi um óþarfa, ljóta þolmyndarnotkun.- Í nýrri rannsókn sem norræna ráðherra nefndin hefur birt ... Germynd er alltaf betri.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (06.02.2014) var sagt frá kjaradeilu framhaldsskólakennara. Í skjátexta var hins vegar talað um Félag framhaldsskólanema, ekki Félag framhaldsskólakennara. Það tekur því auðvitað ekki að leiðrétta svona smámuni enda var það ekki gert.

 

KÞ spyr vegna fyrirsagnar á vef Ríkisútvarpsins (05.02.2014): Hagar ætla í hart yfir osti. Kristján segir: Væri ekki nær að gera þetta yfir kaffibolla? http://www.ruv.is/frett/hagar-aetla-i-hart-yfir-osti

 

Í fréttum Ríkisvarpsins (06.02.2014) var sagt að Bandaríkjamenn hefðu lagt tveimur herskipum á Svartahafi. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg og sagt til dæmis, að Bandaríkjamenn hefðu sent tvö herskip inn á Svartahaf, - eða að tvö bandarísk herskip væru nú á Svartahafi. Í sömu frétt var talað um flugfélög á leið til Rússlands.

Líklega var átt við flugfélög sem fljúga til Rússlands.

 

Á baksíðu DV (06.02.2014) í dálki sem nefndur er Fréttir af fólki er svohljóðandi fyrirsögn: Masteraði Björk. Í klausunni þar undir er talað um að mastera lag og mastera plötu. Þetta er ekkert skýrt nánar. Eiga allir lesendur Fréttablaðsins að skilja þetta? Molaskrifari skildi þetta ekki. Það skal  játað hér í fullri hreinskilni.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Eiður.

Auglýsingar einkennir knappur stíll. Svo er reyndar um
fyrirsagnir líka. Menn geta deilt um orðalag einsog: "Skreið til Nígeríu."

Segir sig nokkuð sjálft að ótækt er að skrifa einhverjar langlokur
í auglýsingatexta eða fyrirsögnum.

"Lambasvið hækka í verði í Bónus." Þessi texti gengur ekki í
auglýsingu eða fyrirsögn.

Auglýsing eða fyrirsögn þarf að vera orðuð með þeim hætti
að flestir skilji hvað átt er við.

"Svið(in) hækka í Bónus," er texti sem allir skilja og fæ ég ekki
séð að nokkuð sé athugavert við þennan texta.

Húsari. (IP-tala skráð) 8.2.2014 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband