7.2.2014 | 08:04
Molar um málfar og miðla 1407
Aldeilis dæmalaus villa á vefnum visir.is í gær (06.02.2014): ,,WOW air verður að hætta við flug til Stykkishólms. Fyrirtækið verður að fylgja reglum Flugmálastjórnar varðandi breytingar á flugáætlunum. Hér hefur eitthvert fréttabarnið verið að basla við að íslenska heiti Stokkhólms !!!
Rússar hafa engu til sparað, sagði Benedikt Grétarsson íþróttafréttamaður í sérstökum íþróttafréttatíma Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld (05.02.2014). Makalaust að menn skuli endalaust rugla saman engu til kostað og ekkert til sparað. Þetta er ekkert flókið. Málfarsráðunautur þyrfti að starfa við Ríkisútvarpið og leiða menn í allan sannleika um einföld atriði í málnotkun.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (005.02.2014) var sagt: ... aðstoðarframkvæmdastjóri lyflækningadeild Landspítalans. Beygingafælni. Aðstoðarframkvæmdastjóri lyflækningadeildar Landspítalans.
Af mbl.is (05.02.2014): ,,Landhelgisgæslunni barst í morgun tilkynning um að tundurdufl hefði borist í vörpu BERGEYJAR VE 544 úti fyrir Austfjörðum. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg. Sagt að tundurdufl hefði komið í vörpu Bergeyjar. Duflið hefur væntanlega legið á hafsbotni og hvorki borist eitt né neitt, heldur komið í vörpuna þegar hún var dregin eftir botninum þar sem það lá. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/05/tundurdufl_barst_i_vorpu_bergeyjar/
Þorvaldur nefndi þetta í athugasemd við Mola gærdagsins og sagði: ,, Í fréttum Mogga síðustu daga er sagt frá því að þýskt tundurdufl hafi borist í vörpu Bergeyjar VE á austfjarðamiðum. Helst er á þessu að skilja að duflið hafi komið aðvífandi og sest að í vörpunni. Skipið dregur vörpuna eftir botninum og fær í hana fisk og aðskotahluti en slíkir hlutir berast ekki í hana á einhvern óútskýrðan hátt. Rétt athugað, Þorvaldur.
Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins er búin að segja okkur svona tvö hundruð sinnum, að Nigella hafi kolfallið fyrir ítalskri matargerð þegar hún var ung. Dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins hafa lengi verið óþolandi með annarlegum áherslum og undarlegri tilgerð. Þetta er eitt af mörgu sem nýr útvarpsstjóri verður að breyta, - hluti af ásýnd sjónvarpsins.
Þýsk-íslenska samvinnuverkefnið var ýtt úr vör, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (06.02.2014) . Verkefninu var ýtt úr vör. Verkefnið var ekki ýtt úr vör.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.