6.2.2014 | 07:39
Molar um málfar og miðla 1406
Danska sjónvarpið DR 2 sýndi á þriðjudagskvöld (04.02.2014) afar athyglisverða heimildamynd, Leikar Pútíns um undirbúning vetrarólympíuleikanna í Sochi eða Sotji. Um sukkið, sviínaríð og spillinguna í kringum undirbúningsframkvæmdirnar og sitthvað fleira. Meðal annars var rætt við andófsmanninn Gary Kasparov. Ekki varð betur séð en sjónvarpsstöðvar í mörgum löndum hefðu komið að gerð myndarinnar.
Sama kvöld sýndi norska ríkissjónvarpið NRK2 þrjár heimildamyndir um Rússland, Pussy Riot og pönkmótmælin, Pútín Rússland og vestrið. Sú þriðja hét Stórveldisdraumar. Sýning heimildamynda sem tengjast því sem er að gerast í heiminum er yfirleitt ekki á dagskrá hjá Ríkissjónvarpinu. Það bar þess vegna nýrra við í gærkveldi (05.02.2014) þegar á dagskrá var hálftíma mynd um sukkið í Sotji, sem Ólafur Ragnar ætlar nú að fara að skoða, og líklega lofa og prísa, fái hann að hitta sinn einkavin, Pútín. Það er mikil nýlunda að Ríkissjónvarpið bjóði okkur að sjá heimildamyndir um það sem efst er á baugi í veröldinni. Vonandi verður hægt að segja að batnandi mönnum sé best að lifa. Þetta var prýðilegur og upplýsandi Panorama þáttur. Þessir vönduðu fréttaskýringaþættir, Panorama, hafa verið á dagskrá BBC síðan 1953. Ríkissjónvarpið sýndi Panorama fyrr á árum. Einhverra hluta vegna var því hætt. Ekki kann Molaskrifari skýringu á því. Annað kvöld sýnir BBC merkilegan Panorama þátt frá Norður Kóreu. Vonandi verður hann líka sýndur hér.
Hversvegna þurfti íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps að tala um fjögur íslensk handboltalið, sem leika munu til úrslita, sem the final four í íþróttafréttum á þriðjudagskvöld? Hversvegna var ekki töluð íslenska við okkur?
Á þriðjudagskvöld (04.02.2014) voru tvö tilefnislaus viðtöl í sama fréttatíma Ríkissjónvarpsins við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Er búið að virkja fréttastofuna til að lappa upp á ímynd ráðherrans vegna lekans úr ráðuneyti hennar? Eru einhver tengsl milli fréttastofunnar og ráðuneytisins? Allt var þetta fremur undarlegt. Tvö tilefnislaus viðtöl og hluti annars viðtalsins endurtekinn í seinni fréttum. Enn var viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi. étin upp gömul ummæli um aðkomu einkaframtaks að Keflavíkurflugvelli. Þetta ber mikinn keim af því að verið sé að beita fréttastofu Ríkissjónvarpsins fyrir vagn þessa ráðherra, sem nú á mjög í vök að verjast vegna lekaklúðurs og skýringaskorts. Þetta eru vond vinnubrögð. Afspyrnu vond. Rétt er að geta þess, að Morgunblaðið hefur ekki skammað fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir öll þessi viðtöl við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Ítrekað var talað um Garð á Reykjanesi í Djöflaeyjunni í Ríkissjónvarpinu (04.02.2014). Garðurinn er ekki á Reykjanesi. Mælt er með því að ágætur umsjónarmaður þessa þáttar líti á landakort. Garðurinn er á Rosmhvalanesi. Reykjanesið er annarsstaðar.
Nú eru í Ríkissjónvarpinu íþróttafréttir í fréttatímum. Svo er sérstakur fréttatími alla daga helgaður íþróttum. Eru íþróttadekri Ríkissjónvarpsins engin takmörk sett?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Sæll Eiður
Í fréttum Mogga síðustu daga er sagt frá því að þýskt tundurdufl hafi borist í vörpu Bergeyjar VE á austfjarðamiðum. Helst er á þessu að skilja að duflið hafi komið aðvífandi og sest að í vörpunni. Skipið dregur vörpuna eftir botninum og fær í hana fisk og aðskotahluti en slíkir hlutir berast ekki í hana á einhvern óútskýrðan hátt.
Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 09:50
Sæll, Þorvaldur, Molaskrifari hnaut einnig um þetta og verður þess getið í Molum morgumndagsins. K kv ESG
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 11:01
... Molum morgundagsins.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 12:03
Sæll Eiður!
Hvað er að gerast með tilfinningu okkar fyrir einu orðið eða tveimur?
Mbl.is í dag: " - var vísað frá dómi með vísan til laga um sjúklinga tryggingu. Konunni bar að halda uppi kröfum á hendur trygginga félagi -"
Jóhann Heiðar Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 14:26
Ekki get ég svarað því, Jóhann Heiðar. En það virðist vera komið los á þetta. Mikið los. Finn það einnig hjá sjálfum mér á stundum.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 22:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.