3.2.2014 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1403
Molalesandi skrifaði (31.01.2014): ,,Sat við skriftir í nótt og hafði útvarpið opið dágóða stund, Rás 2. Rödd kom inn á heila tímanum og sagði skilmerkilega að ég væri að hlusta á Rás 2 og hvað klukkan var. (þetta gerði viðkomandi á heila tímanum kl. 4, 5 og 6) - Sama rödd kynnti veðurfréttir. Undarlegt að viðkomandi skuli ekki lesa fréttir á heila tímanum. - Já, það er meira en undarlegt. Það er óskiljanlegt. Það var liður í niðurskurði Páls Magnússonar að hætt yrði að segja fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Felldir voru niður fjórir stuttir fréttatímar, klukkan eitt, tvö, fimm og sex. Það er óskiljanlegt að fjölmennasta fréttastofa landsins, fréttastofa Ríkisútvarpsins, skuli ekki hafa döngun í sér til að vera með fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Ríkisútvarpið er kostað af almannafé. Það sinnir ekki þjónustuhlutverki sínu. Ekki vegna fjárskorts. Heldur vegna vondrar stjórnunar. Vonandi breytist þetta með nýjum útvarpsstjóra.
Molaskrifara var verulega brugðið er hann hlustaði á upphaf Víðsjár í Ríkisútvarpinu eftir miðnætti á sunnudagskvöld (02.02.2014). Þátturinn hófst með því að afskræma og misþyrma sálminum Heyr himnasmiður og undurfallegu lagi Þorkels Sigurbjörnssonar sem sálmurinn er sunginn við.(Nær fullviss þess að sá var sálmurinn) Annar stjórnenda sagðist hafa heyrt sálminn við jarðarför. Þetta var með ólíkindum. Síðan fjölluðu þáttar stjórnendur um það sem þeir kölluðu ,,Tussu vikunnar. Þá slökkti Molaskrifari fljótlega á útvarpinu. Ég hlusta ekki á útvarpið fyrir svefninn til að heyra trúarljóðum og trúarlegri tónlist misþyrmt eða til að hlusta á klám. Á hvaða vegferð er Ríkisútvarpið og hverjir stýra þeirri för? Þetta var næstum verra en nasistaslátrara ummæli íþróttaaulans á dögunum.
Velkominn í sjónvarpssal og heima í stofu sagði stjórnandi Gettu betur í Ríkissjónvarpi á föstudagskvöld (31.01.2014). Hann sagði einnig: Fyrst ætlum við að fá örstutt skilaboð. Hversvegna sagði Björn Bragi ekki að gera ætti auglýsingahlé? Hvers vegna að bulla um skilaboð? Í þessum þætti var spurt: Við hvaða borg stendur Gardermoen flugvöllur. Sagt var að Gardermoen flugvöllur stæði við Osló. Það er rangt. Gardermoen flugvöllur er tæpa 50 kílómetra frá Osló. Þetta er álíka bull og að segja að Keflavíkurflugvöllur sé við Reykjavík. Spurningahöfundar verða að vita um hvað þeir eru að spyrja.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (31.01.2014) talaði fréttamaður um þrjátíu og þrjár og hálfa milljónir !
Á vef Ríkisútvarpsins (01.02.2014) segir sjávarútvegsráðherra að hótanir Evrópusambandsins séu einskis virði! Molaskrifari er ekki hrifinn af þessu orðalagi. Getur verið að hótanir einhverra annarra séu mikils virði? Líklega á maðurinn við að hótanir Evrópusambandsins séu marklausar eða lítilvægar. http://www.ruv.is/frett/hotanir-um-refsiadgerdir-einskis-virdi
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Því miður held ég að snúið sé út úr ummælum um að eðlilegt sé að tungumál þróist. Sumir nota þau til að réttlæta ótrúlegan subbuskap í málfari. Stundum hafa ýmsir aðilar, sem ættu að vita betur, að vísu gengið fuðulangt í að réttlæta hreint bull. Þeir reyna t.d. að afsaka fólk sem klikkar á miðmynd sagna. Hún er þó ágætt tól til að komast hjá fullyrðingum sem stangast á við náttúrulögmálin og gagnleg í mörgum öðrum tilgangi. Meðal annarra orða: Gæti ekki verið athugandi hvort til séu gömul dæmi um mm. sagnanna að hækka, lækka, breikka, stækka og e.t.v. fleiri, sem ekki hafa heyrst í miðmynd í manna minnum?
Sá fyrsti sem ég heyrði kalla auglýsingar skilaboð(!) var Einar handboltakappi og íþróttafréttamaður. Mín vegna hefði hann frekar mátt rispa bárujárnsplötu með nagla.
Aðalsteinn Geirsson (IP-tala skráð) 3.2.2014 kl. 21:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.