30.1.2014 | 09:15
Molar um málfar og miðla 1400
Í fréttum Stöðvar tvö (28.01.2014) var talað um þrjú gatnamót við Miklubraut. Fleiri tóku eftir þessu. Gunnar skrifaði (28.01.2014): ,,Í fréttum Stöðvar 2, 28. janúar sl. talaði Þorbjörn Þórðarson um þrjú gatnamót, en það er ambaga. Gatnamótin eru þrenn. Orðið gatnamót er ekki til í eintölu, aðeins í fleirtölu.
Í sama fréttatíma talaði fréttamaðurinn Jón Júlíus Karlsson um bílslys við Kúagarð, en rétta heitið er Kúagerði. Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið. Illu heilli eyðilagði Vegagerð ríkisins Kúagerði á sínum tíma við lagningu Reykjanesbrautar. Það var óþarfi.
Í DV (28.-30.2014) er haft eftir ,,baráttukonunni Hildi Lilliendahl:,,Það eru Gevalia-auglýsingar í sjónvarpinu,kona og karl að smalltalka. ,,Baráttukonan sem svo er kölluð er greinilega frekar illa að sér í móðurmálinu. Að smalltalka, - er ljót enskusletta.
Af mbl.is (28.04.2014): ,,Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, er nú staddur í Flatanger. Hann lýsir ástandinu sem sorglegu. Ég er kominn hingað til að fylgjast með því hvernig unnið er úr málum, en það sem skiptir mestu máli er að sýna þeim, sem þetta snertir mest, samlíðan, sagði Anundsen ... Sá sem þetta skrifaði þekkir ekki hið fallega íslenska orð samúð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/28/faerri_hus_brunnu_en_talid_var/ Medfølelse var orðið sem norski ráðherrann notaði.
Góð fréttaskýring hjá Arnari Páli um makríldeiluna í Speglinum (29.01.2014). Norðmenn eru ekki og hafa aldrei verið neinir frændur eða vinir okkar þegar að fiskveiðum kemur. Þá eru þeir okkur erfiðastir allra.
Í Kiljunni (29.01.2014) var ágæt umfjöllun um listakonuna Karólínu Lársdóttur hjá Agli og dr. Aðalsteini Ingólfssyni. Verk Karólínu hafa alla tíð verið eftirsótt á Íslandi. Fólk hefur svo sannarlega kunnað að meta þau. Myndir hennar seljast dýrum dómum í Bretlandi. Þeir sem báru ábyrgð á á sögu íslenskrar myndlistar sem kom út í fimm bindum fyrir fáeinum árum þekktu ekki til Karólínu. Hennar var þar að engu getið. Öndvegisdæmi um þröngsýni og kannski klíkuskap. Aðstandendum listasögunnar til skammar. Og ekki brást Bragi í Kiljunni frekar en fyrri daginn. Og svona í lokin, - takk fyrir frábæra tónleika Vínarfílharmóníunnar í Peking sem voru á dagskrá Ríkissjónvarps í gærkveldi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.