Molar um málfar og miðla 1399

 Viðtal Egils Helgasonar við Guðrúnu Johnsen, lektor í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld (27.01.2014) er að líkindum áhugaverðasta og fróðlegasta viðtalið sem birst hefur um eðli og orsakir hrunsins. Af því sem Molaskrifari hefur og séð að minnsta kosti. Þar var fjallað um bók hennar: „Bringing down the banking system – lessons from Iceland,“ . Þessi bók ætti að koma út á íslensku sem fyrst. í viðtalinu var rætt um hrunvaldana og hrunið á mannamáli, engar vífilengjur.- Ætti að vera skylduáhorf. Kærar þakkir.

 

Gunnar skrifaði (27.01.2014): „Bragi Kárason er Bæjarlistamaður“ stendur í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins mánudaginn 27. janúar. Þetta er ekki rétt. Bragi er bæjarlistamaður. Titillinn á að sjálfsögðu að vera með litlum staf.

Ég sá kynningu um þátt með íslensku hæfileikafólki, sem er víst á Stöð 2. Þar sagði einn dómarinn: „Ég vill að þú sleppir svona soldið ljónynjunni út …“ Það vakti ekki áhuga á að sjá meira af þættinum. Lágmark að fólk beygi einföldustu orðin rétt. Ég vil … Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið…

 

Úr frétt á mbl.is (27.01.2014): Talið er að fleiri en sex hundruð farþegar skemmtiferðaskipsins Explorer of the Seas veiktust þegar hugsanleg nóróveirusýking kom upp. Og: Farþegar og áhöfn skipsins hefur kastað upp og er með niðurgang. Heldur er þetta nú óhönduglega skrifað! Hvar er gæðaeftirlitið, prófarkalesturinn mbl.is? http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/27/600_veikir_a_skemmtiferdaskipi/ Eitthvað var þetta lagfært síðar meir.

 

Nú er búið að sýna okkur að það er hægt að setja borganöfn á veðurkortin í Ríkissjónvarpinu eins og gert er hjá öðrum sjónvarpsstöðum. Hversvegna er það ekki gert?

 

Í fésbókarfærslu (27.01.2014) segir nemandi frá því að hann hafi fengið inngöngu í meistaranám í London School of Economics og tekur þannig til orða: Stundum uppskerir maður eins og maður sáir. Molaskrifari vonar að nemandinn sé betri í ensku en íslensku.

 

Hrafnkell sendi eftirfarandi (27.01.2014):

http://www.visir.is/fotobombadur-a-grammy-hatidinni/article/2014140129006
Textinn í þessari ,,frétt" er ekki langur. En ég get með hreinni samvisku sagt að hann er sá versti sem ég hef séð lengi.
Fyrirsögn: 
Fótóbombaður á Grammy-hátíðinni
Meginmál:
How I Met Your Mother-stjarnan Neil Patrick Harris fer ekki varhluta af fótóbombbylgjunni sem tröllríður nú fræga fólkinu.
Hann ákvað að fótóbomba stjörnuparið John Legend og Chrissy Teigen á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt er þau tóku af sér sjálfsmynd.
Stjörnurnar hafa verið duglegar að fótóbomba á verðlaunahátíðum uppá síðkastið.” - Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Eiður... talandi um borganöfn, hvernig myndirðu segja London á íslensku? Og hvernig myndirðu segja Birmingham t.d. eða Liverpool?

Hef mikið velt þessu fyrir mér af hverju sum borganöfn eru íslenskuð en önnur ekki...

Með bestu kveðju frá Blósi, Egill

Egill (IP-tala skráð) 29.1.2014 kl. 23:28

2 identicon

Þessu með borganöfnin er erfitt að svara. Gömul hefð er fyrir mörgum nöfnum, Þrándheimur,Björgvin, Kaupmannahöfn , Kænugarður, Lundúnir, líka Rúðuborg í Frakklandi. Hér er engin regla. Fleiri eru nöfnin sem ekki eru til í islenskri mynd

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 30.1.2014 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband