Molar um málfar og miðla 1390

 Í fréttum Ríkisútvarps um eiturlyfjamál í Mexíkó (16.01.2014) var talað um að gera eiturlyfjahring upptækan! Þetta var seinna leiðrétt og talað um að uppræta eiturlyfjahring.

 

Ólafur Þórir skrifar (16.0001.2014): http://www.visir.is/telur-ad-fleiri-hafi-misnotad-modur-sina/article/2014140119069
Mér finnst þetta frekar fáránlegt. "Telur að móðir sín hafi verið misnotuð af fleiri mönnum" held ég að sé betra. Hvað finnst þér? – Molaskrifari er Ólafi Þóri sammála.

 

Molalesandi  skrifar um tvöfalda neitun (16.01.2014): ,,Sæll Eiður.
Öðru hvoru rekst ég á texta sem fer í taugarnar á mér. Áhrifin eru svipuð og þegar klórað er í krítartöflu. 

Eitt a mínum ,,uppáhalds-pirringsefnum" er tvöföld neitun þegar notuð er sögnin að sakna. Eins og í grein Týs á vef viðskiptablaðsins. http://www.vb.is/skodun/100697/
"Týr saknar þess að Helgi Magnússon útskýri ekki betur afstöðu sína til Icesave í bók sinni."
Ég hef nú svona vanist því að þegar maður segist sakna einhvers, þá er það eitthvað sem var og er ekki lengur. Maður saknar kattarins Mosa, sem er dáinn, eða maður kynni að sakna þess að hafa ekkert sjónvarp á fimmtudögum. 

Þá myndi ég skilja það á fyrirsögn Týs að hann líti til þess tíma með söknuði þegar Helgi Magnússon útskýri illa afstöðu sína til Icesave í bók sinni. Og þá er spurningin hvort til var önnur bók eftir Helga, þar sem afstaðan er illa útskýrð og sú bók sé þá kannski betri. 

Og í þriðju málsgrein kemur þetta aftur: "Týr saknar þess að meðal ... skýringa í bókinni sé þetta atriði ekki útskýrt betur." 

Á Týr þá við að betra hefði verið að skýra alls ekkert út um téð atriði?

Skrýtinn fýr, Týr.”  Molaskrifari þakkar bréfið..

 

Þórhallur skrifaði (17.01.2014): ,,Ég tek undir eftirfarandi í Molum dagsins: "Mikill fjöldi pappírs , sagði Jóhann Hlíðar Harðarson í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (15.01.2014): ,, Það gefur því auga leið að mikill fjöldi pappírs fer til spillis í þessu ferli.,, Mikið magn pappírs, hefði hann fremur átt að segja."

Hins vegar vil ég bæta enn um betur og leggja til: ,,.... mikill pappír ...." eða ,, ... mikið af pappír ..." “ Réttmæt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband