17.1.2014 | 08:52
Molar um málfar og miðla 1389
Er ekki hægt að takmarka endalaust og innihaldslaust fjas um handbolta við íþróttarás Ríkissjónvarpsins. Hvers eiga allir þeir að gjalda sem engan áhuga hafa á þessu rausi sjálfskipaðra sérfræðinga?
Það er lofsvert þegar í veðurfréttum Ríkissjónvarps er sagt frá veðri og hitafari í fjarlægum heimshlutum - Ástralíu á miðvikudagskvöldið (15.01.2014), en enn er spurt: Hversvegna er ekki hægt að birta borgaheiti þaðan sem hitatölur eru sýndar eins og gert er í veðurfréttum Stöðvar tvö?
Magnús skrifaði (15.01.2014): ,,Mbl.is og dv.is bjuggu til sögnina að hópnauðga í dag: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/15/danskri_konu_hopnaudgad/
Ég sendi þeim mbl.is eftirfarandi athugasemd en það hafði engin áhrif:
"Sögnin að hópnauðga er ekki til, ekki frekar en að hóphlaupa, að hópavinna, að hópsyngja eða að hópkaupa. Ef ég fæ hóp af fólki í heimsókn er ég þá hópheimsóttur?". Molaskrifari þakkar Magnúsi sendinguna og réttmæta athugasemd.
Haukur Örvar Weihe skrifaði (16.01.2014): ,,Sæll Eiður og þakka þér fyrir pistlana þína.
Í mörg ár hefur heyrst auglýsing frá Lyfjum og heilsu á Bylgjunni.
Þar er lesið upp: ,,Vöknum með Lyf og heilsu á morgnana, í stað þess að segja vöknum með Lyfjum og heilsu.....
Ég hafði samband við starfsmann á Bylgjunni sem hafði með auglýsingalestur að gera og sagði hann að það hljómaði svo asnalega að segja ,,vöknum með Lyfjum og heilsu" . Molaskrifari þakkar Hauki bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Athugasemdir
Er ekki miklu fallegra og hreinlegra að segja "Mikið af pappír fer til spillis...." ? Magn pg fjöldi eru óþarfa tilberar, hebbði mar haldið. ;)
Jón Steinar Ragnarsson, 17.1.2014 kl. 10:50
En sem málvöndunarmaður Eiður, hefur þú ekki tekið eftir því að þjóðin virðist vera hætt að gera greinarmun á samsettum og ósamsettum orðum? Þetta er faraldur sem bara ágerist. Háskólagengið fólk er meira að segja haldið þessum kvilla. Bíla málari, appelsínu börkur, jökla ferðir, eru dæmi af tugum dæma hvern dag.
Ég held að ástæðan fyrir þessu sé að í skólakerfinu er búið að festa í sessi eitthvað sem heitir auðlesið mál, þar sem orðum var fyrst skipt upp með bandstriki, sem síðan hefur horfið. Þetta var gert af misskilinn viðleytni til að auðvelda lesblindum og þroskaheftum lestur. Þetta hefur síðan læðst út í námsefni ætlað öllum.
Mér virðist raunar að löngun landans fyrir að kallast greindir ráði því að megnið af nemendum hefur náð sér í lesblindugreiningu. Oft sem skálkaskjól fyrir leti og tossahátt, að mínu mati.
Er ekki rétt að fara að taka þennan plagsið fyrir?
Jón Steinar Ragnarsson, 17.1.2014 kl. 11:04
Þakka þér réttmætar athugasemdir, Jón Steinar.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 17.1.2014 kl. 13:04
Ég er nokkuð viss um að ég hef einusinni vaknað með lyf. Þá var heilsan hinsvegar í fríi á Flórída, minnir mig.
Ásgrímur Hartmannsson, 17.1.2014 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.