Molar um málfar og miðla 551

 

 Úr frétt á  fréttavefnum visir.is (08.03.2011): Það mun hafa verið í kringum 1970 að starfsmenn Rafveitu Akureyrar endurváku þann gamla sið að slá köttinn úr tunnunni. Hér er ekki verið að grínast. Þetta er orðrétt tilvitnun. Ótrúlegt. Glöggur lesandi benti Molaskrifara á þetta. Takk fyrir ábendinguna.  Vísismenn  þurfa að vanda betur valið á þeim, sem  skrifa fréttir.

Nú eru flestir hitamælar stafrænir og  menn sjá  ekki súlu stíga með hækkandi hita eða  síga  þegar kólnar. Þessvegna  hefur blaðamaður mbl.is  líklega skrifað (09.03.2011): .. en veðurstofan spáir því að frost fari  upp fyrir  tuttugu stig á hálendinu síðar  í vikunni.  Hér hefði verið rétt að segja, -  niður fyrir tuttugu stig.   

Í frétt Stöðvar tvö  (06.03.2011) um  fjármálafyrirtækið  Spkef (ömurlegt  nafn) sem áður hér  Sparisjóður Keflavíkur voru    tvær  ambögur.  Fyrst sagði fréttamaður: ... var  stór  hluti af  lausafjár bankans  tekinn út...  Átti  að vera   stór hluti af  lausafé bankans  eða  lausafjár bankans.   Sami fréttamaður sagði í sömu frétt: ... því bíður Landsbankanum það verkefni ...  Átti að vera því Landsbankans það verkefni. Hér  skorti nokkuð upp á  vandvirknina.

 Púðursnjór í borginni segir í fyrirsögn (visir.is 08.03.2011). Molaskrifari er á því að  fallegra hefði  verið að segja til dæmis : Borgin hjúpuð mjöll, Borgin undir mjallarhjúpi. Við þurfum ekki á orðinu púðursnjór að halda í íslensku.  Fyrirsagnasmiður  fréttavefsisins  visir.is var ekki í essinu sínu í gær. Önnur fyrirsögn frá honum:   Á annað hundrað lífrænir neytendur á stofnfundi. Lífrænir neytendur !, ja, hérna.  Molaskrifara fýsir að vita hvort ólífrænir  neytendur hafi ekki líka  haldið fund.

  Skylt að afhenda börnin til föðurs, segir í fyrirsögn á pressan.is  (08.03.2011). Hvar er nú grunnskólalærdómurinn? Sá  sem samdi þessa fyrisögn  hefur ekki náð að læra hvernig orðið  faðir  beygist.

  Úr fréttum Stöðvar tvö (07.03.2011): ... hafa öll spjót  staðið á Stefán .... yfirmanninn sem...   Hér  er  rangt farið með  orðatiltæki,sem er fast í   íslensku máli.  Talað er um að öll spjót standi á einhverjum , -  ekki   að öll spjót standi á einhvern.  þegar einhver á mjög undir  högg að sækja eða á  í vök að verjast.

 Það er í tísku hjá sumum verkalýðsleiðtogum að tala um  að teikna upp samninga. Molaskrifara finnst þetta skrítið orðalag. Af hverju ekki að gera drög  að  samningum eða marka  meginlínur í gerð kjarasamninga ?  Menn teikna ekki kjarasamninga.  Það er  bara bull.

  Á landamærunum við Túnis og Egyptaland , sagði fréttamaður  Ríkissjónvarps (07.03.2011). Hefði átt að segja:  Á landamærum Túnis og Egyptalands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Egyptaland og Túnis eiga ekki nein sameiginleg landamæri. Líbya liggur á milli landanna og á sameiginleg landamæri með Egyptalandi í austri og Túnis í vestri. En af tilvitnuninni var ekki hægt að sjá hvort verið var að tala um sameiginleg landamæri ; þreikna ég þó með að svo hafi verið.

Valnastakkur (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 13:16

2 identicon

"Í frétt Stöðvar tvö (06.03.2011) um fjármálafyrirtækið Spkef (ömurlegt nafn) sem áður hér Sparisjóður Keflavíkur voru tvær ambögur." 

Skondið að sjá prentvillur í þessum pistlum!  En prentvillur eru jú bara prentvillur og ekkert við þeim að segja.  Er reyndar sammála þér með SpKef nafnskrípið.

 En ekki skil ég hvað þú hefur á móti orðinu 'púðursnjór', eftir því sem ég skil þínar uppástungur, lýsir hvorug þeirra hverrar gerðar snjórinn var (er). 

Að lokum býst ég við að fréttamaður Ríkisjónvarpsins hafir verið að ræða um Líbíu og hafi því verið að ræða um landamæri þess lands við Túnis annarsvegar og Egyptaland hins vegar.  Sé það rétt hjá mér, er ekkert athugavert við þetta orðalag. 

ls (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband