11.2.2011 | 11:03
Molar um málfar og miðla 528
Margir fréttaskrifarar eiga í erfiðleikum með áhrifssagnir. Þetta dæmi er af pressan.is (10.002.2011) Krabbameinssamtök í Danmörku vilja útrýma með öllu reykingar á vinnustöðum, ... Samtökin vilja útrýma reykingum, ekki reykingar eins og pressupenninn skrifar.
Villandi myndskreyting var í upphafi frétta Stöðvar tvö (09.02.2011), þegar birt var mynd af þotum Icelandair í Keflavík með frétt um dóm fyrir kynferðislega áreitni, sem kom Icelandair ekkert við.
Aldrei er Molaskrifari sáttur við orðalag eins og notað var í fréttum Stöðvar tvö (09.02.2011)... eigi ásakanir við engin rök að styðjast. betra væri: Ásakanir eigi ekki við rök að styðjast.
Enn er vitnað í fréttir Stöðvar tvö þetta sama kvöld: Hver hefði trúað því að Elvis yrði endurfæddur í Hafnarfirði ? Yrði endurfæddur ! Endurfæddist.
Allir möguleikar um að hætta sorpbrennslu verði skoðaðir, sagði í fyrirsögn á fréttavef Vísis (09.02.2011). Hér hefði verið betra að segja: Allir möguleikar á, eða allir möguleikar til ... ekki möguleikar um.
Úr mbl.is (09.02.2011) : Ferskar kjötvörur hafa fengið tilkynningu frá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga um innköllun á nautgripum vegna hugsanlegrar díoxínmengunar í kjöti af þeim. Ekki verður sagt, að mjög skýr hugsun sé að baki þessum skrifum. Nema auðvitað að nautgripirnir séu seldir á fæti.
Myndatexti á mbl.is (089.02.2011) Taka þarf stefnuljós þegar ekið er út úr hringtorgi. Taka stefnuljós? Málvenja er tala um að gefa stefnuljós. Hér hefði líka mátt segja: Nota á stefnuljós þegar ekið er út úr hringtorgi.
Höfum það gaman saman , segir í auglýsingu frá Ríkisútvarpinu. Hvað segir málfarsráðunautur um svona orðalag ? Have fun together , er sagt á ensku.
Athugasemdir
Að venju kemur þú með góðar ábendingar. Allar þessar villur hefði prófarkalesari leiðrétt. Um endurfæðingu Elvisar í Hafnarfirði get ég ekki dæmt en ef hún er fólgin í því að menn snúi aftur til lífs eftir dauðann í nýjum líkama dreg ég hana stórlega í efa.
Endurholdgun eða endurfæðing (sem hefur einnig aðra merkingu í sumum kristnum söfnuðum sem andleg endurfæðing) er sú hugmynd að lífverur, og í mörgum tilfellum einungis menn, snúi aftur til lífs eftir dauðan í nýjum líkama.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 11.2.2011 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.