Molar um málfar og miðla 504

   Enginn má  við mörgum, heitir þáttur sem Ríkisútvarpið sýndi  á laugardagskvöldið var                   (15.01.2011).  Orðtakið  er: Enginn má  við margnum  og  Ríkisútvarpið á ekkert með að  breyta því.

 Úr fréttum Ríkisútvarps (15.01.2011  )....   tíu mínútum síðar barst  tilkynning um annað slys, ótengdu hinu fyrra.  Ekki var þetta vel að orði komist.

 Úr mbl.is (15.01.2011): Raunar eru sumir vegir ekki í þjónustu nema fáa daga í viku. Það er ekki fyrir hvern sem er að skilja þetta. Átt er við að  vegir  séu ekki  ruddir  eða salti dreift á   hálkubletti nema  nokkrum sinnum í viku.

 Molaskrifari les Árna Matt   Frá  bankahruni til byltingar, bók þeirra  Árna Mathiesens og Þórhalls Jósepssonar. Bókin er ágæt upprifjun og  veitir    nýja sýn á ýmislegt. Molaskrifari var  við störf í Færeyjum, þegar  þessi ósköp dundu yfir og  fylgdist ekki eins vel með eins  þeir sem hér heima voru.  Bókin er  lipurlega skrifuð, enda  var  höfundurinn rekinn af fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem  Morgunblaðið kallar nú Óðinsvé.

 Úr mbl.is (15.01.2011): Sonurinn, sem heitir Ron Reagan, segir í bók sinni „100 ára ártíð föður míns“ að hann hefði tekið eftir Alzheimereinkennum hjá föður sínum þegar hann hafði gegnt embættinu í þrjú ár.Ártíð er dánarafmæli. Ronald Reagan lést árið 2004. Árið  2104 er því hundraðasta ártíð hans. Morgunblaðið ruglar hér saman  aldarafmæli og   ártíð.  Í ljósi þess að bókin heitir á ensku My Father at 100, er þýðingin á bókartitlinum enn furðulegri. Það hefur raunar aldrei legið vel fyrir Morgunblaðinu að þýða úr ensku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband