Molar um málfar og miðla 484

 Höskuldur Þráinsson, prófessor,  sendi  Molaskrifara á  dögunum  svolitla  ádrepu   í  athugasemdum við    færslu nr. 471 á  blog.is.  Molaskrifari  birtir  athugasemd Höskuldar hér þar sem fleiri  sjá hana en á  blog.is:

  Mig langar að gera athugasemd við eftirfarandi athugasemd frá þér ( skrifar Höskuldur Þráinsson):

 Kjörstaðir opna klukkan tíu, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins í hádegisfréttum (26.11.2010). Er mönnum alveg  fyrirmunað að nota  sögnina að opna rétt ?  Kjörstaðir opna  hvorki eitt  né neitt. Kjörstaðir verða  opnaðir  klukkan tíu. Ótrúlegt. Hvað segir málfarsráðunautur? Er hann ekki örugglega enn við  störf?

Hér fylgir þú þeim leiða vana að láta ekki nægja að vera með ábendingar heldur reyna að meiða fólk eða gera lítið úr því með hneykslunartóni (sbr. Er mönnum alveg fyrirmunað ..., Er hann ekki örugglega enn við störf?).  Samt er þetta mál nú ekki eins einfalt og þú heldur. Í íslensku, og reyndar mörgum fleiri málum, eru til sagnapör sem eru þannig að önnur sögnin er áhrifssögn en hin er áhrifslaus sögn og getur þá tekið frumlag sem samsvarar andlagi áhrifssagnarinnar. Dæmi:

Þeir breikkuðu veginn/Vegurinn breikkaði; Bankastjórinn hækkaði vextina/Vextirnir hækkuðu; Hún dýpkaði skurðinn/Skurðurinn dýpkaði; Ríkisstjórnin lækkaði lánin/Lánin lækkuðu o.s.frv.

Í öllum  þessum dæmum væri hægt að nota röksemd þína og segja: Er mönnum alveg fyrirmunað að nota sögnina X rétt? Vegurinn breikkar hvorki eitt né neitt; vextirnir hækka hvorki eitt né neitt, skurðurinn dýpkar hvorki eitt né neitt; lánin lækka hvorki eitt né neitt. Það er af því að þarna eru sagnirnar breikka, hækka, dýpka, lækka allar áhrifslausar þótt þær tengist áhrifssögnum á reglubundinn hátt eins og áður var sýnt. En í raun eru þessi dæmi alveg sama eðlis og dæmið sem þú finnur að, þ.e. þar er  sögnin opna notuð sem áhrifslaus sögn sem tengist áhrifssögninni opna: 

Kjörstjórnir opna kjörstaði/Kjörstaðir opna (sbr. Bankastjórinn hækkar vexti/Vextir hækka o.s.frv.)

Samt hefur oft verið fundið að því að menn noti sögnina opna sem áhrifslausa sögn, rétt eins og þú gerir hér. En það eru ekki augljós málfræðileg rök fyrir því. Þetta veit málfarsráðunautur útvarpsins auðvitað.

 Bestu kveðjur

 Höskuldur Þráinsson

Molaskrifari þakkar  Höskuldi þessa ádrepu og ábendingu. Vel má það vera að nokkuð harkalega hafi verið tekið til orða. En Molaskrifari hefur  reyndar ekki skipt um skoðun á  orðatiltækinu að kjörstaðir  opni. Verra  er þó þegar fréttamenn segja: Þegar kjörstöðum  lokar  eins og því  miður heyrist of oft.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Það má kannski segja að allt sé í raun nógu gott sem skilst af því sem sagt er nú til dags. En ég skil ekki rökin fyrir því að rétt sé að segja að kjörstaðir opni því að mér finnst jafnvitlaust að segja það og að skurður dýpki og vegur breikki. Um lán er það að segja að ríkisstjórnir geta því miður ekki lækkað þau. Lán lækka ef borgað er af þeim. Um vísitölutryggð lán gildir að vísu sú regla að þau hækka þótt af þeim sé greitt. En það þýðir ekki að deila við prófessora, jafnvel ekki  þótt þeir haldi því fram að allt sé rétt mál sem komin sé hefð á eins og beyging orðsins hönd; hendi, hendi, hendi, handar. Á þínum ,,leiðu vönum '' hef ég enga skoðun.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 14.12.2010 kl. 12:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hef skoðun á hinum "leiðu vönum" Eiðs. Þeir fara svolítið í taugarnar á mér. Held jafnvel að mildara orðalag gæti orðið árangursríkara. Samt er mjög lofsvert að fylgjast eins vel með málfari á fjölmiðlum og hann gerir.

Sæmundur Bjarnason, 14.12.2010 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband