1.10.2010 | 10:04
Molar um málfar og miðla 419
Skrifað er á pressan.is (29.09.2010): ...en stöðvarnar höfðu deilt um hvort fyrrnefnda stöðin bæri skylda til þess. Hér hefði átt að segja:... hvort fyrrnefndu stöðinni bæri skylda til þess. Máltilfinning ekki til staðar.
Við erum áratug eftir á, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (30.09.2010) og átti við, að við værum áratug á eftir þeim, sem um var rætt.
Fín músík hjá KK á Rás eitt á morgnana. Hann er ótrúlega naskur að finna hljóðritanir, sem sárasjaldan heyrast.
Úr mbl.is (30.09.2010): Tildrögin voru þau að tilkynning barst um yfirstandandi innbrot í hverfinu. Í hönd fór leit að innbrotsþjófum en lokað var fyrir aðkomuleiðir að hverfinu. Yfirstandandi innbrot! Í hönd fór leit ! Lokað fyrir aðkomuleiðir ! Væntanlega var verið að koma í veg fyrir að þjófarnir kæmust út úr hverfinu, ekki inn í það. Ekkert af ofangreindu er í rauninni rangt, þótt orðatiltækið að loka fyrir leiðir sé ekki í samræmi við málvenju, en ........
Molaskrifari lagði það á sig á hlusta á síðdegisútvarp Útvarps Sögu (30.09.2010) á leiðinni austur í sveitir. Kynningartónlistin í upphafi var eins og margframlengd endurómun á upphafstónlist biblíumyndar eftir bandaríska leikstjórann Cecil B. DeMille (Boðorðion tíu , ofl. ). Annars var þátturinn óttalegur þunnur þrettándi. Eitt og annað var þó bitastætt hjá lagadoktornum. Útvarpsstjórinn afhjúpaði fávisku sína, þegar í ljós kom, að hún veit ekki , að orðið alkálfur er notað um kálf, sem alinn er til slátrunar !
Ekkert lát er á lögbrotum stjórnenda Ríkisútvarpsins, þegar kemur að áfengisauglýsingum. Að kveldi miðvikudags (29.09.2010) á undan og eftir ágætri Kilju Egils (kostaði mig tvær nýjar bækur) var auglýstur bjór og ágæti bjórþambs. Orðið léttöl var nær algjörlega ósýnilegt og því ólæsilegt á flösku hægra megin á skjánum. Hvernig er hægt að ætlast til þess, að almennir borgarar beri virðingu fyrir lögum landsins, þegar hið opinbera, fulltrúar stjórnvalda brjóta lögin blygðunarlaust í augsýn alþjóðar Það er til skammar að láta Ríkisútvarpið komast upp með þessa ósvinnu. Stjórnendur RÚV eiga að sæta ábyrgð fyrir lögbrot.
Athugasemdir
Saklaust er að kaupa kiljur Egils ef ágæti bjórþambs fylgir ekki í kaupbætir?
Ankannalegt er ef opinber stofnun kemst upp með að brjóta lög. Þessi brot eru álíka og að maður án leyfis lögreglu tæki að selja bjór og áfengi. Hann yrði fljótt stoppaður af og lokað hjá honum. Heildsalinn sem braut lög um áfengisauglýsingar fékk refsingu. Ábyrgð þeirra sem þiggja fé úr sjóðum almennings er meiri. Ef lögin eru óskýr á löggjafinn að bæta úr því. Eru það ekki samtök bindindismanna og foreldra sem eiga að kæra.
Auglýsing brugghússins er skýr, brjóta skal lög og óvirða þá sem þykir vænt um peysuföt með aulafyndni. Umgengni unglinga með áfengi um nætur og helgar í miðbænum líkjast inntaki boðberans. Drekka skal ríkulega af stút.
Sigurður Rafn (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.