Molar um málfar og miðla 399

  Orðtak sem   fjölmiðlungar  hafa mikið dálæti á  er að segja að eitthvað sé í  pípunum, þegar eitthvað er í undirbúningi, yfirvofandi eða á  döfinni.  Framkvæmdir geta verið í pípunum , skattahækkanir geta verið í pípunum, bensínhækkanir geta verið í pípunum og  svona mætti áfram telja.   Í hádegisfréttum  Ríkisútvarps (06.09.2010) töluðu bæði  fréttamaður og ráðherra um  vegaframkvæmdir  sem væru í pípunum.  Það  væri  annars nógu gaman að sjá  þessar pípur, sem eru ýmsit  fullar af framkvæmmmdum  eða skattahækkunum. Kannski Ríkissjónvarpið sýni okkur þær  við  tækifæri.

Undarleg frétt var í sjónvarpi og útvarpi (06.09.2010) þar sem  sagt var frá  fyrirtæki í kröggum. Rætt  við lögfræðing þess, en bannað var að  nefna nafn fyrirtækisins. Það á ekki að  flytja okkur svona  „leyndó" fréttir svo notað sé  barnamál. Hversvegna mátti ekki nefna  fyrirtækið?

  Morðvopnin hugsanlega fundin , segir á fréttavef Ríkisútvarpsins (06.09.2010) um hnífinn  sem  ungir piltar  fundu í eða við  smábátahöfnina í Hafnarfirði. Einn hnífur  getur ekki verið morðvopn í fleirtölu. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps  sagði fréttamaður:.. hnífurinn passar vel við lýsingar og hugmyndir lögreglunnar að morðvopninu.  Hér  hefði  verið betra að segja: ...  lýsingar og  hugmyndir lögreglunnar um morðvopnið.  Í þessum fréttatíma var okkur   sagt: ... ekki er gert  ráð  fyrir að Herjólfur sigli í Þorlákshöfn.   Betra: ... ekki er gert ráð fyrir að Herjólfur sigli til Þorlákshafnar. Þá  sagði fréttamaður í sama  fréttatíma : ... á hverju áttu von á ?  Nægt hefði að segja á hverju áttu von ? Enn eitt  gullkornið: ... segir meðferðina vel sótta. Hvernig getur  meðferð verið vel eða illa sótt ? Frétt um  kanínur á  höfuðborgarsvæðinu var býsna skrautleg:  Fyrst talaði fréttamaður skýrt og  greinilega um Elliðarárdal og   vitnaði svo í viðmælanda, sem átti að hafa sagt: ... segir óvíst hvort  vandamálið sé orðið áþreifanlegt á höfuðborgarsvæðinu, kanínurnar séu meira  til óþæginda...Þetta finnst  Molaskrifara heldur einkennilegt orðalag og merkingin  ekki ljós. - Fleira mætti  reyndar tína til úr  þessari  kanínufrétt, sem bætti engu við fyrri fréttir af kanínum.  Þegar fréttamaður Ríkisútvarpsins  talar um Elliðarárdal, þá sér þess stað að landafræði hefur verið úthýst úr  skólakerfinu og að fréttamaðurinn  er ekki staðkunnugur í Reykjavík.

   Hagræðingin á fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur það í för með sér  að ambögurnar úr  sexfréttum Ríkisútvarpsins eru á stundum  endurteknar í  sjöfréttum Ríkissjónvarpsins. Þannig er hægt að gjörnýta góðar ambögur. Eða þannig !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Árnar og vatnið eru kenndar við skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns. Árnar kvíslast og því heita þær Elliðaár en ekki Elliðaá. Þetta er sjálfsagt ekki kennt í skólum frekar en margt annað. En ef það er rétt hjá þér að landafræði hafi verið úthýst úr skólakerfinu verð ég að spyrja son minn rækilega um það hvernig honum hafi tekist að verða landfræðingur.


Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 8.9.2010 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband