Molar um málfar og miðla 384

 

 Aldrei  er Molaskrifari sáttur við það orðalag, þegar sagt er að eitthvað sé komið til að vera. Finnst það enskulegt. Í  hádegisfréttum Ríkisútvarpsins ( 19.08.2010) var  sagt að hrossasóttin margumrædda væri komin til að vera. Þetta var svo endurtekið í sjónvarpsfréttum kvöldsins. Í fréttayfirliti var sagt, að veikin væri komin varanlega til landsins.  Hrossasóttin er sem sagt orðin landlæg á Íslandi.

  Í fréttum Stöðvar tvö (19.08.2010) var sagt frá hljómplötuútgáfu á Íslandi. Þar var sagt að  Svavar Gestsson hefði  gefið út plötu með  söng Fjórtán  Fóstbræðra. Það er  rangt. Svavar Gests gaf plötuna út. Hann  var tónlistarmaður og  ötull plötuútgefandi. Hann gaf  út tugi hljómplatna. Svavar Gestsson var ráðherra og seinna sendiherra. Ekki er vitað til að hann hafi gefið út hljómplötur.

  Íþróttafréttir  Stöðvar tvö (19.08.2010) voru  eins og svo oft áður mikið ambögusafn:  ... munu keppa fyrri leikinn,.....  ef Valsstúlkum takist að fara með sigur  hólmi.... Mikil meiðsli hafa verið í herbúðum íslenska liðsins... Er þá fátt eitt talið.

  Þóra Arnórsdóttir og Benedikt Ketilsson fóru á Geysi, sagði umsjónarmaður Kastljóss (19.08.2010). Ekki kann Molaskrifari að meta  forsetninguna á í þessu samhengi. Betra hefði verið að segja:  ... fóru að Geysi.

 Úr mbl.is (19.08.2010): ...fyrirskipaði að um 300 tímabundnum tjaldbúðum sígauna vítt og breytt um landið skyldi lokað. Tímabundnum tjaldbúðum ? Hér skín enskan í gegn. Hefur líklega verið: Temporary encampments. Vítt og breytt um landið. Það var og.

  Ágætur maður að nafni Eiríkur Stefánsson er einn helsti sérfræðingur Útvarps Sögu um allt milli himins og jarðar. Hann minnir  Molaskrifara um margt  á „sérfræðingana", sem í gamla daga létu móðan mása í kaffitímum, vissu allt öðrum betur,  kunnu ráð við öllu og lá stundum hátt rómur. Eiríkur vill loka öllum sendiráðum Íslands, nema þremur. Hann er með utanríkisþjónustuna á heilanum eins  fleiri á þessum fjölmiðli. Hann veit líklega ekki að þá munu önnur lönd loka sendiráðum sínum á Íslandi. Þá verða þrjú  sendiráð í Reykjavík. Við höfum örugglega meiri tekjur af sendiráðunum hér,  en sem nemur útgjöldum vegna sendiráða okkar erlendis. Enda okkar sendiráð  fámenn  og ódýr í rekstri.  Þá vill Eiríkur loka fimm íslenskum háskólum af sjö. Hann er ókunnugur þeirri staðreynd, að menntun þegnanna  er besta fjárfesting hverrar þjóðar. Auðvitað verður samt að hagræða  og  nýta fjármuni vel á öllum stigum menntakerfisins. Svona fullyrðingar eru ódýrt lýðskrum  og í ágætum stíl  við þann anda sem skapaður hefur verið í Útvarpi Sögu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

…stöðin sem aldrei sér til sólar… Verð samt að viðurkenna að ég bregð fyrir mig að hlusta á Útvarp Sögu. Einkum ef ég er einn á ferð í bílnum og langar að birgja mig upp af áþreifanlegri bölsýni og efla með mér réttláta reiði út í vonsku heimsins.

Sigurður Hreiðar, 21.8.2010 kl. 11:35

2 identicon

Grindvíkingum gengur nú betur en áður á knattspyrnuvellinum enda hefur GENGI ÞEIRRA UMTURNAST að mati íþróttafréttamanns Fréttablaðsins, líklega þess sama sem umturnaði stöðu KR-inga í úrvalsdeildinni í gær eftir að þeim fór að ganga betur.

Emil Ragnar Hjartarson (IP-tala skráð) 21.8.2010 kl. 13:24

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Landslagið er komið til að vera var eitt sinn fyrirsögn í Mogganum.

Skömmu síðar var keppnin lögð niður og nú er ekkert landslag hér lengur.

Þorsteinn Briem, 21.8.2010 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband