22.6.2010 | 08:57
Molar um málfar og miðla 334
Nú býður Ríkisrásin íslensku þjóðinni upp á allt að 8- 10 klukkustundir á dag af fótbolta og froðusnakki um fótbolta. Þjóðin er nauðbeygð til að borga fyrir skylduáskrift að Ríkisrásinni. Þeir í Efstaleitinu gefa öllum sem ekki eru forfallnir í fótboltasýki langt nef. Engin önnur Ríkisrás á Norðurlöndunum býður sínu fólki upp á svona lagað. Það þarf að taka allan rekstur Ríkisrásanna í Efstaleiti til róttækrar endurskoðunar.
Svona var dagskrá Fótboltasjónvarps ríkisins, frá klukkan 17 15 mánudaginn 21. júní 2010:
1715 HM Stofa. Froðusnakk um fótbolta.
18 00 Fréttir og veður
18 20 Fótboltaleikur
20 30 HM-kvöld. Meira froðusnakk um fótbolta.
21 10 Lífsháski. Amerísk spennumyndaröð.
22 00 Fréttir og Veður
22 20 Íslenski boltinn. Meiri fótbolti.
23 05 HM- kvöld endursýnt froðusnakk um fótbolta.
23 30 Fótboltaleikur
01 20 Endursýndar kvöldfréttir.
Þá er þess reyndar ógetið að klukkan 13 30 hófst froðusnakk um fótbolta og síðan var sýndur fótboltaleikur fram undir klukkan 16 00 !!!
Þessi dagskrá er reginhneyksli. Molaskrifari tekur hiklaust undir með þeim,sem hafa lagt til að Ríkissjónvarpið setji upp íþróttarás með sérstöku afnotagjaldi fyrir forfallna. Svo þarf að skipta um dagskrárstjórn í Efstaleitinu.
Dv.is segir í fyrirsögn (21.06.2010): Japanir hafa borið fé í fulltrúa Alþjóðahvalveiðiráðsins. Nú segir ef til vill einhver, að ekkert sé athugavert við þessa fyrirsögn. En af fréttinni má ráða, að Japanir hafi verið að múta fulltrúa Alþjóðahvalveiðiráðsins. Á íslensku er talað um að bera fé á einhvern, þegar rætt er um mútur, en ekki að bera fé í einhvern. Íslensk stórfyrirtæki og bankar báru fé á íslenska stjórnmálamenn í stórum stíl.
Athugasemdir
Mér finnst eiginlega betri hugmynd að setja upp sérstaka rás fyrir þá sem kunna ekki að meta fótbolta og láta þá greiða sérstakt afnotagjald. Myndi koma mun betur út fyrir Rúv.
Kennsla (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 09:30
Það er lítið r í ríkisrás.
Helga (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 09:57
Er svo hjartanlega sammála ykkur og meira til, mér finnst það ósvifni að vera látin borga afnotagjald fyrir tímabil þar sem ekki er opnað sjónvarp, og hér er bara hægt að ná ríkisrásinni. Hvað skyldu vera margir sem vildu vera með í því að neita að borga afnotagjald fyrir einn mánuð.
Kristín (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 17:25
Orð í tíma töluð. Sýnir hve illa er komið fyrir ríkisrekstri sem átti rétt á sér áður fyrr. Lítill söknuður er að sjónvarpi nú þegar dagur er lengstur. Eina sem ég vildi borga fyrir úr dagskrá sjónvarps eru kvöldfréttir og umræðuþættir, hefði ég val. Rás 1 hefur styrk til að halda uppi menningardagskrá og gerir það með ágætum. Flestir sem eru orðnir læsir á ensku geta horft á sjónvarpsdagskrá frá gervihnöttum. Ríkið á ekki að halda uppi samkeppni við sjálfstæðan rekstur sem aðrir geta rekið með hagnaði og útsjónarsemi. Sama gildir og um fjölmiðlafyrirtæki sem komast undan með að borga lán og opinber gjöld.
Sigurrafn (IP-tala skráð) 22.6.2010 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.