3.6.2010 | 16:17
Molar um málfar og miðla 318
Nýlega heyrði Molaskrifari á einhverri útvarpsstöðinni, að talað var um að binda ekki skóþvengi sína eins og aðrir menn. Molaskrifari er á því að þetta sé mesta rugl. Í ágætri bók dr. Jóns G. Friðjónssonar, Merg málsins, segir um skóþveng/skóþvengi : Binda skóþvengi sína, er að tygja sig til brottfarar. Binda ekki skóþvengi sína /skóþveng sinn lengi einhversstaðar, dveljast ekki lengi á sama stað. Vera ekki þess verður að leysa skóþveng einhvers, vera e-m öðrum langtum óæðri, vera ekki þess verður að gera e-m hinn minnsta greiða.
Hér er væntanlega verið að rugla með orðatiltækið að binda ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn,sem þýðir að vera sérlundaður, fara sínar eigin leiðir. Í einu kunnasta erfiljóð íslenskrar tungu yrkir Bjarni Thorarensen svo um séra Sæmund Magnússon Hólm:
á sinni jarðreisu
oft í urð hrakinn
út úr götu,
að hann batt eigi
bagga sína
sömu hnútum
og samferðamenn.
Um séra Sæmund var sagt, að hann hefði verið manna kynlegastur.
Sögnin að valda veldur mörgum erfiðleikum, meðal annars nafnkunnum Moggabloggara,sem skrifaði (02.06.2010):Óheft íbúðalán bankanna sem ullu stórhækkun fasteignaverðs á sínum tíma.. - ollu en ekki ullu.
Íþróttamenn eiga oft erfitt með að fóta sig á hálu svelli tungunnar. Íþróttafréttamaður Stöðvar tvö sagði (02.06.2010): .. gaf undan.. Hér er ruglað saman tveimur orðatiltækjum, að láta undan og að gefa eftir. Úr verður ambaga.
Algenga villu mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö (02.06.2010) þegar sagt var, að tiltekinn einstaklingur væri hæst launaðasti... Hér hefði verið alveg nóg og reyndar réttara að segja: Hæst launaði... eða launahæsti.
Lögreglumaður sá stuttu síðar tölvuna í bíl sem var á ferð og handtók konuna(mbl.is 03.06.2010). Þeir eru aldeilis fráneygir í lögreglunni !
Athugasemdir
Þér að segja bind ég alls ekki skóþvengi mína eins og aðrir menn. Mín aðferð er alveg unique!
Sigurður Þór Guðjónsson, 3.6.2010 kl. 19:32
Sæll. Flest sem þú segir hér eru algengar villur og ganga aftur einhverra hluta vegna. Ég hef trúlega bent á það áður að nú er svo langt um liðið frá fornum búskaparháttum að ungt fólk þekkir þá ekki. Það er því klórað í bakkafullan lækinn og komið annað hljóð í skrokkinn. Um þann hæst launaða finnst mér fólki vera nokkur vorkunn. Um sögnina að valda dettur mér í hug gömul vísa eftir óþekktan höfund.
Saman á skeiðvöllinn skullu
og skelfingu í hverfinu ullu
er Skúli á skeið
sér skellti og reið
henni Rannveigu næstum að fullu.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.6.2010 kl. 19:33
Já, dagar íslensgukunátunar eru talnir. Svei því.
Heimir Tómasson, 4.6.2010 kl. 04:10
hér að ofan í athugasemd 3, er skrítið orð sem ég held að sé prentvilla þ.e. "talnir" - ég reikna með að þar eigi að standa taldir - mér finnst bera of mikið á ritvillum í skrifum fólks og er það hvimleitt, ekki eru færri villur í mæltu máli og má vissulega sjá og heyra að tunga okkar á undir högg að sækja vegna þess að fólk nennir ekki að vanda sig varðand málfar - þetta sem og slettur er því miður orðið algengt í viðtalsþáttum útvarps- og sjónvarpsstöðva.
Eyþór Örn Óskarsson, 4.6.2010 kl. 12:49
@Eyþór ... held þér hafi yfirsést eitt orðið í athugasemd #3, þó að þú bendir réttilega á að orðið 'talnir' hljóti að vera ritvilla. En margt er undarlegt með orðið 'íslensgukunátu' og tel ég að hérna sé um ískalda íroníu að ræða.
En ekki veitir af því að benda fólki á slæmar málvillur og batnandi mönnum er best að lifa svo lengi sem þeir kjósa að læra af mistökum sínum.
Elín (IP-tala skráð) 4.6.2010 kl. 13:27
Góð vísa, Ben.Ax., er sjaldan of oft kveðin !
Eiður Svanberg Guðnason, 4.6.2010 kl. 13:31
Þetta var reyndar kaldhæðni hjá mér já... merkilegt hvernig það fór framhjá sumum
Heimir Tómasson, 7.6.2010 kl. 00:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.