Gleðilega hátíð !
Talsverðar líkur eru á að Landsmót hestamanna verði frestað, sagði þulur í tíufréttum Ríkissjónvarps (20.05.2010). Þarna átti orðið landsmót að vera í þágufalli. Einhverju er frestað. Eitthvað er ekki frestað. Í sömu frétt var sagt: Allar keppnir hafa verið slegnar af ! Í þessum fréttatíma var einnig sagt: ... síðan í gærnótt. Slíkt orðalag kannast Molaskrifari alls ekki við og finnur ekki í fljótu bragði í orðabók. Hann verður sömuleiðis að játa, að hann veit ekki hvort átt er við í nótt sem leið, síðastliðna nótt, eða í fyrrinótt.
Íslendingur,sem lengi hefur búið erlendis, og lætur sér annt um móðurmálið, sendi Molum eftirfarandi:
„Ég rakst á skemmtilega fyrirsögn áðan. Fyrirsögnin, sem er á síðu Ríkisútvarpsins, er svona:
„Síbrotamaður dæmdur af Hæstarétti" Ekki er alveg ljóst af fyrirsögninni, hver dæmdi síbrotamanninn af Hæstarétti, eða hvort hann var einn af dómurunum, alla vega virðist Hæstiréttur hafa þurft að sætta sig við að missa þennan ágæta síbrotamann.
Það er auðvitað ekki rangt að nota þolmyndina - bara klaufalegt, - og getur á stundum valdið misskilningi."
Molaskrifari nefnir hér til sögunnar annað dæmi um klaufalega þolmyndarnotkun. Fréttamaður Ríkissjónvarps segir í athugasemd við Mola um málfar og miðla 309: Japanska sjónvarpsstöðin fékk efni til birtingar sem tekið var af okkur í Bagdad en í staðinn fékk RUV viðtalið við Ethan.Það hlýtur að hafa verið erfitt að láta af hendi efni,sem búið var að taka af þeim sjónvarpsmönnum í Bagdad ! Þetta segir nú líklega einhver að sé útúrsnúningur. En þetta er heldur óhönduglega orðað.
Frétt á visir.is (21.05.2010): Lögreglunni á Selfossi barst í nótt beiðni um aðstoð við stálpaðan ungling, Hve gamall skyldi stálpaður unglingur vera ?
Ekki finnst Molaskrifara það fyrirmyndar, þegar ráðherra (Stöð 2, 21.05.2010)) talar um að vinna tjón til baka, í merkingunni að bæta tjón. Í fréttum Stöðvar tvö sagði fréttamaður þetta sama kvöld: Alla daga sem flugsamgöngur eru niðri. Þetta er ambaga. Hann hefði átt að segja: Alla daga, sem flugsamgöngur liggja niðri eða falla niður.
Svo er hér rúsína í pylsuendann úr mbl.is (22.05.2010) : Þeir sem lifa hjartaáfall af eru mjög líklegir til þess að forðast kynlíf eins og heitan eldinn þar sem þeir telja að ástundun kynlífs geti riðið þeim að fullu.
Athugasemdir
Nær allir segja í þessum flokk,hóp,mót, staðinn fyrir flokki,hópi,móti. Það eru þó sárabót að geta hlegið að ambögunum.
Helga Kristjánsdóttir, 24.5.2010 kl. 02:41
Takk sömuleiðis, gleðilega hátíð!
Þorsteinn Briem, 24.5.2010 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.