31.3.2010 | 10:40
Molar um málfar og miðla 279
Mikið var gaman að hlusta á Alexander Ómar Breiðfjörð Kristjánsson , níu ára listamann frá Grund, skammt frá Selfossi, í Kastljósi (30.03.2010). Ef allir fjölmiðlamenn væru jafnvel máli farnir og þessi níu ára drengur, hefði Molaskrifari fátt um að skrifa. Gerinilegt er, að alla ævi þessa drengs hefur verið talað við hann eins og fullorðinn. Þannig á einmitt að tala við börn. Ótrúlegur strákur. Við eigum örugglega eftir að heyra meira af honum síðar.
Clinton til varnar Íslandi, sagði á vef RÚV (30.03.2010) og í yfirliti hádegisfrétta RÚV þennan sama dag sagði, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefði skammað Kanadamenn fyrir að bjóða ekki Íslendingum til fundar, en á fundinum fjölluðu nokkur ríki Norðurskautsráðsins um málefni norðurslóða. Kanada boðaði til fundarins. Hið rétta er, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna gagnrýndi Kanadamenn fyrir að bjóða ekki Finnlandi ,Íslandi og Svíþjóð til fundarins. Það var heimalningslegt, hvernig Ríkisútvarpið sagði frá þessu. Ekki fagleg vinnubrögð.
Það voru heldur ekki fagleg vinnubrögð, þegar í þessum sama fréttatíma RÚV var flutt gagnrýni doktors í líffræði á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans um hvalveiðar. Þess var svo getið í framhjáhlaupi síðar, að maðurinn væri í stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem opinberlega hafa gagnrýnt skýrsluna. Það átti að segja strax. Morgunblaðið hafði annan hátt á. Það kynnti manninn, sem stjórnarmann í Náttúruverndarsamtökum Íslands og sagði hann hafa sett gagnrýnina fram á heimasíðu samtakanna. Óvönduð vinnubrögð, sem gefa hlustendum ranga mynd af því sem um er fjallað.
Í Kastljósi (30.03.2010) talaði fréttamaður um grasþúfu. Það fannst Molaskrifara einkennilegt orðalag. Í sama Kastljósi var sagt, að einhver hefði gert eitthvað upp á sitt einsdæmi. Einsdæmi er einstæður atburður. En þegar menn gera eitthvað upp á sitt eindæmi, þá gera menn eitthvað á eigin ábyrgð eða að eigin frumkvæði. Á þessu reginmunur.
Raun var að hlusta á fréttamann RÚV stunda trúboð gegn álverum í Morgunútvarpi Rásar tvö (31.03.2010). Fréttamaðurinn endurtók rangfærslur,sem Jónas Kristjánsson hafði látið sér um munn fara á sama vettvangi daginn áður. Smári Geirsson svaraði með staðreyndum. Jónas hittir oft naglann á höfuðið í skrifum sínum. En hann verður að virða þá grundvallarreglu blaðamanna að halda sig við staðreyndir. Ekki segja að í álverinu á Reyðarfirði vinni 200 manns ,þegar starfsmenn þar eru 480. Fleira fór Jónas rangt með. Það tekur enginn mark á þeim sem hafa rangt við með þessum hætti. Þetta er brot á grundvallar reglu blaðamennsku.
Á vef Ríkisútvarpsins er viðtalið við Smára Geirsson kynnt undir fyrirsögninni: Áldraumar verkalýðsrekenda.Smári svarar því. Orðin Áldraumar verkalýðsrekenda eru tilvitnun í orð Jónasar Kristjánssonar. Það kemur ekki fram í fyrirsögn á vefnum. Ófagleg vinnubrögð.
Athugasemdir
Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Um gagnrýni þína á fréttamennsku get ég ekki fjallað en í mínu ungdæmi voru til hundaþúfur og ef ég hef skilið almættið rétt skitu hundar utan í þessar þúfur og gerðu þær þeim mun veglegri sem oftar var skitið. Þetta gerðu hundarnir upp á sitt eindæmi en það var langt frá því einsdæmi að þeir gerðu þetta. Jónas Kristjánsson er ekki blaðamaður og því ekki sanngjarnt að saka hann um óvönduð vinnubrögð. Í stjórnarskránni er hvergi tekið fram að menn skuli kunna að telja og samkvæmt henni er það ekki glæpur að hafa rangt fyrir sér en hins vegar eru í gildi lög um afnám bókstafsins z en hana notar Jónas enn. Og úr því að minnst er á Jónas langar mig að benda þér á að þú gagnrýndir t-leysi í orðinu þáttaka hjá honum um daginn og fannst þér að hann ætti að vita betur. Að skrifa orðið svona er sérviska Jónasar. Hann er góður í stafsetningu en honum fannst þriðja t-inu ofaukið. Mér finnst þetta svona álíka sérviska og þegar Þorgeir Þorgeirsson fékk því framgegnt að verða Þorgeirson með ærinni fyrirhöfn. Barátta Þorgeirs um essið var þó þeim mun skemmtilegri sem viðhald z og brottfall tés er hallærislegt hjá Jónasi.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 31.3.2010 kl. 17:41
"Ekki hefur verið sett löggjöf um íslenska stafsetningu. Hins vegar er löng hefð fyrir því að íslensk stjórnvöld gefi fyrirmæli í formi auglýsingar um hvaða reglur skuli gilda um stafsetningu þá sem kennd er í skólum og notuð er í ýmsum gögnum sem út eru gefin á vegum ríkisins eða með atbeina þess. ...
Eins og áður segir eru ákvæði núgildandi auglýsingar um íslenska stafsetningu bundin við afmarkað gildissvið, þ.e. skólakennslu, kennslubækur og embættisgögn. Ekkert bann liggur því við notkun bókstafsins z utan þessa sviðs standi vilji til þess."
Um stafsetningu - Menntamálaráðuneytið
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 00:14
Greinilegt er að L-ið í EFLA fyrir ofan dyrnar í Háskóla Íslands í VÍSINDIN EFLA ALLA DÁÐ hefur dottið ofan í kollinn á hagfræðingum skólans og eftir stendur VÍSINDIN EFA ALLA DÁÐ.
Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, gaf 27. janúar í fyrra út reglugerð sem heimilaði veiðar á hrefnum og langreyðum á árunum 2009-2013. Hins vegar voru veiddar hér einungis 69 hrefnur og 125 langreyðar í fyrrasumar, eða 54% færri hrefnur og 17% færri langreyðar en hagfræðingarnir gera ráð fyrir.
Hundrað og fimmtíu hrefnur eru um 0,3% af hrefnustofninum hér og 150 langreyðar um 0,7% af langreyðarstofninum, miðað við forsendur hagfræðinganna. Þar að auki er langreyðurin einungis hluta af árinu hér við land.
Og hrefnukjöt kemur í stað kjöts frá íslenskum bændum, þannig að sala á íslenskum landbúnaðarafurðum verður minni en ella vegna hrefnuveiðanna. Einar K. Guðfinnsson var hins vegar BÆÐI landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
Hrefnukjötið er því svokölluð staðkvæmdarvara og það ættu nú allir hagfræðingar að vita, jafnvel þótt L-ið standi fast í kollinum á þeim. Hins vegar gera þessir spekingar ekki ráð fyrir minni sölu á landbúnaðarafurðum í útreikningum sínum, enda þótt hún þýði minni tekjur fyrir bændur en ella, sem kemur þá á móti tekjum af hrefnuveiðunum.
Af fæðu hrefnunnar er ljósáta 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar 6%. Og langreyðar éta svifkrabbadýr (ljósátu), loðnu og sílategundir, samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar.
Norðmenn hafa einnig étið hrefnukjöt en Norðmenn hafa sjálfir veitt töluvert af hrefnu, þannig að ekki seljum við hrefnukjötið til Noregs.
Og við gætum eingöngu selt langreyðarkjöt til Japans en Japanir veiða sjálfir stórhveli og verð á hvalkjöti þar myndi væntanlega lækka með auknum innflutningi. Japanskir hvalveiðimenn yrðu nú ekki hrifnir af slíku.
Langreyðurin heldur sig á djúpslóð og er fardýr, líkt og flestir aðrir hvalir hér við land, og um þessi fardýr gilda alþjóðlegir samningar. Langreyðurin kemur hingað snemma á vorin og fer seint á haustin suður í höf, þar sem hún makast og ber. Og langreyðurin er venjulega horfin úr íslenskri efnahagslögsögu í nóvember.
Í sjálfu sér gæti verið einhver þjóðhagslegur hagnaður af því að veiða hér 150 langreyðar á ári að hámarki en kjötið af þeim yrði eingöngu selt til Japans og Japanir ráða því sjálfir hvort þeir leyfa innflutninginn hverju sinni.
Hins vegar er hér enginn þjóðhagslegur ávinningur af hrefnuveiðum.
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 03:16
Um mitt ár 2009 námu heildarskuldir Landsvirkjunar um 3,1 milljarði bandaríkjadala, eins og fram kemur í árshlutareikningi fyrirtækisins. Skuldirnar námu því þá um 400 milljörðum króna á núverandi gengi, sem er andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
En að sjálfsögðu á Landsvirkjun eignir. Það væri nú annað hvort og færi nú í verra ef þær væru allar sokknar í sæ.
Vitanlega tekur langan tíma að greiða upp kostnaðinn við Kárahnjúkavirkjun og verð á raforku til álvera hér er í samræmi við heimsmarkaðsverð á áli í bandaríkjadölum, sem hefur sveiflast mjög mikið.
Enginn veit því hve langan tíma tekur að greiða upp kostnaðinn við Kárahnjúkavirkjun. Nú er mjög dýrt fyrir íslensk ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun að skulda háar fjárhæðir og vextir af skuldum Landsvirkjunar fara til erlendra lánardrottna.
Enga af þessum staðreyndum nefndi Smári Geirsson, svo ég tæki eftir.
"Hálfsannleikur oftast er,
óhrekjandi lygi."
(Stephan G. Stephansson.)
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 04:09
Skelfing er gott að engin lög skuli hafa verið sett um heimsku. Ef það hefði verið gert væri ég margfaldur lögbrjótur og trúlega vistaður í tugthúsi ef þau væru ekki full af skynsömu fólki. Ég þakka Steina Briem fyrir að leiða mig úr þeirri stafsetningarvillu sem ég hef verið haldinn í hálfa öld. En þrátt fyrir hana hefur mér alltaf fundist að menn ættu að stafsetja íslenskt mál að vild. Mér finnst t.d. fallegra að hafa bandaríkjadal með litlum staf en stórum þótt það síðarnefnda sé hugsanlega löglegra. Um setuna er það að segja að ekki er hægt að banna notkun bókstafa þótt við værum kannski betur sett án þeirra. Ég sé ekki mikinn mun á fyrirmælum frá stjórnvöldum og lögum fyrir utan það lítilræði að land skal byggja með lögunum en fyrirmæli eru svo sem álíka merkileg og þrjár Kárahnjúkavirkjanir. Skelfing er gaman í morguns-árið að lesa tvisvar það sem skynsamir menn hafa fram að færa. Mér finnst ég vera nýr og betri maður og ætla af því tilefni að sleppa kaffinu og fá mér bara undanrennuna.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.4.2010 kl. 07:24
Jamm, Benedikt minn Jóhannes, eitthvað hefur slegið út í fyrir ykkur Eiði Guðnasyni undanfarið og jafnvel slegið út stundum. Of mikill straumur gæti ég trúað, enda þótt öll raforkan frá Kárahnjúkavirkjun fari til álvers Aloca við Reyðarfjörð. En þessu öllu má bjarga með undanrennu, eins og þú bendir hér réttilega á.
Oft er gott sem gamlir kveða en þó engan veginn á hverjum degi og hér er dymbilvikan undantekning.
Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra, segir hér í pistli sínum 29. mars síðastliðinn:
"Bandaríkjamenn voru fyrsta ríkið til að viðurkenna Ísland sem fullvalda ríki 1944."
Ísland varð hins vegar sjálfstætt og fullvalda ríki hátt í þremur áratugum fyrr, 1. desember 1918, en mér er nær að halda að flestir Íslendingar, einnig sendiherrar, trúi því staðfastlega að Ísland hafi orðið sjálfstætt ríki árið 1944. Og jafnvel einnig fullvalda sama ár. Þar hefur undanrennuskorturinn trúlega orðið sendiherrunum að falli en víða erlendis fæst engin undanrenna, eins og margir hafa komist að raun um sem þangað hafa komið.
"Með sambandslögunum 1918 varð Ísland fullvalda ríki og árið 1920 fékk landið nýja stjórnarskrá til að endurspegla þær miklu breytingar sem höfðu orðið á stjórnskipun þess. Sú stjórnarskrá var kölluð "Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands"."
Og alla Seinni heimsstyrjöldina litu Þjóðverjar á Ísland sem hlutlaust ríki.
"Í formála bókarinnar er það rifjað upp að Alþingi var kvatt saman tvívegis á árinu 1918 og var frumvarp dansk-íslensku samninganefndarinnar, sem nefndin undirritaði 18. júlí það sama ár og ráðuneyti Íslands féllst á þann sama dag, samþykkt óbreytt 9. september með atkvæðum 37 þingmanna, en tveir voru á móti. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 19. október og voru lögin samþykkt með 12.411 atkvæðum gegn 999. 43,8% kjósenda greiddu atkvæði. [...] Dagurinn 1. desember 1918 var lokadagur í þeim árangri að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki."
Bók um sambandslögin frá 1918 eftir Matthías Bjarnason
Íslenski þjóðsöngurinn
"Tildrög þess, að "Ó, guð vors lands" var ort og lagið samið voru sem hér segir: Árið 1874 var haldin þjóðhátíð í minningu þess að þá voru liðin eitt þúsund ár frá því að fyrsti landnámsmaðurinn settist að á Íslandi. [...] Um þetta leyti átti Sveinbjörn Sveinbjörnsson heima í London Street 15 í Edinborg. Stundaði hann söngkennslu og vann að tónsmíðum.
Séra Matthías Jochumsson hafði verið sóknarprestur að Móum á Kjalarnesi en hætti prestskap í bili um þessar mundir og dvaldi um hríð hjá Sveinbirni í Edinborg og þar orti hann fyrsta erindið af sálminum eða lofsöngnum "Ó, guð vors lands" en hin tvö erindin orti hann síðar í London.
Að framansögðu er ljóst, að Edinborg (og London) er fæðingarstaður íslenzka þjóðsöngsins, bæði ljóðs og lags, [...]
Það var ekki fyrr en á árinu 1948 að íslenzka ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu við þjóðsönginn og að ljóðinu ekki fyrr en árið 1949. Er saga þessa máls sú, að 15. september 1948 ritaði menntamálaráðuneytið sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn og bað það að kanna, hvort rétt væri að Wilhelm Hansen Musik-Forlag í Kaupmannahöfn ætti útgáfu- og flutningsrétt að íslenzka þjóðsöngnum, laginu, og ef svo væri, hvort ráðuneytið gæti ekki fengið þessi réttindi keypt og við hvaða verði. ..."
Íslenski þjóðsöngurinn
Og lög um íslenska þjóðsönginn voru ekki sett fyrr en árið 1983.
Lög um þjóðsöng Íslendinga nr. 7/1983
Íslenski fáninn
"The new flag of 1915 had a blue field with a red cross bordered in white. It is this flag that is used today. The design was proposed by Matthias Thordarson. He explained the colours as blue for the mountains, white for ice and red for fire [...] The flag was officially accepted by the king 30 November 1918 and adopted by law as the national flag the same day. It was first hoisted (as a state ensign) 1 December 1918. On this day Iceland became a separate kingdom united with Denmark under one king."
The flag of 1915
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 13:18
Sæll, Steini Briem og þakka þér fyrir að minna mig á hvað ég heiti. Ég vil þó þrátt fyrir undanrennu benda þér á að ég heiti ekki samkvæmt þjóðskrá Benedikt minn Jóhannes. Ég fletti þessu upp til vonar og vara. En í svona skilmingum kalla ég mig Ben.Ax. og bið viðmælendur að taka mátulega mikið mark á því sem sagt er, ekki síst ef það hendir mig að segja eitthvað af viti. Ég reikna með að þú sért yngri en við Eiður til samans og að minnsta kosti helmingi gáfaðri og þess vegna ætla ég ekki að rökræða við þig heldur hafa það sem sannara reynist eins og Ari fróði gerði, sællar minningar. Ég get ekki svarað fyrir Eið en hins vegar get ég svarið þess eið að dymbilvika fer í taugarnar á mér og er ég varla mönnum sinnandi þessa stundina og það eina sem lyftir mínu geði er það sem þú skrifar bæði á íslensku, latínu en ekki síst ensku. Fátt af þessu vissi ég fyrir en núna, þegar klukkan er að verða tvö, er ég helmingi vitrari en áðan, þegar klukkuna vantaði kortér í eitt, og allt er þetta þér að þakka. Í guðanna bænum (í tilefni páska nefni ég þetta fyrirbæri) haltu áfram að ausa úr viskubrunni þínum því að þú ert svo skemmtilegur.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.4.2010 kl. 14:20
Benedikt minn Jóhannes. Mín vegna máttu kalla þig drottninguna af Saba undir ákveðnum kringumstæðum en hér að ofan er nafn þitt Benedikt Jóhannes Axelsson og þar af leiðandi kalla ég því hér Benedikt minn Jóhannes.
En þú ættir vera búinn að læra fyrir margt löngu að fara ekki með staðlausa stafi, með eða án zetu, og saka menn ekki opinberlega um lögbrot án þess að vera búinn að kanna fyrst hvernig lögin eru, sem er tiltölulega létt verk, bæði fyrir og eftir hádegi, einnig fyrir trúlausa menn. Og til þess þarf nú ekki miklar gáfur, enda þótt einhverjir ráði sjálfsagt ekki við það.
Eina raunverulega breytingin sem varð hér 17. júní 1944 var að þá kom illu heilli president í stað kóngs eða drottningar en íslenska þjóðin kaus þó ekki forseta fyrr en árið 1952, þegar Ásgeir Ásgeirsson varð forseti.
"Margrét Þórhildur eða Margrét 2. (Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid) (fædd 16. apríl 1940) er drottning og þjóðhöfðingi konungdæmisins Danmerkur." Hún heitir því íslenska nafninu Þórhildur.
Ísland var hins vegar ekki í konungsríkinu Danmörku frá 1. desember 1918 til 17. júní 1944, heldur var það konungsríkið Ísland.
"Sveinn Björnsson varð fyrsti sendiherra Íslands og starfaði sem sendiherra í um tvo áratugi.
Sveinn var ríkisstjóri Íslands 1941-1944 og fór með vald konungs samkvæmt ákvörðun Alþingis, þar sem Danmörk var hersetin af Þjóðverjum og samband á milli Íslands og konungs þess var rofið. Alþingi kaus hann fyrsta forseta Íslands að Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944 til eins árs. Hann var sjálfkjörinn án atkvæðagreiðslu frá 1945 og aftur frá 1949 til dauðadags."
Frá árinu 1944 þar til í ár voru hér ENGAR þjóðaratkvæðagreiðslur, ekki einu sinni um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, en frá árinu 1908 til 1944 voru hér sex þjóðaratkvæðagreiðslur.
Þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi
Margrét Þórhildur Danadrottning hefði nú tæpast fengið sendimenn allra annarra Norðurlandaþjóða, Breta, Hollendinga og Bandaríkjanna upp á móti sér, líkt og "kóngurinn" á Bessastöðum hefur gert undanfarið, ef hún væri einnig drottning Íslendinga. En (hirð)fíflinu skal á foraðið etja.
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 15:48
Sæll, Steini minn Briem. Ég er sammála þér um gáfur mínar. Þær hafa aldrei þvælst fyrir mér. En sem betur fer er ég nógu skynsamur til að hafa gaman af skrifum þínum. Þú hefur opnað mér nýjan heim með hjálp netsins og hafði ég sérstaklega gaman af að lesa um þjóðsönginn greinargerðina eftir öðlinginn Birgi Thorlacius. Birgir var ekki vel liðinn af öllum enda á sínum tíma í þeirri aðstöðu að þurfa að gera betur en vel og því fór stundum verr en illa hjá honum að mati þeirra sem þurftu að hafa samskipti við hann. Það er að sjálfsögðu rétt hjá þér að enginn ætti að fara með staðlausa stafi og þaðan af síður eiga menn að saka fólk um lögbrot. En heimskan ríður ekki við einteyming á mínum bæ og þess vegna verður mér oftar en tölu verði á komið um megn að fara eftir stjórnarskránni og bíð nú bara eftir að verða tugthúsaður.
Úr því að þú velur að blanda Þórhildi í okkar mál verð ég að segja þér sannleikann um drottningu Dana. Hún býr í Amalíugötu og um tveggja daga skeið dvaldi ég í næsta húsi við hana. Hvað svo sem segja má um kónga og hirðir get ég ekki talað nema vel um Margréti Þórhildi aðra. Hún reykir að vísu meira en mér þykir hollt en að öðru leyti hef ég ekkert út á hana að setja og er ég sammála þér um að etja skuli okkur á foraðið (fíflunum). Ég myndi fagna því að minnsta kosti í hálfan mánuð að vera í þeim hópi ef ég væri ekki jafnfjandi slæmur í vinstri fætinum og raun ber vitni.
Es. Mig langar til að senda þér sögu Álversflokksins því að þá gætirðu skammað mig rækilega.
Ess. Ef þú vilt fá söguna gefðu mér þá vinsamlegast netfangið þitt.
Esss. Djöfull er ég orðinn kurteis allt í einu.
Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.4.2010 kl. 19:25
Þetta er nú allt í góðu hér, sýnist mér á öllu, Benedikt.
En að sjálfsögðu væri gaman að sjá einhvern sendan í Steininn fyrir að skrifa zetu.
Sendu mér endilega söguna. Netfangið mitt er steinibriem@gmail.com
Með bestu kveðju,
Þorsteinn Briem, 1.4.2010 kl. 20:05
Fín saga, takk fyrir, Benedikt.
"Landvættaskjaldarmerkið var tekið upp með konungsúrskurði 12. febrúar 1919 sem er á þennan veg: "Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir þannig: dreki, gammur, uxi og risi."
Ríkharður Jónsson gerði teikningu af skjaldarmerkinu. Skjaldberar eru hinar fjórar landvættir sem um getur í Heimskringlu Snorra Sturlusonar."
Þorsteinn Briem, 2.4.2010 kl. 14:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.