Molar um málfar og miðla 274

  Laun verkafólks hækkaði mest,sagði í fyrirsögn á mbl.is (18.03.2010). Orðið laun er ekki til eintölu. Svo einfalt er nú það. Þessvegna  hefði fyrirsögnin átt að vera: Laun verkafólks hækkuðu mest. 

 Molaskrifari lætur lesendum eftir að dæma eftirfarandi málsgrein (visir.is 18.03.2010): Þótt aðeins séu um 13 kílómetrar milli Bakkafjöru í Landeyjum og Heimaey hefur hafnleysið á Suðurlandi komið í veg fyrir að þessi stutta vegalengd gæti nýst til og frá lands og eyjar. Því hefur þurft að sigla Herjólfi frá Þorlákshöfn til og frá eyjum en sigling þar á milli tekur um þrjá tíma. Nú grillir í að þessi siglingatími muni styttast verulega. Stefnt er að því að höfnin verði tekin í notkun 1. júlí.
 Þessi málsgrein er um það bil  helmingur fréttarinnar, en  fréttinni fylgja  tvær myndir,sem  fréttaskrifarinn segir, að  TF SIF  , eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar hafi tekið. Það var og. Flugvélin tók myndirnar !

 Mjög fer vaxandi, að talað sé um að fara erlendis. Þetta mátti heyra oftar en einu sinni í  morgunþætti Rásar  tvö (17.03.2010). Í Íslenskri orðabók er  þetta merki l? framan við  þessa merkingu orðtaksins - orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi.  Venjuleg notkun orðsins  erlendis í íslensku er  staðbundin, -  að vera í útlöndum, dveljast erlendis.  Við segjum  hinsvegar að fara utan, að fara til útlanda. Við dveljumst  (ekki: dveljum) erlendis.

 Í útvarpi, annaðhvort Útvarpi Sögu eða Rás tvö, líklega frekar Sögu, ( 17.03.2010) var talað um orðið einelti eins og það  væri tiltölulega  nýtt í íslensku. Orðið einelti og að leggja í  einelti kemur  fyrst  fyrir í íslensku ritmáli árið 1707. Hinsvegar er það nýtt, að  opinská umræða  skuli fara  fram  um það hvernig  berjast skuli gegn  einelti  í skólum og á  vinnustöðum. Sú umræða er af hinu góða. Við eigum að  sameinast um að uppræta einelti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ingi Hrólfsson

Frábært að fá tilsögn - okkar ástkæra mál er á undanhaldi - því miður -

Ég hefði gjarnan viljað fá mat höfundar á umræðuefninu - hækkun launa hjá þeim sem lökust hafa kjörin -

Dæmi - laun 100.000.- hækkun10.000.- = 10%

Dæmi - laun 1.000.000.- hækkun 50.000.- = 5%

Vissulega er 10% hækkun meiri / hærri en 5% - hinsvegar er 50.000.- króna hækkun töluvert hærri en 10.000.- króna hækkun.

Ekki satt?

Ólafur Ingi Hrólfsson, 23.3.2010 kl. 07:32

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Sæll Eiður,

Veistu um uppruna orðsins einelti og hvort það eigi rót að rekja til einhvers sögulegs atviks á átjándu öld?

Guðmundur St Ragnarsson, 23.3.2010 kl. 11:45

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Nei, Guðmundur St.  þetta veit ég því miður  ekki. Í  elstu dæmunum er orðið notað nákvæmlega eins og í dag, - að leggja einhvern  í einelti.

Eiður Svanberg Guðnason, 23.3.2010 kl. 12:36

4 identicon

Sá þetta á visir.is áðan ... "... samkvæmt News of the World virðist vera komið annað hljóð í skrokkinn hjá Cheryl Cole ..." (http://visir.is/article/20100322/LIFID01/535418967)

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband