Molar um málfar og miðla 270

 

 Bjarni Sigtryggsson sendir Molum eftirfarandi undir  fyrirsögninni,

Enn  um útbreidda vanþekkingu á  viðtengingar hætti.

Hvað er athugavert við þessa upphafsmálsgrein RÚV-fréttar í dag, fimmtudag?

"Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, segir augljóst að færa þurfi fjármál Álftaness til betri vegar áður en farið verður að ræða sameiningu við annað sveitarfélag."

Jú, það sem er athugavert er að samkvæmt henni má ætla að ákveðið hafi verið að hefja sameiningarviðræður milli bæjarfélaganna. "...áður en farið verður..." bendir til þess að svo verði. Í viðtengingarhætti myndi standa: "...áður en farið yrði..."

Vanþekking á viðtengingarhætti er svo útbreidd meðal fjölmiðlafólks í dag að það veldur ruglandi fréttaskrifum. Viðtengingarháttur er notaður þegar eitthvað er skilyrt".
Takk fyrir sendinguna, Bjarni. Gott er að eiga góða að.

 Kynnir í Kastljósi RÚV talaði um (13.03.2010) að fara með sigur úr býtum. Hér  er blandað saman tveimur orðatiltækjum,   að bera úr býtum,   að hafa ávinning af einhverju og  að fara með sigur  af hólmi,  vinna eða sigra.

Orðalag í þróttafréttamanna er stundum kostulegt , ekki síst þeirra ,sem  flytja   fréttir  af ökukeppni sem kennd er við  formúlu. Formúlafréttamaður Stöðvar tvö  (13.03.2010) tók svo  til orða: ..og það eru margir  sem komið hafa fram úr skúmaskotum   til að fylgjast með  endurkomu kappans !!!Það var og.

 Í fréttatíma Stöðvar tvö (13.03.2010)var fjallað um fíkniefnasmygl. Þá sagði fréttamaður: ... fundu tollverðir fíkniefni á Jón Þóri. Hér skorti á nafn  mannsins  væri rétt beygt , ...fundu tollverðir fíkniefni á Jóni Þóri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Tíðir hafa einnig lengi vafist fyrir blaðamönnum. Ég heyrði líka fréttina um Jón Þór og giskaði á að maðurinn héti Jónþór.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 14.3.2010 kl. 14:39

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Þar varst þú gleggri en ég. Mér kom ekki til hugar, að  til væri mannsnafnið Jónþór !

Eiður Svanberg Guðnason, 14.3.2010 kl. 16:49

3 identicon

Sumum skýst þótt skýrir séu. Þágufall af „Þór“ er „Þór“! Því ættu tollverðir að hafa fundið fíkniefni á Jóni Þór.

Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 16:38

4 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Að sjálfsögðu, Þorvaldur!

Eiður Svanberg Guðnason, 15.3.2010 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband