28.2.2010 | 13:51
Molar um málfar og miðla 264
Konur leyfðar í kafbátum,segir dv.is (24.02.2010) í fyrirsögn. Sama dag er svohljóðandi fyrirsögn á dv. is: Konur leyfðar í réttarsölum. Sami snillingur hefur sjálfsagt verið að verki í báðum tilvikum. Konur fá að þjóna í kafbátum,segir á mbl.is sama dag. Molaskrifari veit varla hvor fyrirsögnin er verri; báðar eru slæmar. Fyrirsögn mbl.is er aulaþýðing úr ensku ( e. serve). Konur um borð í kafbáta, hefði verið skárra. Ráðlegg þeim , sem samdi þessa fyrirsögn að fletta upp sögninni að þjóna í íslenskri orðabók.
Góða fyrirsagnir gleðja lesandann, segir Bjarni Sigtryggsson og bætir við: "Ókyrrð í lofti vegna deilu um launakjör" segir í glettilega skemmtilegri fyrirsögn um kjaradeilu flugumferðarstjóra í Netmogga í dag (24.02.2010). Undir þetta skal tekið.
Af pressan.is (24.02.2010): Fresturinn sem rannsóknarnefnd Alþingis veitti tólf einstaklingum til að koma á framfæri athugasemdum um afmörkuð efni í skýrslu rannsóknarnefndar lauk klukkan 17:00 í dag. - Menn verða að vita hvaðan lagt var af stað, þegar punkturinn er settur. Fresturinn lauk ekki. Frestinum lauk. Eitthvað tekur enda. Einhverju lýkur.
Á Stöð tvö (27.02.2010) sagðist veðurfréttamaður ætla að byrja á því að líta til veðurs. Auðvitað er ekkert rangt við þetta. Molaskrifari er hinsvegar íhaldssamur með afbrigðum og hefði kunnað því betur , að talað væri um að gá til veðurs. En auðvitað er þetta sparðatíningur. Það skal fúslega viðurennt.
Sérkennilegt nýyrði (?) var í Morgunblaðinu 25.02. Þar var talað um glæsilegan reiðhnakk. Þetta er orð finnur Molaskrifari ekki í tiltækum orðabókum. Reiðhnakkur? Af hverju ekki bara hnakkur ? Hélt sá sem skrifaði, að lesendur blaðsins skildu ekki orðið hnakkur ?
Þegar Stöð tvö sagði frá hundi á brimbretti í fréttum (26.02.2010) var óneitanlega fyndið að heyra fréttamanninn segja um hundinn ... með manninum, sem hann á ! Þetta er svo sem ekki málfræðilega rangt , en orðaröðin gefur ekki rétta mynd af því, sem verið er að reyna að segja. Einfaldast hefði verið að segja, að hundurinn hefði verið með eiganda sínum. Fremur ósennilegt er að hundurinn hafi átt manninn, eða hvað?
Athugasemdir
Þetta með hundinn skildi ég nákvæmlega þannig húmor, að hundurinn væri með manninum sem hann (hundurinn) ætti. En hér er smá ábending handa þér Eiður. Nú er í gangi auglýsingaherferð fyrir náttúrulegum bleium og dömubindum. Þessar vörur eru sagðar úr bómul. Ég hef alltaf litið svo á að bómull, baðmull ef maður vill vera 100% réttur á því sé samstofna orð og t.d. lambsull þ.e. ull af öðrum toga. Reyndar hefur maður stundum heyrt fólk tala um bómull með linu L hljóði en ekki hörðu eins og í gull.
Gísli Sigurðsson, 28.2.2010 kl. 14:56
Takk fyrir þetta, Gísli. Ég hjartanlega sammála þér. Það er ekkert til, sem heitir „bómul", baðmull eða bómull, borið fram eins og góðmálmurinn gull. Mig grunar hinsvegar að það kunni að vera nokkuð algengt í talmáli að segja, að eitthvað sé úr „bómul".
Eiður Svanberg Guðnason, 28.2.2010 kl. 16:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.