12.2.2010 | 21:56
Molar um málfar og miðla 256
Ríkisútvarpið á hrós skilið fyrir umfjöllun um íslenskt mál á fimmtudags- og föstudagsmorgnum í morgunþætti Rásar eitt, Víðu og breiðu. Sömuleiðis ber að hrósa Morgunblaðinu fyrir að birta nú vikulega pistla í Lesbók um íslenska tungu. Þetta er allt af hinu góða.
Svona breytist tungan: „Það verður bara ekki gefist upp", sagði framhaldsskólanemi í fréttum RÚV sjónvarps (08.02.2010). Við , sem eldri erum ,hefðum sennilega sagt: „Við ætlum ekki að gefast upp", eða „ við gefumst ekki upp". Í þessum sama fréttatíma var sagt að hollenski seðlabankastjórinn,„ segðist hafa fengið öndvert mat á stöðu íslensku bankanna". Orðið öndvert er rangt í þessu samhengi. Það sem átt er við er, að seðlabankastjórinn hafi fengið misvísandi upplýsingar um stöðu íslensku bankanna. Vísa annars á Íslenska orðabók um merkingu orðsins öndverður.
Stundum er það þannig hjá RÚV í Efstaleitinu, að það er eins og fólk hlusti ekki á útvarpið. Í átta fréttum (12.02.2010) var augljós málvilla , þegar fréttamaður tók svo til orða : „.... þegar þeir reyndu að koma tóg í skrúfu japansks skips". Þarna átti auðvitað að segja, - reyndu að koma tógi.... Þessi villa var svo endurtekin í aðalfréttatíma í hádeginu. Í þessu tilviki er bara tvennt til. Annaðhvort vita menn ekki hvernig orðið tóg (tó), reipi eða kaðall beygist, - tóg um tóg frá tógi til tógs, eða menn hlusta ekki á eigin fréttir. Veit ekki hvort er verra.
Í sex fréttum RÚV (08.02.2010) var sagt: „ ... og hefur hún ærin verkefni fyrir höndum". Ekki er þetta orðalag Molaskrifara að skapi. Heldur hefði átt að segja , til dæmis, - og á hún ærin verkefnum fyrir höndum , eða og bíða hennar ærin verkefni.
Í viðtali (RÚV 08.02.2010) um kæru vegna utankjörfundaratkvæða í prófkjöri VG í Reykjavík um helgina talaði formaður kjörstjórnar um „hinn póstlega hluta í kosningunum". Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt áður og vonar að hann heyri aldrei aftur.
„470 kannabisplöntur upprættar", segir á mbl. is (08.02.2010). Vel að orði komist. Að uppræta ´þýðir að rífa upp með rótum, útrýma,eyða.
Bjarni Sigtryggsson vakti athygli Molaskrifara á eftirfarandi úr dv. is (07.02.2010) : „Þar segir: „... en í honum voru kveikjuláslyklar bifreiðarinnar." Kveikjuláslyklar! . Í sömu frétt stóð þetta: „Lýst er eftir grárri Subaru Impreza bifreið en hún er mikið tjónuð á vinstra framhorni ." Sem er mikið tjónuð!" Fráleitt er að segja „ tjónuð" um bifreið ,sem orðið hefur skemmdum. Molaskrifari bendir hinsvegar á að kveikjuláslykill er orð sem oft hefur verið notað yfir það sem líka var kallað, „ svisslykill". Nú tala menn hinsvegar bara um bíllykil eða bíllykla. Sem er alveg prýðilegt.
Athugasemdir
Þannig var, að ég var svo lánsamur, að eignast vin á Akureyri, sá hét Gísli og var Jónsson.
Hann gerði mér grein fyrir hve heppinn ég hafi verið, að hafa alist upp við frekar fornt orðaval.
Ég er fæddur um miðja öldina sem leið en móðir mín var 08 model og pabbi 12. Þau fóru rétt með orðskviður og málshætti, sem urðu til í aldagamalli vinnuhefð. Enn frekar á ég ömmu minni margt gott upp að unna. Hún talaði mál, sem var notað í Djúpi Vestur um aldir og hafði varla breyst svo mikið að menn hefðu ekki á hraðbergi, hvað aldnir sögðu.
Dæmi um þetta er orðið morð. Amma mín er sú eina sem gat fengið mig til að hlakka til sætinda í formi Síríus Konsum. Í annann tíma fannst me´r gotterí ekki gott.
Þegar ég heimsótti hana í Þingholtsstrætið, vildi hún gera mér gott og fór að leita að því hvar hún hefði falið súkkulaðið, því hann Kjartan Gunnarsson frændi minn bjó hjá þeim mæðgum Guðrúnu og Karitas ömmu. Þá sagði hún oft eitthvað á þessa leið ,,hvar skyldi ég hafa myrt súkkulaðið" Því er mér afar tamt, að líta á sögnina að myrða, líkt og nú se sagt að fela.
Magnús nefndur ,Góði" íslensku kennari í MR undirstrikaði þetta mjög eftirminnilega þegar við lásum Færeyingasögu. Þeir drápu hann fyrst og myrtu síðan. Það er, földu verknaðinn.
Mikið væri gott, að drenglyndi og hreinlyndi væri í hærri metum nú, líkt og var á okkar fegurstu stundum. Fyrir Íhald eins og mig, er fátt yndislegra, en að grafa mig í drengskaparmálum forfeðra okkar og sjá, að okkar sigrar voru unnir í vísindum og hreinskipti en ekki í víking.
Með ljúfri minnigu Einars Odds vinar míns.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 12.2.2010 kl. 22:27
"Bergþóra Skarphéðinsdóttir, (10. öld - 1011) var kona Njáls Þorgeirssonar á Bergþórshvoli í Landeyjum. Njála segir um hana: "Hún var ... kvenskörungur mikill og drengur góður og nokkuð skaphörð."
Svo miklir vinir sem þeir voru, Njáll og Gunnar á Hlíðarenda, þá ríkti fullkomin óvinátta á milli þeirra Bergþóru og Hallgerðar, konu Gunnars. Um nokkurra ára skeið létu þær drepa þræla og húskarla hvor fyrir annarri og gerðist það jafnan snemma sumars er menn þeirra voru á Alþingi, en þá áttu þær frítt spil heima fyrir."
[Drengur góður - vænn, vandaður maður eða kona. Sjá Íslenska orðabók Menningarsjóðs.]
Bergþóra Skarphéðinsdóttir - Wikipedia
Þorsteinn Briem, 13.2.2010 kl. 07:50
Þakka ykkur þessar góðu athugasemdir, Bjarni og Steini. Molaskrifari var svo lánsamur að njóta íslenskukennslu Guðrúnar P. Helgadóttur í landsprófi og þriðja bekk MR. Það er greypt í huga minn, að hún sagði okkur að þessi orð um Bergþóru, að hún væri drengur góður, væru ein fegursta mannlýsing Íslendingasagna.
Eiður Svanberg Guðnason, 13.2.2010 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.