Molar um málfar og miðla 1883

TEXTI ,LJÓÐ OG ERLEND ORÐSKRÍPI

VH skrifaði (04.02.2106): ,,Sæll Eiður.
Því miður sendi ég þér þennan póst. Því herferð fjölmiðla er á góðri leið með að skemma málið okkar. Eitt af lögum er þátt taka í Söngvakeppninni heitir Kreisí .. en verður ekki neitt íslenskara þó enskt orð sé stafsett uppá íslensku, og er þetta orðið mjög algengt í dag að stafsetja ensk orð á íslensku og halda að það sé í lagi.
Í kilju Egils er oft talað um lag og texta og eru þeir textar oft 50 - 100 ára gömul virðuleg ljóð sem eru þá ljóð, sem samin hafa verið við lög. Það sæmir ekki lagahöfundum og Agli að láta ljóð verða allt í einu að texta. Þannig að rétt væri að rita Ljóð og lag .. einfalt mál það.
Tjarnarleikhúsið frumsýnir í vikunni íslenskt leikrit er kallast Old Bessastaðir .. ég bara spyr var orðið ,,Gömlu,,Bessastaðir upptekið í öðru leikhúsi .. þannig að ekki væri hægt að nota það. Í Tjarnarleikhúsinu.” - Kærar þakkir fyrir þessar ábendingar. Gömlu Bessastaðir hefur sennilega bara þótt hallærislegt, gamaldags og púkalegt.

 

ENN UM SLETTUR

Í framhaldi af ofangeindu mætti spyrja: Er ekki brýnt fyrir þáttastjórnendum í útvarpi og sjónvarpi að vanda mál sitt. Í þætti Gísla Marteins fyrir helgina (05.02.2016) Mátti meðal annars heyra: ,,Aðeins kannski bara smáöppdeit (e. update) á þig Steinunn Ólína”, Los Angeles var auðvitað ellei upp á ensku, og talað var um að minnast þessa móts ekki sem feiljúr (e. failure).

Og svo var talað um ,,týnda Bandaríkjamanninn” Týnda? Maðurinn villtist norður á Siglufjörð, en ætlaði á hótel við Laugaveginn í Reykjavík .Villa í pöntunarstaðfestingu beindi honum á Laugarveg á Siglufirði ekki Laugaveginn í Reykjavík. Hann týndist ekki. Hann villtist. En á ensku hefði mátt segja: He got lost.

Í morgunþætti Ríkisútvarps (08.02.2016) var rætt við sérfræðing um opin vinnurými. Oftar en tölu varð á komið talaði konan um headphones, einu sinni (heyrðist skrifara) var talað um hard core headphones, - hvað svo sem það nú er. Einu sinni var notað hið ágæta orð heyrnartól, – Þetta er ekki heillavænleg þróun.

 

 

 

GAMALT PLAST

Úr matarpistli í Stundinni (04.02.-17.02.2106): ,,Souse vide eldunaraðferðin hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum en aðferðin er meira en 200 ára gömul og hefur lengi verið notuð á veitingastöðum. Hún byggist á því að pakka hráefnum í matarplast og hægelda ...” Hvernig plast skyldi hafa verið notað fyrir 200 árum? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt!

 

UM FYRRI MOLA

Rafn skrifaði (04.02.2016) Í molum nr. 1880 segir svo:FÓLK OG FJÖLGUN

Af mbl.is (01.02.2016) : ,, Fólk sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hef­ur frá ár­inu 2010 farið hægt og ró­lega fjölg­andi sem hlut­fall af öll­um kaup­samn­ing­um sem gerðir eru á höfuðborg­ar­svæðinu.” Enn einu sinni. Þetta hefði átt að orða á annan veg: Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hef­ur frá ár­inu 2010 farið hægt og ró­lega fjölg­andi sem hlut­falli af öll­um kaup­samn­ing­um sem gerðir eru á höfuðborg­ar­svæðinu. Enginn, eða óvandaður yfirlestur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/02/01/fleiri_kaupa_sina_fyrstu_eign/

 

Hér að ofan virðist molahöfundur aðeins líta til fallbeygingar en ekki eðlis máls. Fólk getur aldrei orðið hlutfall af samningum. Hér hefði annað tveggja mátt segja: „ Fólki sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hef­ir frá ár­inu 2010 farið hægt og ró­lega fjölg­andi sem hlut­falli af öll­um kaupendum íbúða á höfuðborg­ar­svæðinu“ ellegar: „ Kaupsamningum fólks sem er að kaupa sínu fyrstu íbúð hef­ir frá ár­inu 2010 farið hægt og ró­lega fjölg­andi sem hlut­falli af öll­um kaup­samn­ing­um gerðum á höfuðborg­ar­svæðinu.“

Molaskrifari þakkar bréfið.

 

VEÐRIÐ DATT

,, Veður er að detta niður” sagði fréttamaður Ríkisútvarps í fréttum klukkan ellefu ( 05.02.2016). Ja, hérna. Veðrið var að skána, vind var að lægja.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 9. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband