Molar um málfar og miðla 1889

ILLA SKRIFUÐ FRÉTT

 Sigurður Sigurðarson sendi Molum línu (15.02.2016): ,,Sæll,

á vefnum visir.is er illa skrifuð frétt, líklega skrifuð af „fréttabarni“ eins og þú nefnir það stundum

  1. Varaður við húsleit hjá sér af lögreglufulltrúa“. Góður fréttastjóri eða prófarkalesari hefði snúið þessari fyrirsögn við og sagt: Lögreglufulltrúi varaði við húsleit.
  2. Í fréttinni segir af lögreglufulltrúa „… sem var endurtekið færður til í starfi …“. Væntanlega var maðurinn oftar en einu sinni færður til í starfi eða álíka.
  3. Einstaklingurinn sem grunaður er um að hafa aðkomu að fíkniefnaheiminum …“. Hver er þessi „aðkoma“? Hvers vegna skrifar fólk á þennan hátt? Og svo er það að kalla manninn „einstakling“ sem sýnir ekki skapandi hugsun blaðamannsins.
  4. … að lögreglan hygðist framkvæma húsleit í húsnæði sem hann hafði aðkomu að ...“ Svona nafnorðastíll er auðvitað glórulaus „rassbaga“. Þarna á að segja að lögreglan ætlaði að leita í húsi … Er „framkvæmd húsleit“ einhvers staðar annars staðar en í húsi? Og svo aftur þessi „aðkoma“ sem hefur ekkert að gera þarna og lýsir engu.
  5. … að spyrja aðila spurninga sem fela í sér mögulegar upplýsingar um brot viðkomandi þá kikka inn ákveðin réttindi fyrir hann.“ Hvað þýðir þetta að „kikka inn“? Ég veit það svo sem en krafan er að snúa þessu á íslensku jafnvel þó þetta hafi verið haft eftir viðmælanda blaðamannsins.

Miklu fleiri villur eru í þessari stuttu grein. Ljóst að enginn les yfir, sem er auðvitað alvarleg ávirðing á ritstjóra og fréttastjóra. 

Oft er það þannig að sá sem hefur ekki hæfileika til að segja frá getur ekki heldur skrifað góða frétt. Hins vegar er frásagnargáfan ekki meðfædd heldur áunnin. Þar með ættu flestir að eygja von.” - Kærar þakkir, Sigurður. Þetta er heldur dapurlegur lestur. Enginn les yfir. Enginn metnaður. – Ég bjó ekki til orðið fréttabarn. En játa, að ég hef stundum notað það!

 

 

MÆTAST FYRIR DÓMARA

Úr frétt á mbl.is (11.02.2016): “Aðilar máls­ins mæt­ast fyr­ir dóm­ara í Wycom­be í Bretlandi þann 12. maí næst­kom­andi.” Betra væri að segja, að málsaðilar komi fyrir rétt, komi fyrir dóm. Þeir mætast ekki fyrir dómara. Sjá: http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/02/11/logsottir_vegna_fotbrots_harrisons_fords/

 

LEIKARASKAPUR

Leikaraskapur gefur sjónvarpsfréttum ekki aukið vægi eða gildi. Á laugardagskvöld (13.10.2016) hafði fréttamaður Ríkissjónvarps háttað sig og skriðið undir sæng í plastkúlu. Svo var myndað. Þetta var kjánagangur. Síðan var rætt við ferðamenn, sem höfðu sofið í slíkri kúlu og notið norðurljósanna. Það var fréttin. Ekki fréttamaður undir sæng.

 

GETTU BETUR

Hvernig væri að breyta umgjörð spurningaþáttarins Gettu betur? Svona þættir geta verið skemmtilegir, en þessi er búinn að ganga sér til húðar. Svo er eins og Landsbanki Íslands sé hálfvegis búinn að kaupa þáttinn. Útsvarið er endingarbetra og þar hefur ýmsu verið breytt í áranna rás. Svarið Staupasteinn við spurningu í síðasta þætti Gettu betur þótti Molaskrifara orka tvímælis. Þegar skrifari var vegavinnubílstjóri m.a. í Hvalfirðinum sumarið 1958 ók hann stundum fram hjá steininum með Jónas Magnússon óðalsbónda í Stardal og vegaverkstjóra. Jónas leiðrétti Reykjavíkurstrákinn,sem hafði lært nafnið Staupasteinn. Jónas sagði það heiti seinni tíma vitleysu. Steinninn héti Karlinn í Skeiðhól. Seinna var vegurinn fluttur niður fyrir Skeiðhól, nær sjónum, og nú ber færri gesti að garði hjá Karlinum í Skeiðhól.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Bloggfærslur 17. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband