Molar um málfar og miðla 1875

VERÐFELLING HUGTAKA

Þorvaldur skrifaði (27.01.2016): ,, Sæll Eiður. Hlustaði á íþróttaþáttinn eftir fréttir ríkisútvarpsins á meðan ég beið eftir veðrinu. Þar sagðist fréttamanni svo frá, að Danir og Þjóðverjar hefðu leikið algjöran úrslitaleik um sæti í undanúrslitum. Dálítil verðfelling á hugtakinu úrslit, ekki satt?” Jú, rétt er það, Þorvaldur. Þakka ábendinguna.

GRAUTUR - RED - TALENT

Auglýsendur ganga sumir hverjir nokkuð langt í að spilla tungunni. Mjög algengt er orðið að sjá hrært sama íslensku og ensku í sömu auglýsingunni. Vodafone auglýsir þjónustuleið, eða áskrift, sem fyrirtækið kallar Red frelsi. Hversvegna ekki Rautt frelsi?

Ráðningarfyrirtæki ,sem kallar sig Talent upp á ensku ,(enska orðið talent þýðir hæfileikar) birtir grautarauglýsingu í Fréttablaðinu á þriðjudag (26.01.2016). Hún hljóðar svona: Ertu að leita að talent?

Svo má auðvitað minna á þætti Stöðvar sem heita eða hétu: Ísland Got Talent. Svona grautur er vísvitandi skemmdarverk á móðurmálinu.

 

RÚV -, HVAÐ ?

,,Nýlega greindi RÚV frá því ..”, sagði einn af fréttamönum Ríkisútvarpsins í Speglinum nýlega ( 26.01.2016). Hvaða RÚV? Það er alveg óljóst hvenær þessi skammstöfun er notuð um Ríkisútvarpið allt, sjónvarpið eingöngu eða aðeins um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Vill ekki útvarpsstjóri koma þessu á hreint? Skýra hvað skammstöfunin merkir? Er það svo að enn sé bannað í Efstaleiti að kalla stofnunina sínu rétta og lögbundna nafni?

 

FERSKARA EN FERSKT

Stórfyrirtækið Findus auglýsir frosið grænmeti í sjónvarpi (Ríkissjónvarpið 26.01.2016). Í auglýsingunni er okkur sagt, að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt. Þetta er augljóslega röng, ósönn, fullyrðing. Frosið grænmeti getur aldrei verið ferskara en ferskt ófrosið grænmeti. Hversvegna láta rétt yfirvöld og Neytendasamtökin það viðgangast, að neytendum sé sagt ósatt?

Þetta hefur verið nefnt áður í Molum.

 

NEW YORK – NEW YORK
Skemmtilegur pistill Magnúsar Halldórssonar blaðamanns frá New York um New York í morgunþætti Rásar tvö á miðvikudag (27.01.2016).

 

VÖRUBÍLL VALT

Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (26.01.2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/26/slasadist_thegar_vorubill_valt/

Í myndatexta með fréttinni segir að vörubíll hafi oltið í Mosfellsbæ, en í fréttinni segir að bíllinn hafi oltið í Reykjavík. Þarna vantar eitthvað upp á samvinnu og samræmi. Þakka ábendinguna, Rafn.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 28. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband