Molar um málfar og miðla 1869

 

KJÓSA – GREIÐA ATKVÆÐI

Nokkrum sinnum hefur verið vikið að því í Molum hvernig í vaxandi mæli því er ruglað saman því að greiða atkvæði og að kjósa. Í frétt í Morgunblaðinu (18.01.2016) er vitnað í ritara Sjálfstæðisflokksins: ,, Sagði hún málið í dag vera út­rætt og að best væri ef Alþingi myndi taka fyr­ir áfeng­is­frum­varpið og kjósa um það.” Á Alþingi er ekki kosið um lagafrumvörp. Þar eru greidd atkvæði um laga frumvörp en kosið í ráð og nefndir.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/18/ekki_spurning_um_frelsi_eda_rikisrekstur/

 

NESKAUPSTAÐUR

Jóhannes benti (19.01.2016) á frétt á mbl.is: Hann segir: Fyrsta frétt á mbl.is:http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/19/laekkar_tekjur_120_manns_a_neskaupsstad/

Ótrúlegt að Kaupstaðurinn á Nesinu skuli alltaf vera skrifaður með tveimur essum.” Þakka Jóhannesi ábendinguna. Neskaupstaður á þetta að vera. Þar að auki má nefna að snemma í blaðamennskunni var Molaskrifara kennt að segja í Neskaupstað, ekki á Neskaupstað. Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.

 

ÞEIR SKULLU UPP ÚR!

 Af visir.is (19.01.2016): ,, Umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni áttu í vandræðum með að hemja hláturinn í morgun þegar þeir voru að skoða uppskrift stjörnukokksins og skaphundsins Gordon Ramsey að ommelettu.
Þeir Heimir Karls og Gulli Helga skullu ítrekað upp úr þegar þeir renndu yfir aðferðina. “ Það var og. Upp úr hverju skullu þeir? Skelltu þeir ekki upp úr? Fóru að hlæja?

http://www.visir.is/i-hlaturskasti-vegna-ommelettuuppskriftar-gordon-ramsey/article/2015150119333

 

 

,,RÚV OKKAR ALLRA”, - EÐA HVAÐ ?

Það dynur á okkur í auglýsingum, að Ríkisútvarpið sé okkar allra. ,,RÚV okkar allra”, segja þeir.

Í gærkvöldi (19.01.2016) hófst íþróttaútsending klukkan rúmlega fimm með boltaleik þar sem Ísland kom ekkert við sögu. Þar áttust við Noregur og Hvítarússland. Ríkissjónvarpið sýndi allan leikinn í beinni útsendingu. Norska ríkissjónvarpið, NRK1, NRK2,NRK3 sá enga ástæðu til að sýna þennan leik. Enda stjórna íþróttadeildirnar þeim ríkisreknu sjónvarpsstöðvum ekki. Eftir boltafjas tók við niðurskorinn fréttatími með enn niðurskornari veðurfréttum ( Við verðum víst að hleypa fréttunum að, sagði umsjónarmaður svokallaðri EM-stofu efnislega). Klukkan 19 20 hófst boltaleikur að nýju. Nú kom Ísland við sögu. Gott og vel En hversvegna í ósköpunum fékk ekki dagskráin að halda sér fram þeim leik? Þessu lauk svo undir hálftíu með harmagráti.

Nú er fyrirsjáanlegt langt inn í framtíðina, að Ríkissjónvarpið verður undirlagt af boltaleikjum og evróvisjónpoppi í öllum mögulegum og ómögulegum myndum. Já, þetta er örugglega ,,RÚV okkar allra” eins og þeir segja í auglýsingunni eða hvað? Það er búið að hálfæra þjóðina. Boltaleikir og popptónlist með verksmiðjukeim eru í öndvegi í þessu ,,sjónvarpi allra landsmanna”. Stjórnendur Ríkisútvarpsins bera ábyrgð á því.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 20. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband