19.1.2016 | 10:22
Molar um málfar og miðla 1868
UM HÁLSBINDI
Það var ekki mikið að gerast í þjóðlífinu á mánudagsmorgni (16.01.2016) þegar löng umræða fór fram í morgunþætti Rásar tvö um hálsbindi, sem maður hafi sést með í sjónvarpi daginn áður. Svokallaður sérfræðingur var kallaður til. Málið rætt í þaula. Kannski fannst einhverjum þetta skemmtileg umræða. Seinna kom í ljós að bindið hafði verið sótt vestur til Ameríku og kostað tvö eða þrjú þúsund dollara. Kannski var þetta allt grín.
Maðurinn með hálsbindið náði tilgangi sínum. Vakti athygli á sér og hálstauinu.
ENGINN YFIRLESTUR?
Af dv.is (18.01.2016): ,,Hópuppsagnir blasa við ef skólastjórinn snýr aftur - Segja að engin laus sé í sjónmáli vegna ágreinings - Bekkjafulltrúaráð lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Engin lausn í sjónmáli hefði þetta auðvitað átt að vera.
Og, - í sama miðli sama dag: ,, Tveir sextán ára unglingar léstur í snjóflóðinu auk skíðamanns sem var nærri. Létust í snjóflóðinu átti þetta að vera.
Ekki mikill metnaður til að vanda sig, - gera vel.
AÐ FARAST ÚR HUNGURSNEYÐ
Rósa S. Jónsdóttir skrifaði Molum (18.01.2016). Hún vísar í frétt á mbl.is þann sama dag og segir: ,,Að farast úr hungursneyð er ekki alveg í samræmi við mína málvitund.. Þetta er heldur ekki í samræmi við málkennd Molaskrifara. Þakka ábendinguna.
Í fréttinni segir: ,, Fimm manns hafa farist úr hungursneyð undanfarna viku í bænum Madaya í Sýrlandi þrátt fyrir að tvær neyðarsendingar með mat hafi komið með bílalestum til bæjarins. Fólkið dó úr hungri svalt í hel.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/18/fimm_forust_ur_hungursneyd/
CARLSBERG Í KASTLJÓSI
Löng bjórauglýsing, Carlsberg, var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (18.01.2016). Hvaða erindi átti þetta einstaklega lítið merkilega viðtal við þrjá karla í þátt, sem kallaður er ,,beittur fréttaskýringaþáttur? Erfitt að sjá það. Skrifari sá það ekki.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)