Molar um málfar og miðla 1790

UM FRAMBURÐ

Í útvarpsþætti skömmu eftir hádegið á mánudag (07.09.2015) var rætt við unga konu sem sagði: - sesett, einu sinni, ef ekki tvisvar. Það rann svo upp fyrir Molaskrifara að hún var að reyna að segja sem sagt. Og það sem hún var kynna eða segja frá var mjög skettlett , hún átti við að það væri mjög skemmtilegt.  Þessi framburður er að verða nokkuð algengur. – Hefur reyndar verið nefnt áður í Molum.

 

AÐ ,,MÚLTITASKA”

Molaskrifari hrökk svolítið við er hann sá þessa slettu í fyrirsögn á leiðarasíðu Fréttablaðsins (07.09.2015). Við getum múltitaskað var fyrirsögn greinarinnar. Greinin endaði á orðunum: ,,Og við getum multitaskað”. Greinina skrifar framkvæmdastjóri líknarsamtaka. Hún er um aðstoð við flóttamenn. Hef ævinlega heyrt þann ágæta mann tala og ritað vandað mál.  Þess vegna hrökk ég kannski meira við. Átt er við að við getum gert fleira en eitt  samtímis. Slettan er ættuð frá stjórnsíðum snjallsíma og  spjaldtölva e. multitasking. Allsendis  óþörf sletta eins og vakin hefur verið athygli á í netheimum.

Minnir svolítið á söguna um Bandaríkjaforseta á öldinni sem leið, sem sagt var, að gæti ekki gengið og tuggið tyggigúmmí samtímis. Á slettumáli héti það líklega að hann gæti ekki multitaskað.

 

ÓLÍKT HÖFUMST VIÐ AÐ ....

Fréttamaður Stöðvar tvö er Í Búdapest og segir okkur fréttir af vandamálum flóttamanna, flóttamannastraumnum, - umfangsmesta og erfiðasta vanda sem komið hefur upp í álfunni mörg ár. Ríkissjónvarpið sendir fréttamenn út um allar trissur í útlöndum til að segja okkur hvað við sjáum á skjánum, þegar verið er að sýna boltaleiki.

 

HUNGUR OG ÞORSTI

Í Ríkissjónvarpinu (07.09.2015) var okkur sagt frá flóttamanni , þrettán ára dreng sem hafði misst meðvitund  vegna skorts á mat og vatni. Ekkert rangt við þetta orðalag, en Molaskrifari hefði fremur sagt, að drengurinn hefðu misst meðvitund vegna hungurs og þorsta.

 

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 9. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband