29.9.2015 | 09:27
Molar um málfar og miðla 1804
FLJÓTANDI VATN
Rafn skrifaði (28.092015) vegna fyrirsagnar á mbl.is:,, Þessi frétt er nú á net-Mogga. Ég á því að venjast, að talað sé um rennandi vatn en ekki fljótandi:
Vísbendingar um fljótandi vatn
Vísindamenn NASA hafa fundið vísbendingar um að vatn fljóti niður hlíðar gljúfra og gíga á yfirborði Mars yfir sumarmánuðina þar. Þeir segja að uppgötvunin auki möguleikana á því að reikistjarnan gæti hýst einhverja tegund af lífi. Þakka ábendinguna, Rafn. Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 18 00 talaði Vera Illugadóttir réttilega um rennandi vatn. Í fréttum Stöðvar tvö var hinsvegar þrívegis talað um fljótandi vatn.
http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/28/visbendingar_um_fljotandi_vatn/
Í Morgunblaðinu í dag (29.09.2015) er í forsíðufyrirsögn talað um ,,Vísbendingar um vatn í fljótandi formi á Mars. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/28/visbendingar_um_fljotandi_vatn/
ÓFAGLEGT
Í frétt í Fréttablaðinu , bls2. á föstudaginn var (25.09.2015) segir: ,, Félagsstarf hælisleitenda fer fram undir dyggri stjórn Julie Ingham verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum í Garðabæ og Hafnarfirði,, Molaskrifari efast ekki um að þessu starfi sé vel stjórnað. Mat þess sem fréttina skrifar á hinsvegar ekkert erindi í fréttina. Svo er þar að auki svolítið ankannalegt að tala um dygga stjórn. Eðlilegra er að tala um góða stjórn, trausta stjórn.
FALLAFÆLNI
Aftur og aftur heyrist fallafælni í fréttum. Í yfirliti hádegisfrétta í Ríkisútvarpinu í lok fréttatímans (25.09.2015) var sagt: ,,Náttúrufræðistofnun Íslands segir að tunglsteinn, sem var til sýningar hjá Könnunarsafninu á Húsavík, hafi ekki verið nógu vel gætt. Þetta hefði átt að vera ;, ... að tunglsteins,sem var .., hafi ekki verið nógu vel gætt.- Þetta hefði þurft að lesa yfir áður en það var lesið fyrir okkur.
MISGÓÐIR VEFIR
Þeir vefir sem Molaskrifari notar mest á netinu eru misjafnlega notendavænir. Vefur Morgunblaðsins er til sérstakrar fyrirmyndar, bæði hvað varðar aðgengi að fréttum, innsendingu greina eða tilkynninga. Hrós fyrir það. Vef Ríkisútvarpsins var bylt fyrir skömmu. Margt er þar örugglega til bóta, en Molaskrifari er enn ekki orðinn hagvanur á vefnum eftir breytingarnar. Það líður til dæmis oft nokkuð langur tími, - til dæmis frá því að fréttir eru lesnar og þar til þær eru aðgengilegar í Sarpinum.
ENN OG AFTUR
Af mbl.is (25.09.2015): ,,Rannsakendur hefur ekki tekist að staðfesta að bein sem fundust í gröf í Flórens hafi tilheyrt líkamsleifum konunnar sem er talin hafa verið fyrirmynd meistaraverksins Monu Lisu. Í vaxandi mæli sér maður villur af þessu tagi í fréttum netmiðla. Hér ætti að standa: ,, Rannsakendum hefur ekki tekist ....... Hvað veldur. Vankunnátta? Hroðvirkni?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)