Molar um málfar og miðla 1798

 

HROÐVIRKNI

Molavin skrifaði (18.09.2015): "Maðurinn, Hannibal Sigurvinsson, var gert að sök að hafa veist að ofbeldi að manni er sá sat í bifreið sinni..." Svo segir í frétt Vísis 18. sept. Ég trúi því ekki að blaðamaðurinn kunni ekki að skrifa rétt venjulegt mál - en í þessu eina broti einnar málsgreinar fréttarinnar er svo mikið klúður að maður hlýtur að skrifa ábyrgðina á hroðvirkni. Það er lágmarkskrafa að blaðamenn lesi sinn eigin texta yfir áður en hann er sendur út á Netið.- Satt segirðu, Molavin. Þakka bréfið.

 

ALLT ER STAÐSETT

Af mbl.is (16.09.2015): ,,Kerst­in er nú staðsett á Íslandi, en hún bjó í sjö ár hér á landi og lærði meðal ann­ars í Land­búnaðar­há­skól­an­um á Hvann­eyri fyr­ir um 10 árum”. Konan er á Íslandi. Þetta linnulausa staðsetningartal er í því miður í sókn, - næstum sama hvar borið er niður í fjölmiðlum..

 

VIÐ HÖFN

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á miðvikudagskvöld (16.09.2015) var okkur sagt að skip væri við höfn. Þetta hefur heyrst og sést áður. Skip eru í höfn. Skip eru við bryggjur. Liggja við bryggjur Þetta er ekki flókið. Þetta er fast í málinu. Skip eru ekki við höfn. Málfarsráðunautur mætti nefna þetta við fréttamenn.

 

EKKI BATNAR ÞAÐ

Af mbl.is (17.09.2015): ,,Ein millj­ón íbúa Chile hef­ur verið gert að yf­ir­gefa heim­ili sín vegna flóðbylgju­viðvör­un­ar í kjöl­far jarðskjálfta sem mæld­ist 8,3 stig.”. Einni milljón íbúa Chile hefur verið gert..... Þetta er einfalt. En auðvitað er ekkert af þessu tagi einfalt, ef sá sem skrifar kann ekki meginreglur málsins. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/17/vidtaek_ryming_vegna_skjalftans/

 

NÝTT STARFSHEITI?

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.09.2015)var talað um aðstoðarsendiherra Ísraels í Noregi. Þetta starfsheiti hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Það hefur aldrei, svo hann viti, verið notað í íslensku utanríkisþjónustunni og hann minnist þess ekki að hafa heyrt það á ensku. . Þarna hefur væntanlega verið átt við varamann sendiherra, staðgengil sendiherra. Sendiherra Ísraels í Noregi er jafnframt sendiherra Ísraels á Íslandi. Seinna kom fram í fréttum að sendiherrann var staddur í Jerúsalem. --- Í sama fréttatíma var talað um að taka einhverju trúanlega. Molaskrifari er vanari því að heyra talað um að taka eitthvað trúanlegt. Trúa einhverju.

 

 

OFNOTAÐASTA ORÐTAKIÐ

Ofnotaðasta orðtak, sem fyrir kemur í fréttum er sennilega að vinna hörðum höndum. Það er gott og gilt og gegnsætt. En það fer illa á að nota það um alla skapaða hluti hvort sem verið er að grafa göng, gera veg, byggja hús eða teikna hús. Allt er unnið hörðum höndum.

Rifjaðist upp við að heyra tönnlast á þessu dag eftir dag að Molaskrifari man ekki betur en fyrir daga sjónvarps og Skaups hafi fréttamennirnir Stefán Jónsson og Thorolf Smith í útvarpsþætti á gamlárskvöld gert endalaust grín að orðinu lyftistöng, sem þá virðist hafa verið tískuorð. Nýtt frystihús var lyftistöng, nýtt fiskiskip var lyftistöng. Svo kom held ég í ljós að lyftistöngin var bara brennivínsflaska,sem lyfti mönnum svolítið upp. Kannski er þetta misminni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 21. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband