Molar um málfar og miðla 1797

ENN UM STOKKINN

Molavin skrifaði í gærkvöldi (18.09.2015): ,,Í sjónvarpsfréttum í kvöld, 18. sept. var sagt að Arnar Jónsson leikari muni ,,stíga á stokk" hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrsta sinn í langan tíma. Hér er bull á ferðinni. Hann mun stíga á svið, eða eins og oft er sagt, stíga á fjalirnar. En meðan fréttastjóri lætur bullið viðgangast er ekki von að óreyndir fréttamenn læri.” Þakka bréfið. Í sjónvarpsfréttunum var þetta ekki sagt einu sinni, heldur tvisvar! Oft hefur verið að þessu vikið hér í Molum. Menn stíga á stokk og strengja heit. Sannarlega er hér verk að vinna fyrir málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins.

 

RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Þórhallur Jósepsson skrifaði (16.09.2015)): ,,Sæll Eður.
Stundum getur maður ekki annað en skrifað svolítinn vandlætingartexta þegar maður rekst á eitthvað sem maður ekki aðeins hnýtur um, heldur dettur kylliflatur!
Eitt sinn, kannski enn, voru nemendur á lokametrunum í grunnskólanámi prófaðir í því sem kallaðist lesskilningur. Ég hallast raunar að því það sé rangnefni, ætti frekar að vera málskilningur. Mætti leggja meiri áherslu á þann skilning. Svo sýnist mér að minnsta kosti við lestur blaða, veffrétta og hlustun á útvarp, einkum þegar blaða- og fréttamenn freistast til að nota orðatiltæki sem þeir greinilega skilja ekki og hafa enga hugmynd um hvernig eru mynduð. Þetta á reyndar ekki bara við „fréttabörnin“ heldur líka fréttamenn sem maður gæti haldið að séu eldri en tvævetur og vel mæltir á móðurmálið.
Hér eru tvö dæmi (ég tek fram að þótt þau séu bæði úr DV þýðir það aldeilis ekki að DV sé að einhverju leyti verra að þessu leyti en aðrir miðlar). Á vefnum dv.is var frásögn skreytt vídeoupptöku um stökkvandi hval og kajakræðara, þar segir: „Það fer ekki mikið fyrir því að íhuga hvort að kajakræðarnir væru heilu á höldnu.“ Þarna held ég gamli kennarinn mundi strika með rauðu á tveimur stöðum, „að“ er ofaukið á eftir hvort, „heilu og höldnu“ er ranglega notað, í fyrsta lagi skrifað „heilu á höldnu“ en einnig notað ranglega sem lýsingarorð. Greinilega þekkir blaðamaðurinn ekki þetta orðatiltæki né skilur hvernig það skuli notað. Menn geta ekki verið „heilu á höldnu“ en þeir geta komist t.d. í land „heilu og höldnu.“
Annað dæmi er tekið úr leiðara DV 15. Sept., þar segir: „Leiða má líkum að því að hátt í þúsund manns ....“ Þetta er afar algeng villa, einnig hjá t.d. margreyndum fréttamönnum Ríkisútvarpsins með áralanga reynslu að baki. Orðasambandið „að leiða líkur að“ einhverju verður ótrúlega oft „að leiða líkum að“ einhverju. Þarna er líklega um að kenna hugsunarleysi og áhrifum af t.d. „leiða má af líkum“ eða „af líkum má ráða.“ En maður leiðir ekki líkum, frekar en maður leiði börnum yfir götu eða hestum inn í gerði.
Gott væri nú að fjölmiðlamenn tækju sig til og ræktuðu málskilning sinn, góð og öflug aðferð til þess er að lesa bækur á góðu máli, t.d. Laxness, Gunnar Gunnarsson, Tómas, Sverrir Kristjánsson, Íslendingasögurnar og Biblíuna. Kveðjur, Þórhallur Jósepsson.”

Kærar þakkir, Þórhallur. Tek undir heilræði þitt. Góður texti er góður kennari. Matthías Morgunblaðsritstjóri sagði mér einu sinni, að hann hefði sagt við blaðamann, sem ekki var sterkur á svelli íslenskunnar: ,,Lestu Íslendingasögurnar”. Þegar ég fékkst við fréttamennsku reyndi ég, - um skeið að minnsta kosti, að lesa einhverja af Íslendingasögunum á hverju ári. Gott ef það var ekki fyrir hvatningu frá séra Emil Björnssyni fréttastjóra sem gerði strangar kröfur til okkar á fréttastofunni um vandað málfar.

 

STÓR AUGU

Molalesandi skrifaði (18.09.2015): ,,Veg­far­end­ur við Skóla­vörðustíg í Reykja­vík renndu upp stór augu í gær­kvöldi.”
Ekkert lát er á ambögum á mbl.is. – Rétt er að geta þess að þetta var leiðrétt síðar.

www.mbl.is/frettir/.../er_thetta_islandsmet_i_sodaskap/

3 hours ago - Vegfarendur við Skólavörðustíg í Reykjavík renndu upp stór augu í gærkvöldi. Við fyrstu sýn virtist komið nýtt listaverk í götuna.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 19. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband