Molar um málfar og miðla 1795

VIÐ AKKERI Á SNÆFELLSNESI

Skip Greenpeace liggur nú fyrir akkerum á Snæfellsnesi, var sagt í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi á mánudag (14.09.2015). Grænfriðungar munu hingað komnir til að freista þess að trufla hvalveiðar skipa Hvals h.f. Ef skipið liggur við akkeri á Snæfellsnesi, eins og sagt var í fréttayfirlitinu truflar það varla hvalveiðar. Molaskrifari er vanari því að tala um að skip liggi við akkeri fremur en að skip liggi fyrir akkerum, þótt þannig sé vissulega einnig tekið til orða.  Seinna í fréttinni kom fram, að skip Grænfriðunga er utan við Arnarstapa sem sannarlega er á Snæfellsnesi.

Í sama fréttatíma talaði fréttamaður um fullkomið skilningarleysi! Ja, hérna Átt var við algjört skilningsleysi.

 

Í BAK OG FYRIR

Fætur okkar eru bundnir í bak og fyrir, var haft eftir talsmanni lögreglumanna á visir. is (14.09.2015) í frétt um kjarabaráttu lögreglumanna. Í bak og fyrir þýðir að framan og að aftan. Molaskrifari viðurkennir að hann á svolítið erfitt með að sjá nokkurn mann fyrir sér með fætur bundna í bak og fyrir, eins og  þarna er sagt. http://www.visir.is/-faetur-okkar-eru-bundnir-i-bak-og-fyrir-/article/2015150919442

 

STAÐSETNING

Af mbl.is (14.09.2015): ,,Eru þeir sem hafa orðið var­ir við um­rædd skemmd­ar­verk á bif­reiðum sem staðsett­ar voru við Bola­fót nr. 11 og 15 í Njarðvík fyr­ir og um helg­ina að hafa sam­band í síma 4442200.” Þetta er ef til vill tekið hrátt upp úr dagbók lögreglunnar. Bílarnir voru ekki staðsettir, - þeir voru við Bolafót nr. 11 og nr. 15 í Njarðvík.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/14/sex_bilar_skemmdir/

 

 

RUGLIÐ UM RÚV

Það var engu  líkara í tíð fyrrverandi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, en starfsmönnum væri harðbannað að taka sér í munn eða nota hið lögbundna heiti stofnunarinnar. Þess í stað var sífellt talað um RÚV þetta eða RÚV hitt. Ýmist var þetta borið fram /rúv/ eða /rúff/. Nú ríkir algjör ruglingur um hvað þetta RÚV er. Stundum er það notað um sjónvarpið eingöngu, þar segja menn gjarnan ,,Hér á RÚV”. “ Eins og RÚV sagði frá hér í morgun “ var sagt á Rás eitt að morgni þriðjudags (15.09.2015). Hvaða RÚV var það? Svo er talað um Rás eitt og Rás tvö, sem eru þá ekki RÚV, eða hvað?  Hvernig væri að hætta þessu rugli og fara að kalla þessa stofnun, sem þjóðin á, sínu rétta nafni?

 

SMELLIN FYRIRSÖGN

Sjampó-innflytjendur í hár saman, er smellin fyrirsögn á dv.is (14.09.2015):

http://www.dv.is/frettir/2015/9/14/sjampo-innflytjendur-i-har-saman-facebook/

Fréttin er um verðstríð á hárþvottaefnis- og snyrtivörumarkaði hérlendis.

 

HRÓS

Þeir Ingólfur Bjarni Sigfússon og Ragnar Santos eiga sérstakar þakkir skildar fyrir fréttir  af flóttafólki í  Evrópu í Ríkisútvarpinu, - útvarpi og sjónvarpi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 16. september 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband