1.9.2015 | 09:25
Molar um málfar og miðla 1784
AÐ HALDA ÁVARP
Í frétt Ríkisútvarps (29.08.2015) um afmæli Hins íslenska biblíufélags var sagt, að forseti Íslands og biskup hefðu haldið ávörp. Málvenja er að tala um að flytja ávarp en halda ræðu. Þannig er það í huga Molaskrifara að minnsta kosti.
Að OLLA
Í fréttatíma Stöðvar tvö (29.08.2015) var sagt frá aurflóðum á Siglufirði. Fréttamaður sagi: ,- þá ullu aurskriður miklu tjóni. Aurskriður ollu miklu tjóni. Sögnin að valda vefst ærið oft fyrir fréttaskrifurum. Í sama fréttatíma sama miðils sagði fréttamaður,.... en góð vinátta tókst á með honum og .... hér var á-inu heldur betur ofaukið. Góð vinátta tókst með honum og .. þeir urðu góðir vinir.
--
BREYTT ÚTLIT
Útliti Fréttablaðsins hefur verið breytt. Sjálfsagt sýnist sitt hverjum um breytingarnar. Molaskrifara finnst yfirbragð blaðsins heldur dauflegra en áður var. Fannst raunar ekkert að útliti blaðsins fyrir breytingarnar. Öðrum finnst þetta kannski breyting til batnaðar. Innihaldið skiptir þó auðvitað meira máli en útlitið.
AUGLÝSINGAR Í TEXTA
Fréttatíminn er það blað þar sem Molaskrifara finnst erfiðast að greina milli ritstjórnarefnis og seldra auglýsingagreina. Þess vegna er blaðinu fljótflett.
ÚFF...
Arnar Kári sendi eftirfarandi með þessari fyrirsögn. ,, Sæll Eiður, ákvað að senda þér frétt af Vísi sem birtist klukkan 9 í morgun (30.8) og stóð greinilega óbreytt klukkan 12.30.
Hvernig getur fréttamiðill ætlast til að vera tekinn alvarlega þegar svona texti fær að lifa allan daginn?
Þetta er fréttin í heild, afrituð og límd:
Stefán Árni Pálsson skrifar:
West Ham vann ótrúlegan sigur á Liverpool, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær en leikurinn fór fram á Anfield, heimavelli Liverpool.
Einn aðdáandi West Ham hafði lofað því að hann skildi fá sér húðflúr á höndina tengt sigrinum ef liðið myndi vinna á Anfield en það hafði ekki gert í 52 ára í gær.
Aðeins tveimur tímum eftir sigurinn West Ham í gær tístaði Jon High mynd af húðflúrinu sem hann hafði fengið sér. Daginn áður hafði hann einmitt lofað því á Twitter. - Þakka bréfið. En ýmislegt hefur nú reyndar sést svartara en þetta!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)