Molar um málfar og miðla 1783

 

SKYNSAMAR TILLÖGUR

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (27.08.2015) var talað um skynsamar tillögur. Molaskrifara var kennt á sínum tíma að tillögur eða breytingar gætu ekki verið skynsamar. Þær gætu verið skynsamlegar. En þetta orðalag heyrist æ oftar. Sama morgun talaði umsjónarmaður þáttarins um að farið yrði yfir það sem hefði toppað allar fréttir vikunnar. Það er líklega sérviska Molaskrifara, að kunna  ekki að meta þetta orðalag.

 

BOLTALEIKUROG STEFNURÆÐA

 Frá því var greint í morgun (31.08.2015) að vegna boltaleiks í útlöndum , þar sem Íslendingar koma við sögu, verði hefðbundnum tíma á flutningi stefnuræðu forsætisráðherra breytt. Hún verði flutt að kvöldi þingsetningardags, ekki kvöldið eftir eins og venja hefur verið. Að sögn er þetta gert að ósk Ríkisútvarpsins. Íþróttadeildin stjórnar þá ekki aðeins dagskrá Ríkisútvarpsins, heldur einnig störfum SDG og Alþingis. Eða hvað? Gæti ekki verið að óskin um breytinguna hafi komið frá sjálfum SDG,forsætisráðherranum, sem óttast samkeppni um áhorf, þegar boltaleikur er annarsvegar? Það skyldi þó aldrei vera

 

HURÐ – HURÐIR

Les enginn yfir það sem skrifað er á svokallað Smartland mbl.is?

Þar var skrifað (25.08.2015): Húsið var end­ur­nýjað fyr­ir fá­ein­um árum og var þá skipt um gól­f­efni, inni­h­urðar og baðher­bergi. Innihurðar hvað? Það var skipt um innihurðir. Hurðar er eignarfall eintölu af orðinu hurð. Fleirtalan er hurðir. Svo var sagt að húsráðendur hefðu greinilega mikla rýmisgreind. Greind er sjálfsagt af ýmsu tagi og stundum ekki mjög rúmfrek.

 

LEGGUR OG STRÍPAÐAR BÆTUR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (27.08.2015) var sagt um flugfarþega, sem höfðu þurft að þola mikla seinkun á flugi: , ... áður en lokaleggur ferðarinnar hófst”. Auðrekjanlegt til áhrifa frá ensku.

 Í sama fréttatíma, eða í fréttaskýringu, var fjallað um bætur til ellilífeyrisþega. Þar var að minnsta kosti fjórum sinnum talað um strípaðar bætur. Ekki er Molaskrifari viss um að allir eldri borgarar hafi skilið þetta orðalag. Átt var við grunnbætur án viðbótargreiðslna. Fréttir Ríkisútvarps eiga að vera á vönduðu máli og öllum skiljanlegar.

 

FINDUS OG SANNLEIKURINN

Findus stórfyrirtækið heldur áfram að segja okkur ósatt. Heldur því  fram í sjónvarpsauglýsingum að hraðfryst grænmeti sé ferskara en ferskt (27.08.2015). Það stenst ekki skoðun. Við erum víst talin svo vitlaus, að það sé allt í lagi að segja okkur ósatt. Fyrir tveimur árum varð þetta sama fyrirtæki, Findus ,að biðjast opinberlega afsökunar á því að selja fólki hrossakjöt og kalla það nautakjöt. Sjá t.d. https://en.wikipedia.org/wiki/Findus

Á fyrirtækið ekki að biðjast afsökunar á því að segja okkur að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt?

 (,,On 8 February 2013, Findus UK published a public apology on their website, also announcing that, following DNA testing, 3 of its products were found to contain horse tissue. These are the 320, 350 and 500 gram packages of Findus Beef Lasagne and the company offers a refund for products purchased.[23] In Sweden, Findus Sverige AB also announced a recall of its 375 gram packs of ready made single portion lasagne (code 63957) and published a contact number for customers who had already purchased the products”).[24]

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Bloggfærslur 31. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband