Molar um málfar og miðla 1781

FULLT AF

Í auglýsingu á bls. 30 í Morgunblaðinu (24.08.2015) er kynnt útgáfa sérblaðs um heilsu og lífstíl föstudaginn 28. ágúst , - ætti raunar samkvæmt stafsetningarorðabók Molaskrifara að vera lífsstíl. Í auglýsingunni segir: Í blaðinu verður kynnt fullt af þeim möguleikum sem í boði eru fyrir þá sem stefna á heilsuátak og lífstílsbreytingu, ... enn vantar eitt s ! Varla verður sagt, að mikil reisn sé yfir þessum texta. Fullt af .....

 

LEKI?

Er það vatnsleki, þegar vatn flæðir upp úr veitubrunni, eins og segir í þessari frétt mbl.is (24.01.2015): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/08/24/mikill_vatnsleki_i_kopavogi/

Ekki samkvæmt málkennd Molaskrifara. Svo koma aðilar að sjálfsögðu við sögu: ,, Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu eru aðilarn­ir á svæðinu þar sem „eitt­hvað stærra þarf að ger­ast“ svo hægt sé að koma í veg fyr­ir leka í framtíðinni. “ Ekki mjög skýrt.

 

ÉG OG ....

Í skóla var manni kennt að forðast eftir megni notkun fyrstu persónu fornafnsins ég. Menntamálaráðherra skrifar á fésbók (25.08.2015): ,,Í dag hófst Þjóðarátak í lestri með því að ég og Dagur Eggertsson borgarstjóri undirrituðum fyrsta sáttmálann”. Það hefði verið svolítið meiri hógværð í því að segja: ... með því að við Dagur Eggertsson ...”. En þetta er auðvitað bara spurning um smekk. Um hann verður víst ekki deilt.

 

SEKTIR

Í fréttum vikunnar var sagt frá því, að hundruð bíleigaeigenda hefðu verið sektaðir um tíu þúsund krónur hver fyrir að leggja bílum þar sem strangt tekið ekki mátti leggja. Ekki varð þó séð að þeir sem lögðu á grasi skammt frá BSÍ hafi stofnað öðrum í hættu. Margir vilja fara í miðbæinn á laugardegi menningarnætur. Íbúum á stóru svæði var meinað að aka að heimilum sínum þótt mikið lægi við. Sjálfsagt er að hafa hömlur á og takmarka umferð þennan dag, en jafn mikilvægt er að borgaryfirvöld séu sveigjanleg en mæti ekki borgurunum með hroka og ónauðsynlegri hörku eins og nú var gert. Molaskrifari er á því, að borgaryfirvöld ættu frekar að beita sér gegn því að bílar, sendibílar og jafnvel stærstu rútur, séu látnir ganga í lausagangi langtímum saman við gagnstéttir þar sem vegfarendur verða að vaða kóf dísilmengunar þegar gengið er fram hjá. Það virðist engin hugsun á því hjá stjórnendum borgarinnar. Engar sektir þar.

 

RÖNG DAGSKRÁ

Vikudagskrá sjónvarpsstöðvanna er dreift í öll hús í Garðabæ og sjálfsagt víðar. Þetta er frá fyrirtæki, sem áður var í eigu Ámunda Ámundasonar en ,,fjölmiðlamógull” Framsóknar mun nú hafa keypt. Oft er lítið að marka dagskrána. Á mánudag og þriðjudag í þessari viku var sagt, að Kastljós væri á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudag og þriðjudag! Rangt. Raunar var mánudagskrá Ríkissjónvarpsins einnig röng um eitt atriði á mánudagskvöld á heimasíðu Ríkisútvarpsins. Vanda sig meira.

 

VILJA VITA

Í fréttum Stöðvar tvö (26.08.2015) var fjallað um tannskemmdir hjá mjög ungum börnum og sagt að vandamálið væri þó algengara en fólk vildi vita. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að vandamálið væri algengara en fólk vildi viðurkenna, eða vera láta ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Bloggfærslur 27. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband