Molar um málfar og miðla 1772

NOKKRAR AMBÖGUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (11.08.2015):
,,Sæll,

Ekki er alltaf að ég hafi nennu til að skrifa hjá mér undarlegar fréttir og svo er maður sjálfur ekkert barnanna bestur. Hins vegar fannst mér þessar tilvitnanir alveg kostulegar og benda ekki til annars en að þeir sem skrifa valdi ekki pennanum, það er hafi ekki nokkurn skilning á ritaðri frásögn, hvað þá blaðamennsku. Svo er það þetta með bersöglina. Hún getur verið góð en stundum má umorða ýmislegt svo lesendum sé nú ekki ofboðið.

Nú tíðkast að blaðamenn skrifi sig fyrir fréttum og þar af leiðandi sjálfsagt að láta nöfnin fylgja gagnrýni.

Hvað þýðir „að haga sér“?

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar:„Maður er með fulla bókina af upplýsingum um það hvernig menn voru að haga sér í Eyjum um helgina. Það var gomma af Pepsi-deildar leikmönnum á Þjóðhátíð um helgina. Sumir höguðu sér, aðrir ekki.“ http://www.visir.is/rullandi-pepsi-deildar-leikmenn-a-thjodhatid/article/2015150809543

Löpp dómarans

Hörður Snævar Jónsson

„Antonio Pascoal leikmaður Afríku í 4. deildinni hefur verið dæmdur í 12 mánaða bann fyrir að stappa viljandi ofan á dómarann í leik gegn Augnablik fyrir helgi. […] Samkvæmt sjónvarvottum á vellinum stappaði hann ofan á löpp dómarans. Hann kallaði hann síðan homma og bað hann um að stinga hlutum upp í rassgatið á sér.“ http://433.moi.is/deildir/island/leikmadur-afriku-i-arsbann-stappadi-ofan-a-domarann/

 Kærar þakkir, Sigurður. Það er ekki gæðaeftirlitinu fyrir að fara!

 

GAT EKKI SINNT BÁÐU!

T.H. benti á eftirfarandi af mbl.is (11.08.2015): „Ég hef verið í þessu tvennu síðan í fe­brú­ar en það er of mikið að vera í álags­starfi eins og frétta­mennsku og sinna nýju fyr­ir­tæki. Ég þurfti að skera niður í vinnu þar sem ég gat ekki sinnt báðu leng­ur,“ seg­ir Kol­beinn í sam­tali við mbl. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/08/11/uppsognin_ekki_tengd_joni_asgeiri/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

- Gat ekki sinnt hvoru tveggja.

 

Beyging orðsins vefst stundum fyrir fjölmiðlungum, einkum eignarfallið. Það er ekki fés, eins og Molaskrifara heyrðist sagt í Speglinum (12.08.2015). Notkun þess fés sem þar aflast. Orðið fé beygist: fé,fé,fé,fjár.

 

ERLENDAR FRÉTTIR

 Gífurleg sprenging varð í hafnarborginni Tianjin í Kína, fjórðu stærstu borg Kína, hún er oft nefnd hafnarborg Peking. Molaskrifari var þar 2006. Ríkisútvarpið minntist ekki einu orði á þetta í kvöldfréttum sjónvarps (12.08.2015). Stöð tvö minntist ekki heldur einu orði á málið í sínum kvöldfréttum. (12.08.2015). Fréttin var löngu komin á vef BBC. Fréttin birtist á mbl.is klukkan 17 58. Klukkan 18:10 var fréttin , ítarlegri en á mbl.is komin á visir.is. Málinu voru svo gerð ágæt skil í seinni fréttum Ríkissjónvarps. Afar takmarkaður fréttaflutningur var hinsvegar um nóttina í Ríkisútvarpinu. Það er eins og fréttastofan hafi algjörlega vanmetið hversu alvarlegur þessi atburður var. Það er því miður ekki nýtt, að íslenskir fjölmiðlar séu lengi að taka við sér, þegar stóratburðir eða náttúruhamfarir eiga sér stað í öðrum heimshlutum.

Af mbl.is: Spreng­ing­in varð um klukk­an hálf 12 fyr­ir miðnætti á staðar­tíma. Ekki gott að blanda saman bókstöfum og tölustöfum eins og hér er gert. Annað hvort hefði átt á segja klukkan hálf tólf eða klukkan 23 30.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/08/12/gridarleg_sprenging_i_kina/

http://www.visir.is/gifurleg-sprenging-i-tianjin-i-kina/article/2015150819657

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 14. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband